Björt framtíð boðar svartnætti smælingja

Smáflokkur Bjartar framtíðar vill að foringi smælingjanna, Benedikt V. í Viðreisn, fái umboð til mynda veika minnihlutastjórn. Þetta eru klækjastjórnmál, hönnuð til að þokuleggja lýðræðislegar kosningar.

Stjórnmálamenn sem reyna með klækjum að hindra framgang lýðræðislegra kosninga vinna gegn þjóðarhagsmunum.

Íslenska hefðin er að meirihlutastjórnir fari með landsstjórnina. Tilraun til að breyta áratugahefð er ósvífið valdaskak.


mbl.is Benedikt fái umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamál Vinstri grænna: fúll á móti heilkennið

Á eftir Sjálfstæðisflokknum voru Vinstri grænir sigurvegarar kosninganna. Í stað þess að nýta sér meðbyr almennings og gera kröfu um áhrif á landsstjórnina til samræmis við fylgi stukku Vinstri grænir beint ofan í skotgrafirnar og harðneituðu að vinna með þjóðarflokknum.

Í kosningabaráttunni var slagorð Vinstri grænna ,,treystið okkur". 

Eftir kosningar kom á daginn að seinni hluta slagorðsins vantaði: ,,treystið okkur til að vera fúll á móti."


mbl.is Ræddi við Bjarta framtíð og Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn er klofin milli landsbyggðar og höfuðborgar

Framsóknarflokkurinn er 20 prósent flokkur á Norðurlandi og Suðurlandi en 5 til 7 prósent flokkur í Reykjavík og SV-kjördæmi. Til að verða stjórnmálaafl sem telur þarf flokkurinn að blanda saman róttæki og íhaldssemi.

Undir forystu Sigmundar Davíðs varð flokkurinn róttækur í þeim málum sem þurfti, t.d. skuldaleiðréttingu heimilanna og uppgjöri við þrotabú bankanna, en íhaldssamur í afstöðu til stjórnskipunar og í utanríkismálum.

Flokkseigendafélag Framsóknar stóð fyrir hallarbyltingu í aðdraganda kosninganna og tefldi fram hreinræktuðum landsbyggðarformanni. Við það missti flokkurinn öll sóknarfæri á Suðvesturhorninu.

Framsóknarflokkurinn er kominn í sömu stöðu og hann var í undir formennsku Halldórs Ásgrímssonar. Hægt en öruggt tímabil hnignunar blasir við.


mbl.is Kallar eftir afsögn formannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benedikt V og smælingjarnir til vinstri

Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar er fimmti maðurinn sem fær áheyrn hjá forseta Íslands á morgun, sem kallar til sín fulltrúa þingflokka eftir stærð. Aðeins tveir flokkar eru minni en Viðreisn, Björt framtíð og örflokkur Samfylkingar.

Samt sem áður vill Benedikt verða forsætisráðherra. Í krafti þess að Saga class útgáfa Sjálfstæðisflokksins sé miðjuflokkur.

Undir þessu sitja smælingjaflokkar eins og Vinstri grænir og Píratar sem standa ekki fyrir annað en ábyrgðalaus mótmæli á Austurvelli og málþófi á alþingi.

Í RÚV-umræðum kvöldsins sýndi sig að foringi vinstriflokkanna er Benedikt innherji í Nýherja. Vinstrimenn hljóta að fyllast stolti.


mbl.is Hefði átt að þvo vinstristimpilinn af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-dauði Samfylkingar, sveitaflokksins

Samfylking er með 3 þingmenn, alla úr landsbyggðarkjördæmum. Flokkurinn er eini hreinræktaði ESB-flokkur landsins en á engan þingmann í þeim kjördæmum þar sem áhugamenn um ESB-aðild er helst að finna.

ESB-stefna Samfylkingar drap flokkinn. Í ríkisstjórn Jóhönnu Sig. fékk flokkurinn tækifæri að hrinda stefnunni í framkvæmd en mistókst hrapalega. Eftir það átti Samfylking að draga lærdóm af og setja ESB-málið ofan í skúffu.

En Samfylkingu var um megn að draga lærdóm af reynslunni og stökk á popúlistavagn Pírata. Afleiðingin er steindauður flokkur.


mbl.is Móta afstöðu til viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur með eða án Vinstri grænna

Sjálfstæðisflokkurinn er fyrsti kostur flestra kjósenda í öllum kjördæmum. Þjóðarflokkur landsins hlýtur að vera burðarás næstu ríkisstjórnar.

Sjálfstæðisflokkurinn getur myndað miðhægristjórn með Saga class útgáfu sinni, Viðreisn, og Framsóknarflokknum. Slík stjórn er þó ekki skynsamleg, hvorki í bráð né lengd. Án aðkomu vinstriflokka að ríkisstjórn er stór kjósendahópur útilokaður. Og það er hvorki klókt né lýðræðislegt.

Nærtækast er að Sjálfstæðisflokkur bjóði Vinstri grænum til stjórnarsamstarfs. Þriðji flokkurinn í þeirri samsteypustjórn gæti verið Framsókn, Björt framtíð eða Viðreisn.

Ef Vinstri grænir eru ófærir um að starfa með Sjálfstæðisflokknum kæmi Björt framtíð til álita ásamt Framsóknarflokknum.

Vinstri grænir verða að gera upp við sig hvort þeir séu andófsafl af pírataætt eða ábyrgur stjórnmálaflokkur.


mbl.is Útilokar eingöngu Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáflokkastjórn væri móðgun við þjóðina

Þjóðin hafnaði tilboði Pírata um vinstristjórn. Tilburðir Viðreisnar um að ganga til liðs vinstriflokkanna fjögurra og mynda meirihluta á alþingi eru pólitískt hlægilegir og móðgun við þjóðina.

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir ættu að vera burðarásar nýrrar ríkisstjórnar. Þriðji flokkurinn gæti verið Framsókn, Björt framtíð eða Viðreisn.

Forystumenn flokkanna ættu ekki að láta daginn líða án þess að sýna að þeir kunni pólitík og skilji niðurstöðu lýðræðislegra kosninga.


mbl.is Hverjir eru öruggir inni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur og Vg í stjórn með Framsókn eða Viðreisn

Sigurvegarar kosninganna eru Sjálfstæðisflokkur fyrst og fremst en í sterku öðru sæti koma Vinstri grænir. Þessir flokkar eru hvor á sínum enda pólitíska litrófsins og ættu að mynda ríkisstjórn í nafni sátta og málamiðlana í samfélaginu.

Flokkarnir tveir þurfa þriðja hjólið undir vagninn til að fá starfhæfan meirihluta. Eðlilegast er að það verði annað hvort Framsóknarflokkur eða Viðreisn.

Viðreisn er meiri hægriflokkur en Framsókn og því fjær Vinstri grænum í pólitískum áherslum. Á móti kemur að ef Framsókn yrði þriðja hjólið kemur málið út eins og Vinstri grænir séu að bjarga fallinni stjórn. En Framsókn yrði litli flokkurinn í stjórninni og fengi veigaminnstu ráðuneytin.

Þriðji möguleikinn er að Björt framtíð yrði viðbótin, en það er veikasti leikurinn. Björt framtíð er vasaútgáfa af Pírötum.

Bjarni Ben. og Kata ættu að spjalla saman í nótt og finna samstarfsflöt. Við ættum ekki að þurf að bíða nema í svona 12 til 36 klukkustundir áður en nýr stjórnarmeirihluti er tilkynntur.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn grætt á Pírötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV-stjórnin lifði í sex daga

Píratar í samvinnu við RÚV bjuggu til ríkisstjórn vinstriflokka á sunnudaginn var. RÚV flutti linnulítið jákvæðar fréttir af stjórninni og sópaði undir teppið vondum fréttum en allt kom fyrir ekki.

Fréttamenn RÚV eru með böggum hildar í beinni og tala helst um Panamaskjöl og fallna ríkisstjórn en gleyma aðalniðurstöðu kosninganna, sem er stórsigur Sjálfstæðisflokksins.

RÚV fékk ásamt Samfylkingu lítilmótlegustu útkomu kosninganna.

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með 27,7% í NA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórflokkurinn og annars flokks fræðimenn

Annars flokks fræðimenn við þriðja flokks háskóla tala um ,,hrun fjórflokksins" í þessum kosningum. Þeir kunna ekki að greina á milli tveggja merkinga hugtaksins ,,fjórflokkurinn".

Síðustu tvo áratugi liðinnar aldar var hugtakið notað um samtryggingarkerfi stjórnmálaflokka. Þeir sem töldu litlu skipta hverjir væru við völd notuðu þetta orð og sögðu að sami rassinn væri undir þeim flokkum.

Önnur merking hugtaksins er að það lýsir stjórnmálakerfi lýðveldisins. Fjórir flokkar, plús einn eða tveir annað slagið, þöktu pólitíska litrófið og ekki var þörf á fleiri flokkum.

Fjórflokkakerfið í fyrri skilningnum leið undir lok upp úr síðustu aldamótum og alfarið eftir hrun. Það dettur t.d. engum í hug, nema kannski bjána á Bifröst, að segja vinstristjórn Jóhönnu Sig. hafa verið ,,fjórflokkastjórn".

Seinni merking hugtaksins lýtur að fjölda flokka og í þeim skilningi getur dánardægur fjórflokksins ekki verið seinna en 2013. Það vita allir sem fylgjast með pólitík.


mbl.is 35,82% hafa kosið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband