Villi trymbill og gröfukallinn á Álftanesi

Mynd af Vilhjálmi Þorsteinssyni berja tóma tunnu á Austurvelli til að mótmæla sitjandi ríkisstjórn vegna fjármálatengsla ráðherra við aflandseyjar er reglulega birt á samfélagsmiðlum.

Vilhjálmur sagði af sér gjaldkerastöðu Samfylkingar í byrjun mánaðar, mætti galvaskur að mótmæla á Austurvelli um miðjan mánuðinn en segir af sér stjórnarsetu í Kjarnanum í lok mánaðarins. Hann átti sem sagt sjálfur eignir í Lúx og Tortólu en mótmælti engu að síður kröftuglega á Austurvelli.

Villi trymbill er skeggjuð útgáfa af manninum sem eyðilagði húsið sitt með gröfu rétt eftir hrun og fékk fjölmiðla til að trúa því að hann væri fórnarlamb. Þegar nánar var að gætt reyndist gröfukallinn ekki Hversdags-Jón í launavinnu heldur maður með slóða á eftir sér.

Hvað ætli séu margar útgáfur af Villa trymbli og ónafngreinda gröfukallinum sem mæta á Austurvöll að gera hávaða?


mbl.is Vilhjálmur átti félag á Jómfrúareyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar getur ekki tapað - nema í pólitík

Ólafur Ragnar Grímsson er með öll sín einkamál á þurru. Ferill Ólafs Ragnars spannar nær hálfa öld. Á þeim tíma er hann með hreinan skjöld hvað viðkemur aðskilnaði einkalífs og þátttöku í landsmálum.

Aldrei hefur verið hægt að hanka hann á því að blanda persónulegum fjármálum eða efnahagslegum ávinningi saman við opinber störf. 

Ólafur Ragnar er þeirrar náttúru að hann verður ekki sóttur nema með pólitískum vopnum. Og þar er hann meistari, sem sést á því að var kjörinn forseti 1996 með stuðningi vinstri- og miðjumanna en árið 2012 með hægri- og miðjufylgi.

Til að fella sitjandi forseta þarf að sækja að honum frá öðrum hvorum væng stjórnmálanna og fá drjúgt af miðjufylginu með. Engin slík pólitísk breiðfylking er í sjónmáli.


mbl.is Ólafur og Dorrit ekki kröfuhafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári leggst lágt

Bessastaðir sem elliheimili og skattaskjól forríkra forsetahjóna er efnislega það sem Kári Stefánsson segir í grein í Morgunblaðinu.

Þú ættir að skammast þín, Kári.


mbl.is Ólafur geri grein fyrir eignum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andskotapólitík óreiðufólksins

Ónýta Ísland var slagorð óreiðufólksins þegar það sat stjórnarráðið í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Stjórnarstefnan var að farga lýðveldinu með nýrri stjórnarskrá og afsali fullveldisins til Evrópusambandsins.

Vinstristjórnin komst til valda í kjölfar hrunsins, þegar ráðsettu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru í ónáð þjóðarinnar. 'Ónýta Ísland' var slagorð sem virkaði á þeim tíma og rímaði við mótmælaspjöldin á Austurvelli, ,,helvítis fokking, fokk". Eftir fjögur ár vinstriflokkanna sagði nei, takk við þurfum eðlilegri stjórnmál og kaus sér meirihluta ráðsettu flokkanna.

Óreiðupólitíkin fann sér nýjan farveg eftir að vinstriflokkarnir guldu afhroð 2013. Píratar urðu vettvangur óreiðufólksins enda nýtt stjórnmálaafl blautt á bakvið eyrun með huggulega lágmarkspólitík um frjálsa netheima - svona svipað og hugmyndafræði hippakynslóðarinnar um frjálsar ástir.

Andskotapólitíkin gengur út á að finna stemmara, eitthvað sem hægt er að nota til að kalla fólk til mótmæla. RÚV aðförin að forsætisráherra var slíkur stemmari. Fólk sópaðist á Austurvöll. En um leið og stemmarinn hvarf, með afsögn forsætisráðherra, afhjúpaðist innihaldsleysi óreiðufólksins. Eftir stóð frekjuleg krafa um 'kosningar strax' án þess að neinn gæti sagt um hvað þær kosningar ættu að snúast. Gísli Baldvinsson spurði í bloggi hvort stjórnarandstaðan hefði setið sama fundinn þegar óreiðufólkinu var boðið í stjórnarráðið að ræða kosningar.

Allt frá lokum fullveldisstjórnmála, á öðrum áratug síðustu aldar, er aðalmál íslenskra stjórnmála skipting þjóðartekna. Stjórnmálaflokkar voru stofnaðir til breyta skiptingunni: Alþýðuflokkur, Kommúnistaflokkur, Sósíalistaflokkur og Alþýðubandalag. Ráðsettu flokkarnir fundu orðræðu sem kom til móts við ríkjandi áherslur. Stétt með stétt var slagorð Sjálfstæðisflokksins og byggðamál pólitík Framsóknarflokksins.

Píratar, flokkur óreiðufólksins, er ekki með neina stefnu í launa- og kjaramálum. Heiðarlegasti talsmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, viðurkennir að Píratar eru ekki með neina skoðun á skattakerfinu - sem er millifærslukerfið sem færir peninga frá þeim efnameiri til hinna efnaminni.

Andskotapólitík er að tala í lýsingarorðum en trúa því að þau séu nafnorð.

 

 


Bloggfærslur 25. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband