Stjórnsýsla aftengd lýðræðinu

Pólitískir jarðskjálftar síðustu ára, t.d. forsetakjör Trump og Brexit, stafa af vonsviknum kjósendum sem telja yfirvöld svíkjast um að hlusta á réttmætar áhyggjur af því hvert samfélag þeirra stefnir.

Algengt viðkvæði yfirvalda er að þau segjast bundin í báða skó. Yfirþjóðlegt samstarf krefjist þess að málum sé skipað í óþökk kjósenda og jafnvel gegn hagsmunum þeirra. Almenningur, seinþreyttur til vandræða, svarar með krók á móti bragði og kýs valkosti sem til skamms tíma voru á jaðrinum.

Stundum kýs fólk með fótunum. Almenningur, einkum ungt fólk, flykktist frá Eystrasaltslöndunum þegar yfirvöld þar aftengdu hagstjórnina lýðræðinu til að þóknast Evrópusambandinu. Sú saga er rakin í nýrri bók Hilmars Þórs Hilmarssonar.

Hér heima sjáum við tilburði stjórnsýslunnar til að aftengjast lýðræðinu. Þriðji orkupakkinn er valdaframsal yfir orkuauðlindum okkar í hendur Evrópusambandsins. Embættismenn, og stjórnmálamenn og álitsgjafar á þeirra vegum, segja valdaframsalið nauðsynlegt í þágu æðri hagsmuna.

Þessir æðri hagsmunir eru yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins. En það er ekkert lögmál sem segir að raforkumálum Íslendinga sé betur stjórnað í Brussel en Reykjavík. Reynslan segir okkur þvert á móti að opinbert vald sé best komið næst þeim sem eiga að búa við það. Lýðræði Íslendinga er marklaust í Brussel alveg eins og áður var í Kaupmannahöfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Vondi

Það má ekki gleyma flóttamannasamningnum sem verið er að ganga inn í eftir 10-11 daga, þegar við framseljum völdin yfir landamærum okkar til Sameinuðu Þjóðanna. Það tel ég næst um því vera alvarlegri mál - því þar geta þúsundir flóttamanna flust til Íslands á skömmum tíma.

Undanfarnar vikur hafa flótamanna hópar verið að reyna að brjótast inn í Bandaríkin, en einungis hörð viðbrögð stjórnvalda þar hafa haldið þeim í skefjum. Sams konar hópar munu koma hér fyrr eða síðar.

Það er nógu slæmt að missa stjórn á auðlindum, en ef við missum stjórn á landamærum þegar flóttamannabransinn er enn í fullu fjöri er ekki gott í vændum.

Egill Vondi, 30.11.2018 kl. 07:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband