Móri og Hegel

Stjóri United, Mourinho, svarar gagnrýnisröddum með Hegel.

Þýski heimspekingurinn er þekktur fyrir stórar kenningar um heiminn. Eitt sinn var honum bent á að raunheimurinn passaði illa við fræðin.

,,Það er verst fyrir veruleikann," svaraði sá þýski.

Hegel er heimspekingur við hæfi Móra.


mbl.is Mourinho hvetur blaðamenn að lesa Hegel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni, nú stígum við á bremsuna

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerði ásælni Evrópusambandsins í íslensk innanríkismál að umtalsefni í vor.

Embættismenn í stöðugri leit að bithögum í Brussel eru fylgjandi framsali raforkumála Íslands til ESB. Embættismönnum finnst fullveldið engu skipta, þeir eru hvort eð er í áhrifastöðum bæði í Reykjavík og Brussel.

Almenningi finnst hins vegar skipta máli hvar völdin eiga heimilisfestu. Íslenskir kjósendur geta skipt um valdhafa í Reykjavík en ekki í Brussel.


mbl.is Flokkurinn hafni orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsmangarinn, vinstrihetjan og særða vinkonan

Vinstriútgáfur eins og New York Times, Washington Post og Guardian lyfta nýlátnum John McCaein á hetjustall. Hann var einn aðalhöfundur stríðsátaka í Úkraínu og Georgíu og einlægur stuðningsmaður innrásarinnar í Írak - sem hleypti af stað óöldinni í miðausturlöndum.

McCain var kaldastríðshaukur sem hélt áfram að skipta heiminum í vestur og austur, mennina í vonda og góða, þótt járntjaldið væri fallið og kommúnisminn dauður. Ást vinstrimanna á McCaein verður aðeins skýrð með hatri þeirra á Donald Trump, sitjandi forseta. 

Fyrrum vinkona og varaforsetaefni McCain, Sarah Palin, geldur þess að hún styður Trump og er útilokuð frá jarðaförinni.

Við útför McCain er fleira borið til grafar en stríðsmangari. 


mbl.is Palin meinað að vera viðstödd útför McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pia og Macron - tjáningarfrelsi og hryðjuverk

Macron forseti Frakklands og Pia Kjæarsgaard forseti danska þingsins ræddu um tjáningarfrelsi og ógnina af hryðjuverkum í Danmerkurheimsókn forsetans.

Pia veitti forsetanum leiðsögn og sýndi minningarskjöld um tvo Dani sem létust í kjölfar árásar múslímsk hryðjuverkmanns á fund um tjáningarfrelsi fyrir þremur árum.

Þegar Pia kom í heimsókn til Íslands í sumar skrópuðu Píratar á þingfundi og Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar sýndi forseta danska þjóðþingsins ókurteisi með því að storma af fundi þegar Pia var í ræðustól.

Tjáningarfrelsið er ekki allra. 


Sjálfstæðismenn, ekki forystan, boða til fundar

Grasrót Sjálfstæðisflokksins boðar til málstofu í dag um framsal á yfirráðarétti Íslendinga yfir raforkumálum landsins. Evrópusambandið gerir kröfu um að svokallaður ,,þriðji orkupakki" ESB taki gildi hér á landi.

Ef alþingi samþykkir kröfur ESB er íhlutunarréttur útlendinga yfir raforku landsins innleiddur í lög.

Ólíkt forystu Sjálfstæðisflokksins eru margir flokksmenn uggandi um ásælni ESB í íslensk innanríkismál. 

Fundurinn er í dag, kl. 17:30, í Valhöll.


Brexit: fjötrar en ekki fríverslun

Breska þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveim árum að ganga úr Evrópusambandinu. Ef sambandið væri félagsskapur fullvalda þjóðríkja ætti lýðræðislegur vilji að fá eðlilegan framgang.

En ESB er ekki samtök fullvalda ríkja heldur yfirþjóðlegt valdabandalag sem beitir fullvalda ríki þvingunum og refsingum til að viðhalda einingu sambandsins. Lýðræðislegur vilji aðildarríkja ESB er aukaatriði, fyrst og fremst til skrauts.

ESB hefur hótað Bretum efnahagslegum refsiaðgerðum annars vegar og hins vegar að stórspilla samskiptum innan Bretlands, milli Skota og Englendinga, og milli Bretlands og Írlands.

Í stuttu máli: ESB reynir í lengstu lög að leggja fjötra á Bretland fyrir það eitt að breska þjóðin telur hag sínum betur borgið utan sambandsins en innan þess.

Bretar, á hinn bóginn, sækjast eftir fríverslun við Evrópusambandið á grundvelli jafnræðis. Að það skuli vera vandamál sýnir betur en nokkuð annað að ESB er ekki samband fullvalda þjóðríkja heldur ágengt stórveldi sem situr yfir hlut lýðfrjálsra landa.


mbl.is Hyggst bjóða Bretum einstakan samning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn útskýrir samhengi hlutanna

 Haldi verðbólgu­vænt­ing­ar áfram að hækka og fest­ist í sessi um­fram mark­mið mun það kalla á harðara taum­hald pen­inga­stefn­unn­ar. Aðrar ákv­arðanir, einkum á vinnu­markaði og í rík­is­fjár­mál­um, hafa þá áhrif á hversu mik­ill fórn­ar­kostnaður verður í lægra at­vinnu­stigi.

Sem sagt: ef kjarasamningar leiða til verðbólgu þá hækka vextir og atvinnustarfsemi dregst saman. Afleiðingin verður aukið atvinnuleysi. Minni umsvif í efnahagslífinu vita á samdrátt skatttekna sem aftur þýðir minni velferð.

Boðorð dagsins er hóflegir kjarasamningar.

 


mbl.is Óbreyttir vextir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál eru væntingastjórnun

Stjórnmál snúast að verulegu leyti um efnahagsmál. Fyrirferðamesti þáttur efnahagsmála er sá er snýr að skiptingu verðmæta. Meginlínur í skiptingunni eru lagaðar í aðalkjarasamningum þar sem launþegar, atvinnurekendur og ríkisvaldið semja.

Kjarasamningar eru gerðir til framtíðar en með hliðsjón af þróun síðustu missera. Væntingar um betri afkomu leiða til stífari krafna um launahækkanir. Að sama skapi dregur ótti um minni hagvöxt úr kaupkröfum.

Stjórnmál eru þess vegna, þegar öllu eru á botninn hvolft, að stærstum hluta væntingastjórnun.


mbl.is Gæti þurft að endurmeta spár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður launa án sanngirni

Laun eru greidd í krónum en ekki prósentum. Samt er nær öll launaumræða um prósent hér og prósent þar. Með því að stytta eða lengja viðmiðunartíma fást hærri eða lægri prósentur í samanburði starfsstétta.

Viðurkennt er að launabil er hvað minnst hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Launajöfnuður ætti að gera auðveldara um vik að ræða hvað skilgreind störf ættu að gefa í aðra hönd. Sú umræða fer ekki fram, nema kannski í hálfum hljóðum á lokuðum fundum.

Hver eru sanngjörn laun bifvélavirkja? Kennara? Þingmanns? Ráðuneytisstjóra? Lagermanns? Sjúkraliða? Flugmanns? Ræstitæknis? - og svo framvegis.

Launasamanburður milli starfshópa fer aldrei fram á forsendum sanngirni. Hvers vegna ætli það sé? Veit enginn hver sanngjörn laun eru fyrir tiltekið starf? 

Er það svo að samanburður launa er gerður í prósentum og hlutfallshækkun gagngert í þeim tilgangi að komast aldrei að samkomulagi heldur standa í stöðugu rifrildi? Það sé í reynd þegjandi samráð um að ná aldrei sameiginlegri niðurstöðu? 

 

 

 


mbl.is Segja fullyrðinguna ranga og villandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icelandair og WOW sameinast? Nei, ekki góð hugmynd

Icelandair og WOW eiga aðeins tvennt sameiginlegt, bæði eru flugfélög og í taprekstri. Að öðru leyti eru félögin gagnólík. Icelandair stendur á gömlum merg Flugleiða, sem áður voru tvö félög, Flugfélag Íslands og Loftleiðir.

WOW er aftur sprotafyrirtæki sem kom til sögunnar þegar Ísland tók flugið sem ferðamannaland. Ef tapreksturinn heldur áfram fer WOW fyrr í gjaldþrot en Icelandair, sem stæði sterkara að vígi.

Ríkisvaldið stóð fyrir sameiningu Flugfélags Íslands og Loftleiða 1973. Tilgangurinn var að bjarga flugsamgöngum til og frá landinu.

Góðu heilli eru í dag engar líkur að eitt eða tvö flugfélög hafi í hendi sér allar flugsamgöngur landsins. Engin ástæða er til að sameina Icelandair og WOW. Tvöfaldur taprekstur er ekki betri en einfaldur.


mbl.is Sameinast flugfélögin fyrr en síðar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband