Einkauppgjör við látinn föður - hver er tilgangurinn?

Anna Ragna Magnúsardóttir gerir upp sakirnar við föður sinn, Magnús Thorlacius, sem lést fyrir 40 árum. Fyrsta setningin í uppgjörinu, eins og það birtist alþjóð, er ,,Faðir minn var pervert, nauðgari og barnaníðingur. Hann var líka hæstaréttarlögmaður og frímúrari."

Efni af þessu tagi er eftirsótt lesefni, það skýrir vilja fjölmiðla að birta það. Á Önnu Rögnu er að skilja að uppgjörið sé til að brjóta upp þrúgandi þögn fjölskyldunnar.

Blaðamaðurinn, sem vinnur efnið frá Önnu Rögnu, virðist telja það dæmi um hvernig ,,fínir menn" komist upp með að níðast á börnum. Blaðamaðurinn skrifar:

Í sumar, þegar mál Roberts Downey stóð sem hæst, kom það til tals, meðal annars af Illuga Jökulssyni, hví svo fáir „fínir menn“ hafi í gegnum tíðina á Íslandi þurft að svara fyrir níðingsskap gegn börnum.

Magnús Thorlacius er gerður að dæmi um áhrifamann sem í skjóli virðingarstöðu í samfélaginu kemst upp með glæpi. En hann naut einskins skjóls nema heimilisins, sem allir njóta hvort heldur þeir eru efst eða neðst í mannvirðingarstiganum. Málavextir bera með sér að Magnús var aldrei kærður og að meint brot hans hafi verið framin innan veggja heimilisins.

Menn verða ekki níðingar eða annars konar glæpamenn vegna þjóðfélagsstöðu sinnar. Hneigð manna til óhæfuverka ræðst af persónulegum þáttum, ekki hvort þeir eru efnaðir eða fátækir.

Í minningargrein um Magnús segir:

Magnús varð í æsku fyrir miklum heilsufarslegum áföllum, sem mörgum hefði dugað til aldurtila, en Magnús sigraði. Þetta varð hins vegar þess valdandi, að hann náði ekki þeirri líkamlegu reisn, sem hann var borinn til.

Ef tilgangurinn með því að bera einkauppgjör Önnu Rögnu við föður sinn á götur og torg væri að upplýsa, fræða eða varpa ljósi á eðlisþætti í fari manna sem brjóta á þeim sem síst skyldi væri nærtækt að skyggnast um líf gerandans, sem verður að teljast meintur í þessu tilviki þar sem aðeins fórnarlambið er til frásagnar.

 

 


Trump: alþjóðakerfið virkar ekki

Á fundi í Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, fékk Donald Trump forseti 50 mín. langa kynningu helstu yfirmanna hermála og viðskiptahagsmuna um alþjóðakerfið sem verið hefur við lýði frá lokum seinna stríðs. ,,Alþjóðakerfið virkar alls ekki," sagði Trump.

Frásögnin af fundinum, sem var í sumar, er í fréttaskýringu New York Times með fyrirsögn um að Trump brjóti 70 ára hefð bandarískrar utanríkisstefnu.

New York Times er frá gamalli tíð miðstöð frjálslyndrar alþjóðahyggju. Blaðið er stofnun í bandarískri umræðu. Þess vegna sker það í augu að í ítarlegri fréttaskýringu um utanríkisstefnu Bandaríkjanna frá lokum seinna stríðs er ekki minnst á eitt atriði sem flestir myndu halda að skipti ögn máli, sum sé að kalda stríðinu lauk fyrir aldarfjórðungi.

En það var einmitt kalda stríðið, samkeppni vestrænna þjóða við kommúnískt samfélag, sem var drifkrafturinn í utanríkisstefnu Bandaríkjanna allar götur frá því Hitler skaut sjálfan sig í byrginu í Berlín.

Frjálslynd alþjóðahyggja heldur dauðahaldi í kalda stríðið og gerir Pútín að arftaka Stalín. En Trump er saklausa barnið sem bendir á hið augljósa. Kommúnisminn er kominn á öskuhaug sögunnar. Tilgangslaust er að halda í alþjóðakerfi sem lætur eins og vofa kommúnisma leiki enn lausum hala í henni veröld.

Alþjóðakerfi sem hvílir á þeirri forsendu að barátta standi yfir á milli góðs og ills glatar þeim eiginleika sem er nauðsynlegur til að kerfið virki. Sá eiginleiki er raunsæi.


Bloggfærslur 29. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband