Formaður KÍ kærður fyrir kynferðisbrot á nemanda

Nýkjörinn formaður Kennarasambands Íslands, Ragnar Þór Pétursson, var kærður fyrir kynferðisbrot gagnvart nemanda. Kæran var lögð fram 7. janúar 2014, samkvæmt ítarlegri frétt á visir.is

Meint brot á að hafa gerst þegar Ragnar Þór kenndi nemandanum í grunnskóla á Tálknafirði.

Meint brot var tilefni rannsóknar fræðsluyfirvalda í Reykjavík, sem Ragnar Þór gerði að umtalsefni í nokkrum bloggfærslum og kvaðst ofsóttur.

Í bloggfærslum sínum um málið sagði Ragnar Þór að nafnlaus kæra hefði borist til fræðsluyfirvalda í Reykjavík. Það er ekki rétt. Kærandinn naut nafnleyndar, sem er allt annað en nafnlaus kæra.

Samkvæmt fréttinni á visir.is var kæra til lögreglunnar lögð fram í byrjun árs 2014. Ekki seinna en þá vissi Ragnar Þór hver ákærandinn var og hvað var kært. En þrátt fyrir að gera kæruna til fræðsluyfirvalda ítrekað að umræðuefni þóttist Ragnar Þór aldrei vita hver kærði og hvers vegna. Þvert á móti sagði Ragnar Þór að á bakvið kæruna hlyti að standa illgirni einhverra sem hann hafði móðgað með bloggskrifum.

Ásökun um brot jafngildir ekki sekt. Aftur er deginum ljósara að í vörn sinni hefur Ragnar Þór ekki komið hreint fram. Það er heildarsamtökum kennara ekki bjóðandi að Ragnar Þór taki við formennsku Kennarasambands Íslands.


Steinunni var fórnað, Sigmundi Davíð líka

Samfylkingarkonan Kristrún Heimisdóttir segir um aðförina að Steinunni Valdísi í samantekt RÚV:

Steinunni Valdísi Óskarsdóttur var fórnað fyrir heildina segir Kristrún Heimisdóttir. Setið hafi verið um heimili hennar fyrir að gera sömu hluti og aðrir. 

Sigmundi Davíð var einnig fórnað ,,fyrir heildina". Eiginkona Sigmundar Davíðs gerði ,,sömu hluti og aðrir."


Textaeitur Fréttablaðsins

Fréttablaðið ræðir nýja ríkisstjórn í leiðara dagsins og spyr hvers vegna tortryggni sé gagnvart stjórninni. Leiðarinn gefur þetta svar:

Jú, það er einfaldlega fyrst og fremst saga Sjálfstæðisflokksins með allri sinni spillingu, leyndarhyggju og sérhagsmunabrölti sem leiddi til þess að síðustu ríkisstjórnir með flokknum entust ekki kjörtímabilið að ógleymdu efnahagshruninu.

Svarið er rakinn þvættingur. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks féll 2016 ekki vegna neinna mála sem tengdust Sjálfstæðisflokknum. Aðför fjölmiðla að Sigmundi Davíð forsætisráðherra felldi þá stjórn.

,,Leyndarhyggja" felldi ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í haust heldur móðursýki á næturfundi Bjartar framtíðar. Um það liggur fyrir játning formanns Bjartar framtíðar.

Leiðari Fréttablaðsins er skýrt dæmi um hvernig fjölmiðlar, sumir hverjir, skapa andrúmsloft tortryggni og andstyggðar. Í þessu andrúmslofti eru búin til hneykslismál sem sömu fjölmiðlar nota til að réttlæta textaeitrið er þeir spýja yfir almenning.

Fréttablaðið og aðrir fjölmiðlar bera sinn hluta ábyrgðarinnar á sjúklegri tortryggni í opinberri umræðu.


Bloggfærslur 4. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband