Trump í Austurríki - veröld sem var vinstrimanna

Forsetaframbjóðandi Frelsisflokksins í Austurríki, Nor­bert Hofer, er þarlend útgáfa af Donald Trump forsetaefnis í Bandaríkjunum. Báðir koma þeir af hægri væng stjórnmálanna en tala fyrir hagsmunum launþega.

Vinstrimenn hafa yfirgefið almenna launþega og hagsmuni þeirra en staðsetja sig pólitískt með háskólamenntaðri sérfræðistétt sem alltaf er sannfærð um réttmæti skoðana ráðandi afla.

Ráðandi öfl vildu gera fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Í þeim samningi féllust í faðma tæknikratar í Brussel og demókratar í Washington. Stórfyrirtæki græddu mest á slíkum samningi oft á kostnað launþega og fullveldi þjóðríkja.

Hægrimaðurinn Nor­bert Hofer segist ekki myndi skrifa undir fríverslunarsamning ESB og Bandaríkjanna yrði hann forseti, jafnvel þótt austurríska þingið samþykkti samninginn. Hann tæki sem sagt Ólaf Ragnar á málið og vísaði því í þjóðaratkvæði.

Donald Trump keyrir kosningabaráttu sína á líkum nótum. Málflutningur Trump er ættaður frá vinstrimönnum sem einu sinni báru hag launþega fyrir brjósti. Fríverslunarsamningar sem flytja bandarísk störf suður á bóginn til láglaunasvæða í Mexíkó eru ekki í þágu bandarískra hagsmuna, segir Trump.

Hægrimenn, eins og Hofer og Trump, njóta stuðnings almennra launþega sem óttast að missa störfin til útlanda og keppa um húsnæði við innflytjendur. Vinstrimenn eru á hinn bóginn í pólitík útópíunnar þar sem Brussel og alríkið vakir yfir velferð múslíma jafnt sem kristinna og allir lifa í sátt í allsnægtum.


mbl.is Hægrimenn sigra í Austurríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningar, traust og gangverk samfélagsins

Peningar og traust hanga saman. Þeir sem tengdir eru aflandseyjupeningum eru allir með mannaforráð í stjórnmálum og atvinnulífi - lífeyrissjóðir þar meðtaldir. Þar með gera þeir allir tilkall til að almenningur treysti þeim. Í raun væri þeim ómögulegt að starfa án trausts.

Fólk man alltof vel að gangverk samfélagsins nærri stöðvaðist vegna þess að alþjóðlegt traust á íslenskum peningamönnum gufaði upp veturinn og sumarið 2008 sem leiddi beint til hrunsins þá um haustið. Peningar þjóna margvíslegu hlutverki og samfélagið er ekki starfhæft án þeirra. Vantraust kippir grundvellinum undan öllum þeim hlutverkum.

Skiljanlega er ekki enn gróið um heilt milli þjóðarinnar og þeirra sem sýsla með peninga í einhverjum mæli. Traustið tekur tíma að vinna tilbaka. Þótt peningareikningar gleymist ættu menn ekki að gleyma lexíunni um að peningar og traust hanga saman.


mbl.is Minnisleysi og misskilningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heima er best og kapítalisminn

Í meginatriðum er kapítalisminn samþykktur á vesturlöndum sem skásta hagkerfið. Frjáls verslun er betri en höft og skömmtun; markaðsbúskapur betri en áætlunarbúskapur; mannréttindi eru betur tryggð með fjölræði markaðsviðskipa fremur en einveldi fárra.

Þrátt fyrir að vera alþjóðlegur er kapítalisminn útfærður á ólíkan hátt. Kapítalismi vex af miðöldum og fær á sig annað yfirbragð í kaþólskum ríkjum en þar sem andi mótmælenda svífur yfir vötnum. Í Bandaríkjunum blandaðist kapítalisminn einstaklingshyggju og landnemahugarfari.

Fríverslunarsamningur Bandaríkjanna og Evrópusambandsins er tilraun til að gera hugmyndafræði úr kapítalisma. Það virkar ekki. Kapítalismi er verkfæri, aðlagaður að staðbundnum aðstæðum, en selur ekki sem hugmyndafræði. Til þess er hann of takmarkaður. 


mbl.is Líkur á fríverslunarsamningi að fjara út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómversk herfræði vesturlanda í miðausturlöndum

Bandaríkin lærðu það í Írak 2003 til 2010 að þeir steypa ekki svo glatt harðstjóra af valdastóli og setja upp lýðræðisríki. Harðstjórar eins og Hussein í Írak, Gadaffi í Líbýu og Assad í Sýrlandi halda saman ríki sem án þeirra leysist upp í frumeiningar trúarhópa og ættbálka í sífelldu stríði.

250 bandarískir hermenn í Sýrlandi breyta engu um ástand mála. Með stuðningi Rússa mun Assad forseti og alavítar stjórna helftinni af Sýrlandi, norðurhluti landsins er undir stjórn Kúrda en aðskiljanlegir uppreisnarhópar og Ríki íslams bítast um rest.

Vesturlönd eru ráðþrota gagnvart miðausturlöndum. Óöldin þar býr til flóttamannastraum sem vesturlönd hvorki geta né vilja taka við. Guðfræðingurinn og þingmaður Jafnaðarmannaflokks Þýskalands, Richard Schröder, segir stjórnvöld verða að herða innflytjendastefnuna og vísa frá flóttamönnum, þýskt samfélag þoli ekki ásókina. Í Austurríki eru andstæðingar innflytjendastraums í stórsókn og Austur-Evrópa lokar landamærunum.

Samtímis er ríkjandi það sjónarmið á vesturlöndum að ekki sé hægt að loka augunum fyrir harmleik miðausturlanda. William Hague, fyrrum formaður Íhaldsflokksins í Bretlandi og utanríkisráðherra, varar við að ástandið í heimshlutanum muni ekki batna í áratugi.

Hague telur óhjákvæmilegt að vesturlönd grípi inn í rás atburða. Langtímamarkmið, segir hann, er að friða miðausturlönd með virkri hernaðaraðstoð og uppbyggingu innviða. Án þess að nota samlíkinguna boðar fyrrum utanríkisráðherra Bretlands rómverska herfræði.

Rómverjar friðuðu Norður-Evrópu við upphaf tímatals okkar með hersetu á lykilstöðum, t.d. við samgönguæðar og bandalagi við valda þjóðflokka. Pax Romana var útbreiðsla rómverskrar menningar í stríðshrjáðri Evrópu sem var sjálfri sér sundurþykk. Vestrænn friður í miðausturlöndum fæli í sér að vestræn menning ryddi sér rúms með valdi og í bandalagi við útvalda.

Eins og nærri má geta líður nokkur tími þangað til slíku framtaki verður hleypt af stokkunum. Og það verður aldrei gert opinberlega. Við erum of umburðarlynd og fjölmenningarlega sinnuð til þess. Verkefnið er engu að síður óumflýjanlegt. Valkosturinn við vestrænan frið í miðausturlöndum er múslímskur ófriður á vesturlöndum.


mbl.is Sendir 250 hermenn til Sýrlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villi trymbill og gröfukallinn á Álftanesi

Mynd af Vilhjálmi Þorsteinssyni berja tóma tunnu á Austurvelli til að mótmæla sitjandi ríkisstjórn vegna fjármálatengsla ráðherra við aflandseyjar er reglulega birt á samfélagsmiðlum.

Vilhjálmur sagði af sér gjaldkerastöðu Samfylkingar í byrjun mánaðar, mætti galvaskur að mótmæla á Austurvelli um miðjan mánuðinn en segir af sér stjórnarsetu í Kjarnanum í lok mánaðarins. Hann átti sem sagt sjálfur eignir í Lúx og Tortólu en mótmælti engu að síður kröftuglega á Austurvelli.

Villi trymbill er skeggjuð útgáfa af manninum sem eyðilagði húsið sitt með gröfu rétt eftir hrun og fékk fjölmiðla til að trúa því að hann væri fórnarlamb. Þegar nánar var að gætt reyndist gröfukallinn ekki Hversdags-Jón í launavinnu heldur maður með slóða á eftir sér.

Hvað ætli séu margar útgáfur af Villa trymbli og ónafngreinda gröfukallinum sem mæta á Austurvöll að gera hávaða?


mbl.is Vilhjálmur átti félag á Jómfrúareyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar getur ekki tapað - nema í pólitík

Ólafur Ragnar Grímsson er með öll sín einkamál á þurru. Ferill Ólafs Ragnars spannar nær hálfa öld. Á þeim tíma er hann með hreinan skjöld hvað viðkemur aðskilnaði einkalífs og þátttöku í landsmálum.

Aldrei hefur verið hægt að hanka hann á því að blanda persónulegum fjármálum eða efnahagslegum ávinningi saman við opinber störf. 

Ólafur Ragnar er þeirrar náttúru að hann verður ekki sóttur nema með pólitískum vopnum. Og þar er hann meistari, sem sést á því að var kjörinn forseti 1996 með stuðningi vinstri- og miðjumanna en árið 2012 með hægri- og miðjufylgi.

Til að fella sitjandi forseta þarf að sækja að honum frá öðrum hvorum væng stjórnmálanna og fá drjúgt af miðjufylginu með. Engin slík pólitísk breiðfylking er í sjónmáli.


mbl.is Ólafur og Dorrit ekki kröfuhafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári leggst lágt

Bessastaðir sem elliheimili og skattaskjól forríkra forsetahjóna er efnislega það sem Kári Stefánsson segir í grein í Morgunblaðinu.

Þú ættir að skammast þín, Kári.


mbl.is Ólafur geri grein fyrir eignum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andskotapólitík óreiðufólksins

Ónýta Ísland var slagorð óreiðufólksins þegar það sat stjórnarráðið í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Stjórnarstefnan var að farga lýðveldinu með nýrri stjórnarskrá og afsali fullveldisins til Evrópusambandsins.

Vinstristjórnin komst til valda í kjölfar hrunsins, þegar ráðsettu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru í ónáð þjóðarinnar. 'Ónýta Ísland' var slagorð sem virkaði á þeim tíma og rímaði við mótmælaspjöldin á Austurvelli, ,,helvítis fokking, fokk". Eftir fjögur ár vinstriflokkanna sagði nei, takk við þurfum eðlilegri stjórnmál og kaus sér meirihluta ráðsettu flokkanna.

Óreiðupólitíkin fann sér nýjan farveg eftir að vinstriflokkarnir guldu afhroð 2013. Píratar urðu vettvangur óreiðufólksins enda nýtt stjórnmálaafl blautt á bakvið eyrun með huggulega lágmarkspólitík um frjálsa netheima - svona svipað og hugmyndafræði hippakynslóðarinnar um frjálsar ástir.

Andskotapólitíkin gengur út á að finna stemmara, eitthvað sem hægt er að nota til að kalla fólk til mótmæla. RÚV aðförin að forsætisráherra var slíkur stemmari. Fólk sópaðist á Austurvöll. En um leið og stemmarinn hvarf, með afsögn forsætisráðherra, afhjúpaðist innihaldsleysi óreiðufólksins. Eftir stóð frekjuleg krafa um 'kosningar strax' án þess að neinn gæti sagt um hvað þær kosningar ættu að snúast. Gísli Baldvinsson spurði í bloggi hvort stjórnarandstaðan hefði setið sama fundinn þegar óreiðufólkinu var boðið í stjórnarráðið að ræða kosningar.

Allt frá lokum fullveldisstjórnmála, á öðrum áratug síðustu aldar, er aðalmál íslenskra stjórnmála skipting þjóðartekna. Stjórnmálaflokkar voru stofnaðir til breyta skiptingunni: Alþýðuflokkur, Kommúnistaflokkur, Sósíalistaflokkur og Alþýðubandalag. Ráðsettu flokkarnir fundu orðræðu sem kom til móts við ríkjandi áherslur. Stétt með stétt var slagorð Sjálfstæðisflokksins og byggðamál pólitík Framsóknarflokksins.

Píratar, flokkur óreiðufólksins, er ekki með neina stefnu í launa- og kjaramálum. Heiðarlegasti talsmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, viðurkennir að Píratar eru ekki með neina skoðun á skattakerfinu - sem er millifærslukerfið sem færir peninga frá þeim efnameiri til hinna efnaminni.

Andskotapólitík er að tala í lýsingarorðum en trúa því að þau séu nafnorð.

 

 


Þjóðin er ekki á Austurvelli - heldur óreiðufólkið

Fáeinar hræður voru á Austurvelli í vikunni og gerðu hávaða. Enn færri hræður boða ófrið við heimili fólks. Aftur var það þjóðin sem gekk að kjörborði vorið 2013 og kaus sér þingmeirihluta.

Þingmenn eins og Svandís Svarsdóttir grafa undan stjórnskipum samfélagsins. Með stuðningi ýmissa fjölmiðla og hávaðafólks á samfélagsmiðlum reyna Svandís og félagar hennar að ómerkja lýðræðislegar kosningar.

Óreiðufólkið hélt stjórnartaumunum kjörtímabilið 2009 til 2013. Það reyndi að kollvarpa stjórnarskránni, eyðileggja gjaldmiðilinn og flytja fullveldið til Brussel. Ekkert af þessu heppnaðist.

Óreiðufólkið getur ekki farið að leikreglum og það getur heldur ekki nýtt sér leikreglurnar þegar það er við völd. Annars væri það ekki óreiðufólk.


mbl.is Dónaskapur gagnvart þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írak kenndi Bandaríkjunum lexíu

Bandaríkin voru með um 130 þúsund manna herlið í Írak, þegar mest var, en réðu samt ekki við borgarastríðið sem skall á eftir sigur þeirra á stjórn Saddam Hussein 2003.

Ormagryfjan sem opnast í ríkjum miðausturlanda þegar harðstjórar falla er ekki á færi neinna að loka nema heimamanna - í mynd einhvers konar harðstjórnar.

Engin leið er fyrir vesturlönd að setja saman lýðræðislegar ríkisstjórnir í arabaríkjunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Auk Sýrlands er borgarastríð í Líbýu og sömuleiðis í Yemen.

Tveir valdapólar eru í miðausturlöndum. Íran þar sem shítar ráða ferðinni og fjölskylduríkið Sádí-Arabía með súnnímúslíma. Íranir styðja Assad Sýrlandsforseta en Sádar og Tyrkir, sem einnig eru súnnar, eru bakhjarlar helstu uppreisnarhópanna. Ríki íslams eru þriðji aðilinn, en þeir berjast fyrir súnnísku kalífadæmi.

Rússland styður shíta en Bandaríkin súnna. Þótt takist að kveða niður Ríki íslams er sambúðarvandi súnna og shíta óleystur.

 


mbl.is Útilokar landhernað í Sýrlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband