Þjóðarsátt um laun

Fyrir bráðum 30 árum var gerð þjóðarsátt um afnám verðbólgu sem hafði leikið lausum hala í áratugi. Meginástæða verðbólgunnar var vítahringar víxlhækkana launa annars vegar og hins vegar vöru og þjónustu.

Þjóðarsáttin um afnám verðbólgu hefur haldið í það stóra og heila. Það sýnir að hægt er með samstilltu átaki að ná tökum á efnahagsbreytu sem varðar allan almenning.

Þjóðarsátt um laun er löngu tímabær. Undirstöðurnar eru komnar, SALEK-samkomulagið, en útfærslan bíður eftir pólitískri forystu.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er í færum að veita þjóðarsátt um laun pólitíska forystu.


mbl.is Skoða riftun kjarasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú, heimska og Hannes

Kennsla er ekki innræting á trú eða gildismati. Þegar vel tekst til er kennsla ögrun við vitsmunalíf nemenda. Þeir sem hafa notið kennslu eftirminnilegra kennara búa að ögruninni fyrir lífstíð.

Eftirminnilegir kennarar úr háskólatíð þess sem hér skrifar eru til dæmis Gunnar Karlsson, Þorsteinn Gylfason, Páll Skúlason og Arnór Hannibalsson. Þeir sungu hver með sínu nefi, höfðu skoðanir en leituðu jafnframt að rökum og mótrökum í fyrirlestrum, umræðum og í samskiptum við nemendur í gegnum ritgerðir þeirra.

Undirritaður hefur aldrei notið kennslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, aðeins lesið eftir hann greinar og hlýtt á erindi hans. Séð frá þeim sjónarhóli er Hannes með alla burði til að ögra vitsmunalífi nemenda sinna og verða þeim eftirminnilegur.

Hannes hefur það sem allir eftirminnilegir kennarar hafa, skoðun. En sumir átta sig ekki á að skoðun og trú er sitthvað. Trú boðar, skoðanir ögra. Og það væri heimska að taka rétttrúnað fram yfir skoðanir, hvort heldur Hannesar eða annarra.


mbl.is Málið tekið fyrir á deildarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarfundur staðfestir heimspekikenningu

Orðin, og merkingin sem við leggjum í þau, stjórna heiminum að því marki sem náttúruferlar og líffræði gera það ekki. Þessi kenning heimspekingsins John R. Searle fær staðfestingu með neyðarfundi Sameinuðu þjóðanna um málefni höfuðborgar Ísraels.

Tilefnið er opinber viðurkenning forseta Bandaríkjanna á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Yfirlýsingin sjálf er aðeins orð og féllu um sig sjálf ef þau verka ekki á veruleikann. Í viðtengdri frétt segir um boðun neyðarfundarins:

Gögn­um hef­ur verið dreift til allra 193 ríkj­anna sem eiga sæti á þing­inu. Í þeim kem­ur meðal ann­ars fram að yf­ir­lýs­ing um stöðu Jerúsalem hafi ekk­ert laga­legt gildi og að fella verði hana úr gildi.

Hvers vegna að efna til neyðarfundar um yfirlýsingu er hefur ,,ekkert lagalegt gildi"? Jú, vegna þess að orð breyta heiminum eins og við þekkjum hann. Bandaríkjaforseti og Ísraelsmenn segja viðurkenninguna á Jerúsalem auka friðarlíkur milli Ísraela og Araba. Palestínumenn eru á öndverðri skoðun.

Orðin breyta heiminum oft og iðulega með því að hvetja eða letja menn til verka. Palestínumenn senda fullorðna og börn út á götur að efna til átaka við Ísraela, sem reyna að dempa hugaræsinginn sem fylgdi orðum Trump forseta.

Eins og segir í gamalli bók; í upphafi var orðið.


mbl.is Allsherjarþing SÞ boðar til neyðarfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunsæ þjóð: styður stjórnina umfram stjórnarflokkana

Þjóðin er þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar sé sú besta mögulega við núverandi aðstæður. Þessa ályktun má draga af 67 prósent stuðningi við ríkisstjórnina, þótt stjórnarflokkarnir fái samtals aðeins stuðnings 49 prósent landsmanna.

Ríkisstjórnin er sem sagt stærri en einstakir hlutar hennar.

Þjóðin veit sínu viti og ætlast til að ríkisstjórnin standi saman þótt gefi á bátinn. Fyrstu skref stjórnarinnar lofa góðu.


mbl.is 66,7% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Palestínumenn nota börn til ofbeldisverka

BBC greinir frá atviki þar sem palestínsk unglingsstúlka ræðst að vopnuðum ísraelskum hermanni og löðrungar hann.

Stúlkan hefur áður komið við sögu, en 12 ára beit hún ísraelskan hermann í höndina. Í framhaldi fékk hún heimboð frá Abbas forseta heimastjórnar Palestínu.

En við eigum sem sagt að trúa því að Ísraelsher beiti óhóflegu valdi.


mbl.is Rannsaka dráp á fótalausum manni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra launaleiðréttingin eftir áramót

Verkalýðsfélög tala ekki lengur um kauphækkun heldur ,,launaleiðréttingu." Þá er átt við að laun einhvers hóps launþega þurfi að leiðrétta, þ.e. hækka, miðað við aðra hópa.

Rökleg niðurstaða þessarar gerðar af kjarabaráttu er að allar starfsstéttir eigi að hafa í laun eitthvað hlutfall af launum annarra. Til að það geti orðið samningagrundvöllur verður að raða öllum störfum í gagnsæja launaflokka svo hægt sé að gera samanburð.

Önnur leið að sama marki er að gera launavísitölu atvinnugreina. Starfsstéttir innan hverrar atvinnugreinar tækju mið af afkomu greinarinnar í heild. Opinberir starfsmenn gætu t.d. fengið laun skv. meðaltalsþróun launavísitölu annarra atvinnugreina. Stór fyrirtæki eins og Icelandair gætu verið með sína eigin launavísitölu.

Það er ekki heppilegt að frumskógarlögmálið ráði ferðinni þegar stóra ,,launaleiðréttingin" margra starfsstétta stendur fyrir dyrum eftir áramót.


mbl.is Komust langleiðina með leiðréttinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingabók tekur við af Facebook

Facebook var einu sinni nýmæli en er orðin að almannarými. Ef Facebook yrði lögð niður myndu einhverjir setja upp sambærilegt almannarými. Innihaldið á Facebook kemur frá notendum. Miðillinn sjálfur leggur ekkert til, aðeins vettvanginn þar sem fólk skiptist á texta, hljóði og myndum.

Facebook var að alþjóðlegu risafyrirtæki vegna þess að miðillinn þjónaði í senn nærsamfélaginu og veraldarsamfélaginu. En það er nærsamfélagið sem knýr vöxtinn, ekki aðgangurinn að heimsmenningunni. Fólk notar Facebook til samskipta við þá sem það þegar þekkir. Það er kjarni miðilsins, sem hóf göngu sína sem samskiptavettvangur háskólanema.

Vörumerkið Facebook er sennilega með dýrðardaga sína að baki. En tæknin sem skóp miðilinn er orðin almannaeign. Innan tíðar verða til margar útgáfur af frummyndinni sem þjóna sínum nærsamfélögum.

Það er ástæða fyrir því að BBC er breskur fjölmiðill en ekki alþjóðlegur og CNN bandarískt sjónvarp en ekki heimsveldi. Ástæðan er takmörkuð geta mannsins til að tengjast öðrum menningarheimum en sínum eigin. Sumir eiga reyndar fullt í fangi með að ná áttum í náttúrlegum heimkynnum sínum.

Tækni flyst auðveldlega á milli menningarheima. En það gildir ekki um menninguna sjálfa. Og Facebook er aðeins tækni.


mbl.is Horfurnar dökkar fyrir Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinuðu þjóðirnar og fullveldi ríkja

Ísrael er fullvalda ríki og getur sem slíkt ákveðið höfuðborgina innan sinna landamæra. Bandaríkin eru einnig fullvalda, síðast þegar að var gáð, og í fullum rétti að viðurkenna ákvarðanir Ísraelsmanna.

En þá reynt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að ógilda lögmætar ákvarðanir.

Tilburðir Sameinuðu þjóðanna eru afleiðing af alþjóðavæðingu síðustu áratuga sem í vaxandi mæli leyfir alþjóðalega íhlutun í málefni fullvalda ríkja.


mbl.is Bandaríkin beittu neitunarvaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þola lífeyrissjóðirnir mikla launahækkun?

Lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur Icelandair. Launþegar eiga lífeyrissjóðina, en verkalýðshreyfingin ásamt atvinnurekendum, stjórna sjóðunum.

Hvorki heyrist hósti né stuna frá lífeyrissjóðunum eða ASÍ um launakröfur flugvirkja.

Er ekki tímabært að eigendur og ASÍ tjái sig um launadeiluna sem veldur því að Icelandair hrapar í verði á hlutabréfamarkaði?


mbl.is Krafan komin „verulega frá“ 20%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningar teknir af hælisleitendum, farsímar einnig

Reiðufé hælisleitenda er gert upptækt og farsímar þeirra eru teknir til skoðunar í því skyni að komast að bakgrunni hælisleitenda. Þá fá hælisleitendur ekki peninga frá yfirvöldum heldur úttektarheimildir.

Þetta eru meðal nýrra reglna sem ný ríkisstjórn Austurríkis tilkynnti. Reglurnar eru settar vegna misnotkunar á mannúðarþjónustu við fólk í neyð.

Ólögmætur flutningur fólks í vestræna velferð er stóriðnaður í Norður-Afríku og miðausturlöndum.

 


mbl.is Flestir eldri en þeir segjast vera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband