Snjall Skúli, mistök Icelandair eða WOW á hrakvirði?

Markaðurinn refsaði Icelandair fyrir að gefa frá sér WOW, hlutabréfin féllu í gær og dag. Á yfirborðinu heyktist Icelandair á kaupunum þar sem skuldir WOW reyndust meiri en áætlað var.

Í reynd er ekki ólíklegt að yfirstjórn Icelandair hafi metið það svo að ábyrgðin á einu risafélagi með þúsundum starfsmanna og nánast allri ferðþjónustu landsins hafi ekki verið áhættunnar virði. Fyrirsjáanlegar uppsagnir starfsfólks og minna framboð af ódýrum fargjöldum, já, þeim sem kollkeyrðu WOW, myndi kalla fram harða gagnrýni.

En svo getur verið að Skúli Mogensen hafi talað við tvo aðila samtímis, Icelandair og Indigo, og ákveðið að taka betra tilboðinu.

Þriðja útgáfan er að Indigo hafi beðið á hliðarlínunni, stokkið til þegar Icelandair kippti að sér höndunum og fái WOW á hrakvirði.

Fréttir af fyrstu uppsögnum á starfsliði WOW sama dag og tilkynnt var að Indigo ætli að kaupa félagið bendir til að áætlanir um uppstokkun eru útfærðar.

Næstu dagar og vikur leiða í ljós hver kyns er á íslenska flugmarkaðnum. Ólíklegt er þó að Skúli og félagar setjist að sumbli á miðborgarbar og úthrópi meiningu sína sem verði hleruð og sett i fjölmiðla.


mbl.is Sigurður og Skúli ræddu stöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inga færir Sigmundi Davíð glaðning: 2 þingmenn

Þingmenn eru kjörnir sem fulltrúar kjósenda en ekki flokka. Þingmenn eiga að fylgja samvisku sinni en ekki flokksskipunum á alþingi. Inga Sæland formaður Flokks fólksins getur e.t.v. rekið þingmenn úr flokknum en ekki af alþingi.

Líklegast er að flokkslausu þingmennirnir starfi sjálfstætt fram yfir áramót en gangi til liðs við Miðflokk Sigmundar Davíðs undir vor.

Falleg gjöf Ingu til Sigmundar Davíðs í upphafi aðventu.


mbl.is „Eiga ekkert erindi inn á Alþingi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnsýsla aftengd lýðræðinu

Pólitískir jarðskjálftar síðustu ára, t.d. forsetakjör Trump og Brexit, stafa af vonsviknum kjósendum sem telja yfirvöld svíkjast um að hlusta á réttmætar áhyggjur af því hvert samfélag þeirra stefnir.

Algengt viðkvæði yfirvalda er að þau segjast bundin í báða skó. Yfirþjóðlegt samstarf krefjist þess að málum sé skipað í óþökk kjósenda og jafnvel gegn hagsmunum þeirra. Almenningur, seinþreyttur til vandræða, svarar með krók á móti bragði og kýs valkosti sem til skamms tíma voru á jaðrinum.

Stundum kýs fólk með fótunum. Almenningur, einkum ungt fólk, flykktist frá Eystrasaltslöndunum þegar yfirvöld þar aftengdu hagstjórnina lýðræðinu til að þóknast Evrópusambandinu. Sú saga er rakin í nýrri bók Hilmars Þórs Hilmarssonar.

Hér heima sjáum við tilburði stjórnsýslunnar til að aftengjast lýðræðinu. Þriðji orkupakkinn er valdaframsal yfir orkuauðlindum okkar í hendur Evrópusambandsins. Embættismenn, og stjórnmálamenn og álitsgjafar á þeirra vegum, segja valdaframsalið nauðsynlegt í þágu æðri hagsmuna.

Þessir æðri hagsmunir eru yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins. En það er ekkert lögmál sem segir að raforkumálum Íslendinga sé betur stjórnað í Brussel en Reykjavík. Reynslan segir okkur þvert á móti að opinbert vald sé best komið næst þeim sem eiga að búa við það. Lýðræði Íslendinga er marklaust í Brussel alveg eins og áður var í Kaupmannahöfn.


Orkupakkinn er afgangurinn af ESB-umsókninni

Í eftirhruninu urðu okkur á þau mistök að sækja um ESB-aðild. Þriðji orkupakkinn er afgangurinn af þeirri vegferð sem hófst með ESB-umsókn Samfylkingar 2009.

Greining Jóns Gunnarssonar á stöðu mála er hárrétt. Við erum ótengd raforkuneti Evrópusambandsins og ættum því ekki að innleiða neina orkupakka þaðan. Þriðji orkupakkinn gefur tilefni til að afturkalla innleiðingu tveggja fyrstu orkupakkanna. Þeir eiga ekki við íslenskar aðstæður.

ESB-umsóknin var afturkölluð áramótin 2012/2013. Notum næstu áramót til að afturkalla aðild okkar að orkustefnu ESB.


mbl.is Standi utan orkulöggjafar ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prúðu þingmennirnir, lögin og refsivöndurinn

Síðast þegar að var gáð er öllum heimilt að hafa í frammi gildisdóma um mann og annan, hvort heldur næstum edrú eða allsgáðir.

Prúðu þingmennirnir vita að ekki er hægt að lögsækja fyrir fyrir slúður.

En þá er að virkja þingsköp til að berja á kjaftagangi á krá út í bæ. Þeir prúðu fá auglýsingu og bergmálsfjölmiðlar frétt.

 


mbl.is Vilja að siðnefnd fjalli um ummælin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir flugvinir, annar gjaldþrota

Falleg vinátta er á milli forstjóra og yfirstjórnar WOW og Icelandair, ef trúa skal fréttatilkynningum. Hvor óskar hinum fararheilla og farsældar.

Annað félagið er gjaldþrota, sem gerir vináttuna enn hjartnæmari.

Í fluginu er freistandi að veðja á framtíðarvöxt með undirverðlagningu í núinu undir yfirskini samkeppni og almannaheilla. Ævintýramennska borgar sig ekki til langframa.

Eins og maðurinn sagði: þetta eru bara peningar. Aftur virkar heimurinn þannig að peningar þurfa ávöxtun, annars rýrna þeir. Engin vinátta breytir lögmálinu um peninga. 


mbl.is Hætt við sameiningu WOW og Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frosti: verslum ekki við Haga

Frosti Sigurjónsson fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins og aðalhöfundur seinni Icesave-andófsins hvetur okkur að versla ekki við Haga, sem eru Hagkaup, Bónus og fleiri verslanir. Frosti birtir eftirfarandi áskorun á Facebook:

Hagar eru að stefna ríkinu vegna "seinagangs við afnám banns við innflutningi á hráu kjöti" en það bann er nauðsynlegt til að vernda lýðheilsu í landinu og heilbrigði dýra. Hagar kjósa að hundsa allar aðvaranir sérfræðinga um slíkt. Til að mótmæla málsókn Haga gegn ríkinu mun ég beina viðskiptum mínum frá fyrirtækjum Haga: Bónus, Hagkaup, Útilíf, Ferskar kjötvörur, Zara, Bananar og Hýsing. Stærstu eigendur Haga eru lífeyrissjóðirnir okkar. Er stjórnarmönnum þeirra alveg sama um lýðheilsu og dýraheilbrigði?

Áfram Frosti, niður með Haga.


Byltingarfólkið og hliðarveruleikinn

Ragnar Þór í VR og Sólveig Anna í Eflingu eru byltingarfólk. Þau skora á hólm ríkjandi skipulag. Ragnar Þór vill virkja lífeyrissjóði sem verkfallsvopn og Sólveig Anna að launþegar yfirtaki fyrirtækin og ríkisvaldið að hætti sósíalista.

Sólveig Anna neitar því að búa í hliðarveruleika. Hún segist keik með báðar fætur í reyndinni, við hin búum í ímynduðum heimi fjármagnsafla sem mergsjúga okkur en fitna sjálf eins og púkinn á fjósabitanum.

Það má hafa gaman af sprikli tíuprósent byltingarmanna, sem tala eins og þeir séu fulltrúar fjöldahreyfingar. En við lifum á viðsjárverðum tímum. Sá kexruglaði í dag getur í krafti samfélagsmiðla og bergmálsfjölmiðla orðið spámaður á morgun.

Ef fullorðna fólkið tekur ekki höndum saman um skynsamlega stefnu gæti tíuprósentfólkið skákað okkur inn í hliðarherbergi og kveikt í þjóðarheimilinu. Auðvitað í nafni fagurra hugsjóna eins og jafnan þegar byltingin knýr dyra.


mbl.is Sýna meiri ábyrgð með að fjárfesta ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarastyrjöld Pírata á alþingi

Píratar standa fyrir óeirðum á alþingi. Þar beita þeir valkvæðri heimsku, þykjast hvorki þekkja til skráðra né óskráðra siðareglna, jafnframt því sem þeir væna samþingsmenn um glæpamennsku.

Píratar fæddust í búsáhaldabyltingunni og eftirmálum hennar. Eðli þeirra er að rífa niður en ekki byggja upp.

Á meðan Píratar eru á alþingi er styrjaldarástand - og vantraust þjóðarinnar á þinginu minnkar ekki við það.


mbl.is „Alvarlegur leki“ úr forsætisnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit, Trump og Ísland

Trump bauð Bretum fríverslunarsamning fyrir fjórum mánuðum, segja fjölmiðlar, en May forsætisráðherra hafnaði, sagði Breta ekki tilbúna að snúa baki við Evrópusambandinu.

Samningurinn sem May gerði við Evrópusambandið verður líklega felldur í breska þinginu. Bretar verða að velja á milli Bandaríkjanna og ESB, skrifar dálkahöfundurinn Jeremy Warner. 

Fari svo að Bretland halli sér meira að Bandaríkjunum og sambandið við ESB kólnar verður Ísland í þeirri stöðu að sitja á milli Bretlands og Bandaríkjanna en með hallærislegan EES-samning við ESB.

Eina raunhæfa leið Íslands er að halda að sér höndunum á meðan stórveldin útkljá sín mál. Ekki undir nokkrum kringumstæðum ættum við að festa okkur í neti ESB. Af því leiðir ættum við að afþakka þriðja orkupakkann.


mbl.is Þingið kjósi um Brexit 11. desember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband