Samfylkingin í fjármálaráðuneytið

Í ríkisstjórn vinstriflokkanna gæti Samfylkingin fengið fjármálaráðuneytið. Færi svo yrðu Samtök fjármálafyrirtækja hoppandi kát enda nýr framkvæmdastjóri þeirra enginn annar en fyrrverandi fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, sem þartil fyrir skemmstu var þingmaður Samfylkingar.

Katrín er núna hluti af baklandi Samfylkingar. Komist Samfylking í ríkisstjórn verður baklandið lifandi sem aldrei fyrr, jafnvel þótt um örflokk sé að ræða með 5,7 prósent fylgi.

Katrín gæti reynst nýjum vinnuveitendum sínum gulls ígildi. Samtök fjármálafyrirtækja ,,byggja upp heil­brigt og traust fjár­mála­kerfi", eins og alþjóð veit. Á tímum útrásar höfðu samtökin forgöngu um gengistryggð lán, sem síðar reyndust ólögleg, og lögðust jafnframt á árarnar við að gera Íslendingum kleift að opna bankareikninga í útlöndum, til dæmis í Panama.

Katrínu er óskað velfarnaðar í starfi.


mbl.is Katrín ráðin framkvæmdastjóri SFF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarmyndun er minnsta málið - baklandið er hættan

Stjórnmálaflokkar eru með sitt bakland, bæði formlegt s.s. flokksstofnanir og óformlegt sem eru ýmsir hópar með ítök - flokkseigendur, áhugahópar um afmörkuð málefni, hagsmunasamtök og svo framvegis.

Þingmenn styðjast við baklandið til að ná sæti á flokkslistum. Þegar þingmaður verður ráðherra er hann með tvöfalt bakland á herðum sér, sitt eigið, sem tryggir honum stöðu innan flokksins, og bakland flokksins í heild.

,,Nú getum við," er algengt viðhorf baklandsins þegar búið er að tryggja völdin með ríkisstjórnarþátttöku. Þá koma fram hverskyns kröfur um að þetta eða hitt málið fái þessa eða hina afgreiðsluna.

Ef baklandið fær ekki sitt er hætta á uppreisn og þá er staða viðkomandi flokks/þingmanns/ráðherra í uppnámi. Stjórnmálaflokkar læra af reynslu að finna jafnvægi milli almannahagsmuna og sérmála baklandsins. Að ímynda sér að nýir og óheflaðir flokkar eins og Píratar og Viðreisn séu þar í sömu stöðu og stjórnmálaflokkar sem eru eldri en lýðveldið er ekki stjórnmálafræði heldur lísu-í-undralandifræði. 

 


mbl.is Telur að fimm flokka stjórn gæti náðst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja-Katrín og fúll á móti

Andófsflokkarnir fimm sem þykjast ætla smíða ríkisstjórn eiga eitt sameiginlegt: að vera á móti.

Viðreisn var búin til af fáeinum sjálfstæðismönnum sem urðu undir á landsfundi. Píratar eru mótamælahreyfing eftirhrunsins. Björt framtíð er afgangurinn af brandaraandófi Besta flokksins. Slagorð Samfylkingar er ,,ónýta Ísland". Vinstri grænir urðu til vegna þess að Steingrímur J. og Ögmundur höfnuðu hjónasæng Samfylkingar um aldamótin.

Andófsfólk gengur fyrir mótmælum, samanber uppákomur á Austurvell síðustu tvö kjörtímabil. Ein þau fáfengilegustu voru jæja-mótmælin, sem voru til þess eins að hittast við styttu Jóns Sigurðssonar og sýna fram á ,,áhrifarík mótmæli". Enginn málstaður, aðeins mótmæli.

Mótmælendur kunna ekki að stjórna; innsta eðli þeirra er að vera á móti. Þeir neita málamiðlunum enda sjaldnast hægt að henda reiður á hverju þeir eru fylgjandi. Fúll á móti getur ekki stjórnað, ekki einu sinni sjálfum sér hvað þá öðrum.

Katrín Jakobsdóttir er varla með svo lága pólitíska greindarvísitölu að hún haldi að fimm flokka mótmælastjórn lifi lengur en fáeina mánuði. Líklegast er að fimm flokka sýningin sé leikrit fyrir jæja-fólkið. Mótmælin liggja í loftinu og vinstriflokkarnir verða að gera eitthvað. Bara eitthvað.


mbl.is „Bjartsýn en líka raunsæ““
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband