Borgaralegar geðlækningar - í minningu um valkost

Fyrir hálfri öld eða svo voru ,,borgaraleg viðhorf í lækningum" gagnrýnd af vinstrisinnuðum menntamönnum, eins og Óttar Guðmundsson geðlæknir rifjar upp í minningarorðum um Tómas Helgason geðlækni í Morgunblaðinu í dag.

Óttar tilheyrir uppreisnarkynslóðinni sem kennd er við 68. Borgaraleg viðhorf voru gagnrýnd í vísindum og fræðum ekki síður en í samfélaginu yfirleitt. Fyrir hálfri öld var sem sagt til, a.m.k. í orði kveðnu, valkostur við borgaralegt samfélag. Valkosturinn var iðulega kenndur við sósíalisma í einhverri útgáfu.

Nú er Snorrabúð stekkur, valkosturinn týndur og tröllum gefinn. Kynslóðin sem bar hann fram er ráðsett og borgaraleg. Sumar hugmyndir 68-kynslóðarinnar, t.d. kynjajafnrétti, eru orðnar að innviðum samfélagsins. Það var til einhvers barist þótt stutt hafi verið í öfgaorðræðuna, samanber ,,borgaraleg viðhorf í lækningum". Hvernig ætli sósíalískar lækningar líti út?

 


Alþjóðahyggjan er gjaldþrota

Frjálslynd alþjóðahyggja var siðferðilega gjaldþrota og núna blasir við fjármálalegt gjaldþrot. Undir merkjum frjálslyndrar alþjóðahyggju fékk Sádi-Arabía leiðandi hlutverk í mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna. En konur þar í landi eru litlu betur settar en húsdýr.

Frjálslynd alþjóðahyggja setur lýðræðisríki eins og Ísrael í skammarkrókinn en verðlaunar hryðjuverkasamtök á borð við Hamas.

Frjálslynda alþjóðahyggjan nærðist á vestrænni sjálfsfyrirlitningu og upphafningu miðaldatrúarbragða eins og íslam.


mbl.is Skerða framlög til Sþ um 258 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretland og Ísland sem hjálendur ESB

Bretar vilja ekki verða hjálenda Evrópusambandsins eins og Ísland sem, ásamt Noregi og Lichtenstein, eru aðilar að EES-samningnum. Þetta segir Boris Johnson utanríkisráðherra Breta.

Breskir ESB-sinnar, t.d.

 


Ásakanamenning og þröngsýni

Hættið að kenna öðrum um ykkar ófarir, er jólaboðskapur erkibiskupsins í York. Annar áhrifamaður í Bretaveldi, Jo Johnson ráðherra háskóla, varar við þeirri hneigð háskóla að útiloka hugmyndir sem nemendur eru ósammála.

Ekki er tilviljun að varnaðarorð um ásakanamenningu annars vegar og hins vegar þröngsýni eru höfð uppi á sama tíma. Það er orðin lenska að kenna öðrum um þegar fólk klúðrar lífi sínu í stóru eða smáu. Og það eru, ekki síst í háskólum, hafðar í frammi kröfur um að óæskilegum skoðunum sé úthýst.

Samhengið á milli þröngsýni og þess að kenna öðrum um ófarir sínar er líka augljóst. Sá þröngsýni er svo upptekinn af sjálfum sér að hann lítur á aðra sem verkfæri til að uppfylla persónulegar þarfir sínar. Þegar út af bregður, og líf hins þröngsýna er eitthvað minna en fullkomið, hlýtur það að vera öðrum en honum sjálfum að kenna.

 


Læsi, hlýðni og sjálfræði

Frá Forn-Grikkjum kemur hugmyndin um að samhengi sé á milli sjálfráða einstaklinga og sjálfráðs samfélags. Ríkiskenning Platóns byggir á samsvörin milli réttláts einstaklings og fyrirmyndarríkisins þar sem dygðirnar þrjár viska, hugrekki og hófstilling eru hornsteinar.

Þekkingu, eða visku, afla menn sér með læsi. Björn Bjarnason ræðir hlut lútersku kirkjunnar í að kenna Íslendingum að lesa á 18. öld. Samhliða lestrarkennslu lagði kirkjan ríka áherslu á hlýðni.

Þekking er vald, sem bæði má nota til góðs og ills. Hlýðni er aftur taumhald. Með áherslu á að hlýðni fylgdi aukinni þekkingu, sem er afleiðing af almennu læsi, vildi kirkjan leggja taumhald á hvernig farið væri með þekkingarvaldið.

Við þekkjum hlýðni í mörgum útgáfum. Hún getur verið hundsleg undirgefni en einnig virðingarverð afstaða þar sem viðurkenndu yfirvaldi er fylgt. Lærifaðir Platóns, Sókrates, taldi aþensku lögin öllu æðri og fylgdi þeim til hinstu stundar, jafnvel þegar almenningur dæmdi hann saklausan til dauða. Á miðöldum og fram á nýöld var guð æðsta yfirvaldið sem allir skyldu hlýða. Um það voru bæði kaþólska kirkjan og sú lúterska sammála.

Í kjarna virðingarverðrar hlýðni er sjálfsaginn. Sá sem ekki býr að lágmarkssjálfsaga er ekki sjálfráður. Hvatalífið leikur þar lausum hala með dyntum sínum og taumleysi. Sama gildir um samfélag manna. Ef samfélagið sýnir ekki virðingu meginreglum, trúarlegum eða veraldlegum, leiðir það til upplausnar.

Frá upplýsingunni og með iðnbyltingunni, eða í kringum 250 ár, er veldisvöxtur þekkingar. Hlýðni og sjálfsagi vex ekki ekki í sama hlutfalli, hvorki hjá einstaklingum né þjóðum. Þess vegna erum við í nokkrum vanda með sjálfræðið, bæði einstaklinga og þjóða.

 

 

 


Trump og vestræn sjálfsfyrirlitning

Ísrael er lýðræðisríki, heimastjórn Palestínumanna er ýmist veraldleg harðstjórn (Al Fatah) eða trúarfasismi (Hamas). Viðurkenning Bandaríkjaforseta á samþykkt Bandarikjaþings frá 1995 um að flytja bandaríska sendiráðið til Jerúsalem ætti að vekja fögnuð þeirra sem taka lýðræði fram yfir harðstjórn og fasisma.

En svo er ekki. Ákvörðun Trump vekur upp draug vestrænnar sjálfsfyrirlitningar, sem tekur harðstjórn og fasisma fram yfir lýðræði og fullveldi þjóða. Fyrirsögnin á viðtengdri frétt ,,Jól í skugga ákvörðunar Trumps" er birtingarmynd þessarar sjálfsfyrirlitningar.

Yfirlýsing Trump fól ekki í sér ofbeldi af neinu tagi, aðeins staðfesting á viðurkenndri staðreynd, að Ísrael er fullvalda lýðræðisríki. Viðbrögð Palestínumanna eru aftur ofbeldi, þar sem börnum er att á foraðið.

Vestræn sjálfsfyrirlitning er aflvaki palestínskrar sjálfsblekkingar um að harðstjórn og trúarfasismi sé skárri stjórnskipun en lýðræði.


mbl.is Jól í skugga ákvörðunar Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólin eru frásögn

Maðurinn sem einstaklingur, í fjölskyldu og í samfélagi er frásögn með upphafi, miðkafla og endalokum. Saga manns, ættar og þjóðar spannar afmarkaðan tíma. Eftir því sem lengra er farið aftur verður minningin ógleggri, jafnvel þótt stuðst sé við bestu heimildir.

Enginn man eftir sér í móðurkviði. Þeir sem komnir eru til vits og ára geta kannski munað eftir sjálfum sér þriggja til fimm ára. Fjölskyldur eiga sumar nokkur hundruð ára sögu og elstu þjóðir fáein þúsund. Maðurinn sem tegund telst eitthvað um 200 þúsund ára gamall, sem er skammur tími í jarðsögunni og aðeins sekúndubrot af eilífðinni.

Maðurinn býr til frásagnir, af sjálfum sér, fjölskyldu sinni og þjóð til að gæða líf sitt merkingu. Án frásagna þrífst maðurinn ekki sem vitsmunavera.

Ein máttugasta frásögnin sem stór hluti mannkyns þekkir er af frelsaranum, fæðingu hans og boðskap.

Gleðileg jól.


Rússland og Kína styrkjast; vesturlönd veikjast

Vesturlönd töpuðu stríðinu í Sýrlandi. Bandaríkin með stuðningi Evrópusambandsins ætluðu að skipta út Assad forseta, líkt og gert var við Hussein í Írak og Gadaffi í Líbíu. Með stuðningi Rússa hélt Assad velli.

Vesturlönd standa höllum fæti í Úkraínu. Bandaríkin og ESB styðja gerspillta ríkisstjórn í Kiev en Rússar uppreisnarmenn í austurhluta landsins.

Flestir stærstu fjölmiðlar á vesturlöndum fylgja þeirri frásögn að Rússar séu uppspretta óstöðugleika í heimspólitíkinni. En því er öfugt farið. Miðausturlönd loga í ófriði, ekki vegna þess að Rússar kveiktu bál heldur hernaðarævintýra Bandaríkjanna, sem hófust með innrásinni í Írak 2003. Miðausturlönd eiga nóg með að umbreyta miðaldaháttum í samfélagsskipan á eigin forsendum. Afskipti Bandaríkjanna gerðu illt verra.

Smærri fjölmiðlar á vesturlöndum, t.d. The Nation í Bandaríkjunum, sem er virt vinstriútgáfa og stendur á gömlum merg, birta reglulega greinar er gefa betri innsýn í þróun heimsmála en frásagnir stóru miðlanna.

Patrick Lawrence skrifar um árlegan blaðamannafund Pútín Rússlandsforseta sem varir í nokkrar klukkustundir, tæpar fjórar í ár, og er vettvangur Pútín að ræða allt milli himins og jarðar. Lawerence vekur athygli á orðum Pútín um nánari samskiptum Rússa og Kína sem forsetinn telur að sé bandalag til langs tíma.

Á meðan vesturlönd eru ráðvillt og innbyrðis sundurþykk styrkist bandalag Rússlands og Kína. Úr austri kemur krafa um stöðugleika og raunsæi á meðan vesturlönd eru eins og óviti með eldspýtur.

 


mbl.is „Samskiptin hafa verið erfið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkir í ólýðræði - ábyrgð Samfylkingar

Lýðræðinu stendur ógn af virkum í athugasemdakerfum fjölmiðla og samfélagsmiðlum, sem verða ,,dagskrárstjórar löggjafarþingsins með því einu að hafa hátt,“ segir í grein Arnars Þórs Jónssonar við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Renata Martins við Kölnarháskóla og segir frá á visir.is.

Samfylkingin sérstaklega en einnig Píratar höfða með málflutningi sínum til þeirra virku í von um að ,,bloggheimar logi" og taki dagskrárvaldið af alþingi.

Málflutningur Samfylkingar gengur út á að kveikja elda í samfélaginu í von um ófrið er leiði til valdatöku flokksins.


mbl.is Fullkomin eftirgjöf VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, Brexit, Katalónía og smávegis Ísland

Almenningur á vesturlöndum sýnir vaxandi óþol gagnvart pólitísku fyrirkomulagi sem varð til í kringum lok seinni heimsstyrjaldar. Fyrirkomulagið má kenna við alþjóðahyggju og byggði á hugmynd um að stór fjölþjóðakerfi leiddu heiminn inn í bjarta og fagra nýja veröld.

Fyrstu áratugina eftir seinna stríð kepptu tvær útgáfur alþjóðahyggju um heimsforræðið. Í einn stað frjálslynd alþjóðahyggja en í annan stað kommúnísk. Eftir innrás Sovétríkjanna inn í Tékkóslóvakíu 1968 missti kommúníska útgáfan aðdráttarafl sitt en þeirri frjálslyndu óx fiskur um hrygg.

Með hruni Berlínarmúrsins 1989 og upplausn Sovétríkjanna í kjölfarið virtist frjálslyndu alþjóðahyggjunni allir vegir færir. Stór fjölþjóðakerfi, t.d. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn - öll undir forræði vestrænna frjálslyndra þjóða - stefndu heiminum í eina átt.

En það var tálsýn. Síðustu fáein ár sýna ótvírætt að heimsbyggðin ætlar ekki að taka upp samræmt alþjóðlegt göngulag. Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og sigur Trump í bandarísku forsetakosningunum á síðasta ári eru sterkar vísbendingar um að alþjóðahyggja eftirstríðsáranna sé liðin undir lok. Í þessari viku báru Sameinuðu þjóðirnar atkvæði á Bandaríkin, vegna viðurkenningar Trump á Jerúsalem sem höfuðborgar Ísraels, en það hefði verið óhugsandi í gamla fyrirkomulaginu.

Sjálfstæðisbarátta Katalóna er háð undir þeir formerkjum að Katalónar losni undan konungsríkinu Spáni en njóti styrks þeirrar deildar fjölþjóðakerfisins sem kallast Evrópusambandið. En ESB leggst ákveðið og eindregið gegn sjálfstæðistilburðunum enda samband þjóðríkja, þar sem Spánn er öflugur aðildarfélagi.

Jafnvel litla Ísland fer ekki varhluta af pólitískri uppstokkun á vesturlöndum. Í árdaga alþjóðakerfisins sat hér ríkisstjórn, nýsköpunarstjórnin, sem sprakk vegna átaka um hvoru megin hryggjar Ísland ætti að standa í afstöðunni til frjálslynda alþjóðakerfisins annars vegar og hins vegar þess kommúníska.

Allar götur síðan gátu stjórnmálaöflin, sem mynduðu nýsköpunarstjórnina, ekki starfað saman. Þangað til núna, þegar arftakar sósíalista, Vinstri grænir, taka höndum saman við fyrrum höfuðandstæðing, Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar alþjóðakerfi líða undir lok tekur við annað fyrirkomulag. Í millitíðinni er óvissa.

 


mbl.is Sigur fyrir „lýðveldið Katalóníu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband