Trú, heimska og Hannes

Kennsla er ekki innræting á trú eða gildismati. Þegar vel tekst til er kennsla ögrun við vitsmunalíf nemenda. Þeir sem hafa notið kennslu eftirminnilegra kennara búa að ögruninni fyrir lífstíð.

Eftirminnilegir kennarar úr háskólatíð þess sem hér skrifar eru til dæmis Gunnar Karlsson, Þorsteinn Gylfason, Páll Skúlason og Arnór Hannibalsson. Þeir sungu hver með sínu nefi, höfðu skoðanir en leituðu jafnframt að rökum og mótrökum í fyrirlestrum, umræðum og í samskiptum við nemendur í gegnum ritgerðir þeirra.

Undirritaður hefur aldrei notið kennslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, aðeins lesið eftir hann greinar og hlýtt á erindi hans. Séð frá þeim sjónarhóli er Hannes með alla burði til að ögra vitsmunalífi nemenda sinna og verða þeim eftirminnilegur.

Hannes hefur það sem allir eftirminnilegir kennarar hafa, skoðun. En sumir átta sig ekki á að skoðun og trú er sitthvað. Trú boðar, skoðanir ögra. Og það væri heimska að taka rétttrúnað fram yfir skoðanir, hvort heldur Hannesar eða annarra.


mbl.is Málið tekið fyrir á deildarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarfundur staðfestir heimspekikenningu

Orðin, og merkingin sem við leggjum í þau, stjórna heiminum að því marki sem náttúruferlar og líffræði gera það ekki. Þessi kenning heimspekingsins John R. Searle fær staðfestingu með neyðarfundi Sameinuðu þjóðanna um málefni höfuðborgar Ísraels.

Tilefnið er opinber viðurkenning forseta Bandaríkjanna á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Yfirlýsingin sjálf er aðeins orð og féllu um sig sjálf ef þau verka ekki á veruleikann. Í viðtengdri frétt segir um boðun neyðarfundarins:

Gögn­um hef­ur verið dreift til allra 193 ríkj­anna sem eiga sæti á þing­inu. Í þeim kem­ur meðal ann­ars fram að yf­ir­lýs­ing um stöðu Jerúsalem hafi ekk­ert laga­legt gildi og að fella verði hana úr gildi.

Hvers vegna að efna til neyðarfundar um yfirlýsingu er hefur ,,ekkert lagalegt gildi"? Jú, vegna þess að orð breyta heiminum eins og við þekkjum hann. Bandaríkjaforseti og Ísraelsmenn segja viðurkenninguna á Jerúsalem auka friðarlíkur milli Ísraela og Araba. Palestínumenn eru á öndverðri skoðun.

Orðin breyta heiminum oft og iðulega með því að hvetja eða letja menn til verka. Palestínumenn senda fullorðna og börn út á götur að efna til átaka við Ísraela, sem reyna að dempa hugaræsinginn sem fylgdi orðum Trump forseta.

Eins og segir í gamalli bók; í upphafi var orðið.


mbl.is Allsherjarþing SÞ boðar til neyðarfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunsæ þjóð: styður stjórnina umfram stjórnarflokkana

Þjóðin er þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar sé sú besta mögulega við núverandi aðstæður. Þessa ályktun má draga af 67 prósent stuðningi við ríkisstjórnina, þótt stjórnarflokkarnir fái samtals aðeins stuðnings 49 prósent landsmanna.

Ríkisstjórnin er sem sagt stærri en einstakir hlutar hennar.

Þjóðin veit sínu viti og ætlast til að ríkisstjórnin standi saman þótt gefi á bátinn. Fyrstu skref stjórnarinnar lofa góðu.


mbl.is 66,7% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband