Sjálfstæðisflokkurinn, byltingin og hrunið

Þeir sem kenna Sjálfstæðisflokknum um hrunið gætu allt eins sagt að þjóðin beri ábyrgð á hruninu. Sjálfstæðisflokkurinn er allt lýðveldistímabilið móðurflokkur íslenskra stjórnmála, sem reglulega sækir umboð sitt til þjóðarinnar í lýðræðislegum kosningum.

Þeir sömu og kenna Sjálfstæðisflokknum um hrunið reyndu byltingu í eftirhruninu. Það átti með góðu eða illu að troða Íslandi inn í Evrópusambandið og afnema stjórnarskrá lýðveldisins.

Byltingaröflin náðu völdum vorið 2009 og helltu olíu á eldinn undir slagorðinu ,,ónýta Ísland". Þeim varð ekki kápan úr klæðinu og þjóðin hrakti vinstristjórn Jóhönnu Sig. frá völdum 2013. Vinstri grænir og Samfylking, sem fengu hreinan meirihluta í þingkosningunum 2009 hröpuðu niður í smáflokka, 10,9 prósent og 12,9 prósent.

Í eftirhruninu reyndu byltingaröfl á vinstri kanti stjórnmálanna að endurskrifa söguna og láta líta svo út að Valhöll stjórnaði bankakerfinu hér á landi. Var Jón Ásgeir innsti koppur í búri Sjálfstæðisflokksins? Hvað með þá Kaupþingskappa Ólaf, Hreiðar Má og Sigurð? Björgólfur Guðmundsson, aðaleigandi Landsbanka, var aftur heiðursgestur á landsfundi Samfylkingar 2003, - þegar drög voru lögð að hruni.

 


mbl.is Kenna öðrum um hrunið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanskil í góðæri - þrotafólkið

Sumir komast í vanskil í góðæri. Stundum valda heilsuleysi eða ófyrirséð áföll tekjuskerðingu sem leiða til vanskila. Félagsleg úrræði eru fyrir hendi, sem samstaða er um að veita í slíkum tilfellum.

En sumir eru í eilífu basli og kunna ekki fótum sínum fjárhagsleg forráð. Þrotafólkið eyðir ávallt meira en það aflar og trúir á lottóvinning í lífinu. Ef ekki happadrættisvinning, þá einhvern viðskiptasamning, þægilega innivinnu á háum launum, maka sem fyrirvinnu, arf eða að peningarnir vaxi einn góðan veðurdag á trjánum.

Þrotafólkið verður alltaf meðal okkar. Það er fylgifiskur sjálfsforræðisins sem við öll höfum til að haga lífi okkar á þann veg sem við kjósum - innan ramma laga og ríkjandi siðferðisreglna.

 


mbl.is 13% heimila í vanskilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, hláturinn og endalok yfirstéttar

Hlegið var að Trump á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þegar hann boðaði endalok alþjóðahyggju og upprisu þjóðríkisins, segir vinstriútgáfan Guardian. Aðrar útgáfur, t.d. mbl.is, gera því skóna að hláturinn stafaði af monti forsetans á afrekum ríkisstjórnar Bandaríkjanna.

Trump vekur ýmist hlátur en þó oftar grát og gnístran tanna. Líklega vita flestir að forsetinn er boðberi válegra tíðinda fremur frelsari.

Válegu tíðindin eru þau að Trump boðar endalok tímabils. Fólk hræðist uppstokkun, hvort heldur á eigin lífi, samfélagsins eða hinum stóra heimi. Uppstokkun fylgir óvissa.

Á hinn bóginn fylgja róttækum breytingum möguleikar að hugsa hlutina upp á nýtt. Alþjóðahyggjan var til dæmis lítt dulbúin valdsókn yfirstéttar rótlausra heimsborgara sem tróð eigin fordómum ofan í kok íbúa ólíkra menningarsvæða og heimalanda. Engin eftirsjá að henni.

Hláturinn á þingi Sameinuðu þjóðanna var taugaveiklun yfirstéttar liðins tíma.


mbl.is Afrekað meira en forverar hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traust er samnefnari í fjármálum og stjórnmálum (um s.k. hrun)

Íslenska bankakerfið var rúið trausti þegar kom að hruni. Alþjóðlegt traust á íslenskum stjórnvöldum var einnig í lágmarki.

Ísland fékk enga fyrirgreiðslu þar sem bankakerfið og útrásarauðmenn voru meira og minna með íslensku stjórnmálastéttina í vasanum; auðmenn áttu fjölmiðlana, Björgólfur Morgunblaðið og Jón Ásgeir allt hitt.

Dómsmálin eftir hrun sýndu að glæpir voru framdir. Bankar voru rændir að innan, beint fyrir framan nefnið á eftirlitsstofnunum.

Sem betur fer var Ísland ,,grátt leikið" af útlendingum. Við höfðum fyrirgert trausti á íslensku samfélagi. Vonandi tekst okkur að byggja það upp að nýju. Það tekur áratugi. Reynum að vanda okkur.


mbl.is Íslendingar „grátt leiknir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan Íslandi ómissandi, segir AGS

Krónan skilaði almenningi efnahagsbata í uppsveiflunni eftir 2013. Þegar hagkerfið var við það að ofhitna kom sterk króna í veg fyrir ósjálfbært innflæði farþega og erlends fjármagns. Þegar hættan var liðin hjá lækkaði gengi krónunnar enda þurftu útflutningsatvinnuvegir á því að halda.

Krónan þjónar sem sagt hagkerfinu og þjóðinni. Hvorki dollar né evra gætu gert það. Enda heyrist mest lítið í þeim sem vilja skipta úr jafnaðarmanni Íslands, krónunni.

Staðfesting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins liggur fyrir. Krónan er ómissandi.


mbl.is Ný áhætta í flugrekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rógur, sannleikur og atkvæði

Ástæðan fyrir því að margir trúðu ásökunum um að Brett Kavanaugh hefði gerst sekur um kynferðisbrot þegar hann var 17 ára er sú að þeir vilja hann ekki í embætti hæstaréttardómara. 

Meint fórnarlamb hafði hvorki útskýrt nákvæmlega ætlað brot né kringumstæður, nema með almennu orðalagi, en engu að síður vildu margir trúa. Við yfirvegaðar aðstæður, til dæmis fyrir dómstólum, er ætlast til að sakarefni sé vel reifað og ekki síst að sá ásakaði fái tækifæri til málsvarnar. Dómstóll götunnar er aftur allt annað en yfirvegaður. Þar gildir æsingurinn og trú á fyrirframgefna niðurstöðu.

Rógurinn er aðferð til að safna atkvæðum og fylgi án tillits til sannleikans. Síðasta mæling á fylgi stóru flokkanna í Bandaríkjunum, Repúblíkana og Demókrata, bendir til að rógberarnir eigi nokkurt starf óunnið. Repúblíkanar eru sum sé í forystu.


mbl.is „Þetta er einfaldlega rógburður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svokallað hrun og lýðveldið sem ekki féll

Hrunið haustið 2008 var fjármálahrun; bankarnir urðu gjaldþrota vegna glæpsamlegs hátternis forkólfa þeirra. Í kjölfarið kom efnahagskreppa sem var djúp í nokkra mánuði en lauk fyrri hluta kjörtímabilsins 2009-2013.

Varanlegustu áhrif hrunsins voru þó pólitísk. Ástæðan fyrir falli ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. vorið 2013 var að Vinstri grænir, einkum þó Samfylkingin, reyndu að mjólka úr hruninu pólitískan ávinning; koma Íslandi í ESB og setja þjóðinni nýja stjórnarskrá.

Ef ríkisstjórn Jóhönnu Sig. hefði náð markmiðum sínum væri hægt að tala um hrun lýðveldisins.

En fall bankanna er aðeins svokallað hrun.


mbl.is Árshátíð frestað vegna ráðherraafskipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og alþjóðahyggjan

Trump tekur kínversk störf og flytur til Bandaríkjanna. Aðferðin er að setja tolla á kínverskar vörur. Þær verða dýrari á bandarískum mörkuðum. Framleiðslan, til að hún sé samkeppnishæf, verður flutt til Bandaríkjanna.

Aðferðin sem Trump notar gagnvart Kína er sú sama og hann beitti með árangri gegn ESB

Hagfræðin á bakvið tollana er þekkt frá snemma á nýöld, kölluð kaupauðgisstefna eða merkantílismi á útlensku. Hún gengur þvert á ráðandi viðhorf alþjóðahyggju síðustu áratuga um frjálsan og óheftan flutning vöru, þjónustu og vinnuafls.

 


mbl.is Hækka tolla á kínverskar vörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurkröfur en örlítil skynsemi verkó

Verkalýðsfélögin á almennum vinnumarkaði semja um lágmarkskaup. Markaðurinn, þ.e. eftirspurn eftir vinnuafli, býr til markaðslaun sem nær alltaf eru hærri en lágmarkslaunin - misjafnlega þó eftir starfsgreinum.

Tilraunir verkalýðsfélaga til víðtæks samráðs, svokallað ofurbandalag, er annað orðalag yfir samræmdar kröfur um lágmarkslaun. Störf skapa ólíkan virðisauka fyrir atvinnurekendur. Þess vegna er munur á launum.  

Ísland er nú þegar eitt mesta jafnlaunaland í víðri veröld. Af því leiðir er lítið svigrúm til að jafna launin enn frekar.

Ofurbandalagið væntanlega beinist ekki gegn atvinnurekendum heldur ríkissjóði. En það má ekki segja upphátt vegna þess að ríkisvaldið er ekki viðsemjandi verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði.


mbl.is Vill „ofurbandalag“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katla, náttúran gera grín að Vinstri grænum

Gróðurþekja á jörðinni hefur vaxið um 7 prósent frá 1982. Heimsendaspámenn kenndir við loftslagsvá segja jörðina óbyggilega sökum aukins koltvísýrings, sem aftur er gróðri nauðsynlegur. Á Íslandi neita Vinstri grænir að sitja í ríkisstjórn nema að sett verði stopp á manngerðan koltvísýring, sem verður til við bruna á jarðefnaeldsneyti.

Vandinn er þessi: í fyrsta lagi vitum við ekki hvað er heppilegur koltvísýringur í andrúmsloftinu. Í öðru lagi vitum við ekki hver æskilegur meðalhiti á jörðinni ætti að vera. Í þriðja lagi vitum við ekki hve mikil áhrif koltvísýringur hefur á lofthita.

Til að kóróna óvissuna höfum við ekki hugmynd um hve mikið af koltvísýringi verður til í náttúrulegum ferlum, sem við höfum enga stjórn á, t.d. eldvirkni. 

Í athugasemd við færslu Magnúsar Tuma Guðmundssonar skrifar Vilhjálmur Þór Bjarnason: 

Til að setja þetta gríðarlega magn [koltvísýrings úr Kötlu] í samhengi þá eru þetta allt að 7,3 miljón tonn á ári samanborið við heildarlosun íslands á CO2 (ígildi) var 4,7 miljón tonn 2016. Ekki satt?

Enginn andmælir útreikningi Vilhjálms Þórs. Ef útreikningurinn er svo mikið sem nálægt því að vera réttur sýnir hann algert tilgangsleysi allra tillagna Vinstri grænna og vásinna um að draga úr manngerðum koltvísýringi.

Tillögur Vinstri grænna eru brandari sem náttúran afhjúpar. Þegar fólk fattar grínið er úti um fylgi Vinstri grænna.


mbl.is Mikið útstreymi CO2 ekki merki um gos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband