ESB er fangi eigin stórveldisdrauma

Bandaríkin standa fyrir 70 prósent af kostnaði við hernaðarbandalagið Nató. Evrópusambandið stækkaði inn í Austur-Evrópu undir hlífiskildi Nató og innbyrti Eystrasaltsríkin, Pólland, Rúmenínu, Ungverjaland, Búlgaríu og Tékkóslóvakíu, sem nú er tvö ríki. Öll þessi ríki voru á viðurkenndu áhrifasvæði Sovétríkjanna, sem liðuðust í sundur fyrir aldarfjórðungi.

Þegar Evrópusambandið, í samvinnu við Bandaríkin og með Nató sem verkfæri, ætlaði að innlima Úkraínu sögu Rússar hingað og ekki lengra. Vestræn yfirtaka á Úkraínu ógnaði öryggishagsmunum Rússlands. Í dag geisar borgarastríð í Úkraínu.

Án Nató er stöðutaka Evrópusambandsins í Austur-Evrópu vonlaus. Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar ekki að fjármagna valdadrauma ESB í austri, heldur leita samkomulags við Pútín Rússlandsforseta.

Evrópusambandið boðar stofnun Evrópuhers til að bæta upp minni framlög Bandaríkjanna til Nató. Eitt öflugasta herveldi ESB, Bretland, er á leiðinni út. Það þýðir að Frakkar og Þjóðverjar verða að bera uppi nýja Evrópuherinn, sem verður fyrst og fremst ógn við öryggishagsmuni Rússlands.

Evrópa stóð fyrir tveim heimsstyrjöldum á síðustu öld vegna innbyrðis landamæradeilna. Staðan sem nú er komin upp er að breyttu breytanda áþekk þeirri sem blasti við um aldamótin 1900. Bandaríkin eru áhugalaus um framtíð Evrópu og Bretar hikandi að taka á sig ábyrgð á landamæraskiptingu álfunnar. Helsti munurinn er að í fyrri heimsstyrjöld voru Frakkland og Rússland bandamenn. Í dag standa Frakkar og Þjóðverjar saman gegn Rússum.

Evrópusambandið var stofnað til að Frakkar og Þjóðverjar græfu stríðsöxina. En eftir að Evrópusambandið tók upp úþenslustefnu í Austur-Evrópu hitti það fyrir rússneska björninn. Aldrei kom til tals að bjóða Rússlandi aðild að Evrópusambandinu, til þess er Rússland of stórt og myndi riðla valdajafnvægi sambandsins.

Í stað þess að leita samkomulags við Rússa eftir fall Sovétríkjanna tók Evrópusambandið upp herskáa stefnu sem núna tapar öllum trúverðugleika - eftir kjör Trump, sem ekki hefur áhuga á valdaskaki í Austur-Evrópu.

Evrópusambandið er skelfingu lostið. Þó ól með sér draum um að verða stórveldi en býr ekki að þeim eina innviði sem er forsenda stórvelda: sínum eigin her.

Annað tveggja gerist á næstum árum. Ólíklega útgáfan er að Evrópuher verði skipulagður til að mæta Rússum í austri. Líklegra er að Evrópusambandið verði knúið til að láta af stöðutöku sinni í Austur-Evrópu og semji við Rússa úr veikri stöðu.

Evrópusambandið er þrátt fyrir allt aðeins stórveldisdraumur embættismanna í Brussel. En engin söguleg dæmi eru um að embættismenn skapi stórveldi - þótt þeir séu nauðsynlegir til að halda þeim gangandi. Til að Evrópusambandið verði stórveldi þarf sameiginlega hugsjón þeirra þjóða sem mynda sambandið. Slík hugsjón er ekki til.

 


mbl.is Trump snúi ekki baki við Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Valur hrósar Óttari - vinstrimenn skilja ekki málamiðlun

Varaformaður Vinstri grænna, Björn Valur Gíslason, hrósar Óttari Proppé fyrir að ganga til stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokknum. Rök Björns Vals:

Kjósendur sendu stjórnmálamönnum þau skilaboð í kosningunum að þeir ættu að ræða sig til lausna. Óttar Proppé og félagar hafa meðtekið þau skilaboð. Stjórnarsáttmáli næstu ríkisstjórnar verður málamiðlun á milli þeirra flokka sem mynda stjórnina. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf.

Jóhanna Sigurðardóttir og margir vinstrimenn aðrir vilja ekki skilja innsta eðli lýðræðislegra stjórnmála, sem er málamiðlunin.

Vinstrimenn buðu fram fjóra flokka af ýmsum sortum í nýafstöðnum kosningum: Vinstri græna, Pírata, Bjarta framtíð og Samfylkingu. Þessir flokkar fengu samtals 27 þingmenn. Til að ná meirihluta á alþingi þarf 32 þingmenn eða fleiri.

Meirihluti þjóðarinnar kaus annað en vinstriflokkana. Stærsti kjósendahópurinn, 29%, kaus Sjálfstæðisflokkinn. Rétt og sanngjörn niðurstaða er að ríkisstjórn málamiðlunar verði mynduð undir forsæti formanns Sjálfstæðisflokksins.

Vinstrimenn skipta sér í fjóra flokka en krefjast þess að flokkarnir hagi sér eins og þeir væru einn flokkur. Hvers vegna byrja þeir ekki á því að sameinast í einn flokk? Ætli svarið sé ekki að málamiðlun og vinstripólitík eigi ekkert sérstaklega vel saman?

 

 

 


mbl.is „Æ, æ, Óttarr Proppé“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband