Pútín og vestræn siðmenning

Útganga Breta úr ESB, Brexit, er sögð höfundarverk Pútíns Rússlandsforseta sem jafnfrmt studdi Donald Trump til forseta Bandaríkjanna. Nú er líklegur forsetaframbjóðandi hægrimanna í Frakklandi, Franço­is Fillon, sagður handgenginn Pútín. Fillon yrði helsti keppinautur Marine Le Pen sem er stórvinkona Pútíns. Hvernig sem færi stæði Pútín með pálmann í höndunum í Frakklandi.

Samkvæmt þessu er Pútín helsti gerandinn í vestrænni pólitík. Engu að síður er hernaðarbandalag vestrænna ríkja, Nató, búið að umkringja vesturlandamæri Rússlands með herstöðvum.

Meint áhrif Pútíns á vestræna pólitík koma í gegnum hægristjórnmál að stóru leyti. Vinstrimenn, t.d. Nick Cohen á Guardian, telja harðlínuhægrimenn hafa yfirtekið hófsama íhaldsmenn. Sem er erfitt að mótmæla.

Í kalda stríðinu var vestræn siðmenning skilgreind út frá austrænum kommúnisma - frelsi gegn kúgun. Vestræna frelsið er ekki lengur jafn eftirsóknarvert, það leiðir til upplausnar innanlands og veikgeðja utanríkisstefnu. Pútín stendur fyrir stöðugleika og afdráttarleysi, sem margir á vesturlöndum sakna, ekki síst hægrimenn.

Í Pútín sjá margir bandamann sem gæti hjálpað vestrænni siðmenningu að gyrða sig í brók og skerpa á öðrum gildum en frelsinu.


mbl.is Fillon eða Juppé?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndafræði ber vísindi ofurliði

Viðurkennd aðferð til að skilja ferla í náttúrunni eru vísindi. Þau eru þó hvergi nærri óbrigðul og lúta eins og önnur mannanna verk að hluta órökvísri hugmyndafræði. Ein slík er hugmyndafræðin um áhrif manna á loftslagsbreytingar.

Ákveðnir þættir hugmyndafræðinnar eru staðfestir, s.s. hlýnun frá dögum iðnbyltingarinnar og óæskileg áhrif af brennslu jarðefnaeldsneytis. Kapp er best með forsjá en þar virkar hugmyndafræði á útþensluskeiði ekkert alltof vel. Augljósum mótrökum við ríkjandi hugmyndafræði, t.d. þeim að loftslag á jörðinni fór í gegnum breytingar löngu áður en áhrif mannsins komu til sögunnar, er sópað til hliðar.

Hugmyndafræðin um áhrif mannsins á loftslag snýst upp í hindurvitni en ekki vísindi þegar stórfelldar aðgerðir, eins og að breyta grónu landi í mýrar, er hrint í framkvæmd án vitneskjum um hvaða áhrif aðgerðirnar hafa.


mbl.is Vantar vísindin við endurheimt mýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Castro og Trump - Ísland og Kúba

Bandaríkin lýstu Suður-Ameríku sem áhrifasvæði sitt með Monroe-yfirlýsingunni 1823. Fidel Castro steytti hnefanum framan í ofurveldi Bandaríkjanna í þessum heimshluta og Kúba galt fyrir með áratugalangri einangrun.

Kúba komst úr kuldanum í stjórnartíð þess forseta Bandaríkjanna sem nú víkur fyrir Donald Trump. Líkt og Castro er Trump maður með hnefann á lofti í þágu hagsmuna föðurlandsins. Bandaríkin eru hlunnfarin, segir Trump, og boðar utanríkisstefnu sem er með öll einkenni einangrunarhyggju.

Monroe-yfirlýsingin var upphaflega sett fram til að bægja gömlu evrópsku nýlenduveldunum Spáni, Frakklandi og Bretlandi frá vesturheimi. En hún var í fullu gildi þegar Sovétríkin reyndu að efla áhrif sín í heimshlutanum með bandalagi við Castro og Kúbu. Við lá að kalda stríðið breyttist í þriðju heimsstyrjöld vegna deilunnar.

Þótt Castro-fjölskyldan ráði enn ferðinni á Kúbu er hnefanum ekki lengur steytt framan í forræði Bandaríkjanna í Suður-Ameríku. Trump forseti má vita að Monroe-yfirlýsingin gildir enn í bakgarði Bandaríkjanna.

Önnur spurning er um endimörk bandarísks áhrifasvæðis í austri. Trump hyggst draga úr viðbúnaði Bandaríkjanna í Evrópu. Hernaðarbandalag Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna, Nató, sem stofnað var til í kalda stríðinu er komið langt inn í Austur-Evrópu og ógnar þar öryggishagsmunum Rússa. Bandaríkin fjármagna 70 prósent af rekstri Nató og Trump boðar niðurskurð sem mun fyrr heldur en seinna kalla á undanhald Nató.

Tuttugu árum áður en Castro tók völdin á Kúbu ræddu Íslendingar að stofna lýðveldi og segja endanlega skilið við lítið evrópskt nýlenduveldi, Danmörku. Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins segir um einn aðdraganda þess:

12. júlí 1940
Íslendingar spyrja bandarísk stjórnvöld óformlega hvort þau muni verja Ísland samkvæmt Monroe-kenningunni.

Íslensk stjórnvöld fengu svör sem réttlættu gerð herverndarsamnings við Bandaríkin. Í framhaldi urðu Íslendingar stofnaðilar Nató.

Við eigum sem sagt Monroe-yfirlýsinguna sameiginlega með Kúbu. Og ekki líklegt að það breytist þótt Nató lendi í ógöngum.

 


mbl.is Fidel Castro látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væntingar og frásögn nýrrar ríkisstjórnar

Smáflokkastjórnin þótti ókræsileg fyrirsögn og bauð ekki upp á trúverðuga frásögn af ríkisstjórn fjögurra vinstriflokka og Viðreisnar. Þess vegna var slík ríkisstjórn ekki mynduð.

Áður var prófað að setja saman frásögn af Engeyjar-stjórn en sú féll á fyrstu efnisgrein.

Næsta tilraun heitir ýmist ,,sögulegar sættir" eða ,,neyðin kennir naktri konu að spinna". Frásögnin þarf ekki að vera góð, bara skárri en hinar. Væntingastjórnun er óopinberlega viðurkennd sem brýnasta list stjórnmálamanna. Úr þeirri list sprettur skásta frásögnin. 

 


mbl.is Enginn einn flokkur fær umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn gera alþingi óþarft

Alþingismenn og stjórnmálaflokkar á þeirra vegum vinna að því hörðum höndum síðustu tvö kjörtímabil að gera löggjafasamkomuna óþarfa. Í stað þess að yfirvega lög landsins og almannahag er ræðustóll þingsins notaður til að stunda málfundaæfingar í þágu sértrúarhópa.

Samfylkingin reið á vaðið árið 2009 og boðaði ESB-trú. Afsprengi Samfylkingar, Björt framtíð, er svo málefnalaus að hún skráði sig í heilu lagi inn í annan stjórnmálaflokk strax eftir kosningar. Nördafélagsskapurinn Píratar er harður á þeirri sérvisku sinni að þingmenn eigi ekki að sinna landsmálum heldur verði utanþingsmenn settir í landsstjórnina.

Vinstrimenn eru sérstaklega hneigðir til sértrúarhyggju. Þess vegna þurfa þeir svona marga flokka. Eðli sértrúar er að stofna flokk um sérmál. Á síðasta kjörtímabili gerðist það að sérvitringar á hægri vængnum leituðu í smiðju vinstrimann og stofnuðu sértrúarflokk, Viðreisn.

Höfuðpáfi sértrúarsafnaðanna, Össur Skarphéðinsson, sér núna, loksins, loksins villu síns vegar og biður um að þeir tveir stjórnmálaflokkar sem standa undir nafni, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sjái um landsstjórnina. Á meðan geta þingmenn í friði ærslast á Austurvelli, innan og utan þinghússins.

 


mbl.is Össur vill sjá Alþingi stjórna Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálakreppan lýsir vangetu vinstriflokka og Viðreisnar

Á Íslandi er góðæri: hagvöxtur, full atvinna og bjartar framtíðarhorfur. Samt er stjórnmálakreppa. Ástæðan er eftirfarandi:

Stjórnmálamenn eru fangar sinnar eigin orðræðu. Þetta á fyrst og fremst við vinstriflokkana og nýja framboðið, Viðreisn. Á síðasta kjörtímabili notaði stjórnarandstaðan hvert tækifæri til að hallmæla og hrakyrða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Í stað þess að móta stefnu sem væri valkostur við sitjandi ríkisstjórn buðu vinstriflokkarnir og Viðreisn upp á mótmæli á Austurvelli. Ekkert uppbyggilegt hlýst af mótmælum sem bjóða ekki fram valkost.

Smáflokkabandalag Viðreisnar og vinstriflokka eyddi nokkrum dögum í stjórnarmyndun sem var feig frá upphafi: mótmælaflokkar geta ekki boðið upp neinn valkost við ríkisstjórnarstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Eina rökrétta niðurstaðan er að einhver smáflokkanna, vonandi Vinstri grænir, brjóta odd af oflæti sínu og gangi til liðs við sitjandi ríkisstjórn.

Oflætið er eins og drambið - falli næst.

 

 


mbl.is Framsókn áhugalaus um samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarti-Pétur og málamiðlun með útilokun

Svarti-Pétur lendir hjá þeim flokkum sem stunda mótsögnina 'málamiðlun með útilokun'. Mótsögnin varð til þess að fimm smáflokkar eyddu nokkrum dögum í sameiginlegt verkefni; að útiloka aðkomu þess flokks sem nýtur stuðnings 29 prósent þjóðarinnar og með langstærsta þingflokkinn.

Smáflokkarnir fimm áttu ekkert sameiginlegt nema að vilja útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá landsstjórninni. Mótsagnapólitík eins og 'málamiðlun með útilokin' er dauðadæmd af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi tekur hún ekki mið af hörðum pólitískum staðreyndum og í öðru lagi er tómt mál að tala um að halda saman ríkisstjórn á þeim forsendum að vera á móti.

Hlutverk stjórnarandstöðu er að vera á móti. Ríkisstjórn hlýtur alltaf að standa fyrir eitthvað, vera með en ekki á móti. Þeir sem sitja uppi með Svarta-Pétur skilja ekki þennan greinarmun.


mbl.is Hver er Svarti-Pétur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Án Sjálfstæðisflokks er engin málamiðlun

Fyrsti þingmaður í öllum kjördæmum landsins er sjálfstæðismaður. Ástæðan? Jú, stærsti kjósandaendahópurinn í hverju einasta kjördæmi landsins taldi að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að eiga aðild að landsstjórninni.

Allar tilraunir til að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá ríkisstjórn eru því marki brenndar að um leið er tæplega þriðjungur þjóðarinnar sniðgenginn. Allir sanngjarnir hljóta að sjá í hendi sér að engin möguleg ríkisstjórn sátta og samlyndis getur verið sett saman án aðildar Sjálfstæðisflokksins.

Það er einfaldlega pólitísk staðreynd að án Sjálfstæðisflokksins er ekki hægt að mynda ríkisstjórn sem byggir á lýðræðislegri málamiðlun.


mbl.is Líkur á aðkomu Framsóknar aukist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlast, gildisdómar og tvískinnungur

Til skamms tíma var í gildi lagaákvæði sem gerði guðlast refsivert. Sú fyrnska var aflögð fyrir hálfu öðru ári. Nú er hverjum frjálst að tjá sig um trúmál og teljast það gildisdómar, sem ekki eru refsiverðir.

Sigríður Á. Andersen þingmaður benti á að tvískinnungs gætti hjá alþingi þegar lög um guðlast voru afnumin. Greinin sem Sigríður vísaði til um tvöfeldnina er einmitt 233. grein hegningarlaganna, sem Pétur er ákærður að hafa brotið.

Lögreglan ætti að hafa önnur forgangsmál en að ræna borgarana frelsi að tjá sig í ræðu og riti.


mbl.is Pétur ákærður fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar útiloka sjálfa sig frá ríkisstjórn

Píratar kynntu sig sem byltingarafl. Uppstokkun stjóraskipunar með nýrri stjórnarskrá var meginstef þeirra í kosningabaráttunni. Innan við 15 prósent þjóðarinnar veitti Pírötum stuðning.

Byltingu verður ekki hrint í framkvæmd með 15 prósent fylgi almennings. Meira þarf til

Valkostir Pírata eru tveir. Í fyrsta lagi að færa sig nær ríkjandi viðhorfum, sem er hægfara breytingar en ekki bylting. Í öðru lagi að halda í byltingarhugsjónina og afla henni meira fylgis.

 


mbl.is Segja Pírata ekki hafa staðið í veginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband