Mæta þingmenn Pírata að mótmæla launum sínum?

Tíu þingmenn Pírata hljóta að mæta á Austurvöll og heimta að fá að vinna fyrir lágmarkslaun en ekki þiggja meira en milljón á mánuði fyrir þægilega innivinnu.

Þrír þingmenn Samfylkingar geta ekki látið sig vanta. Þá er spurning með poppgoðið úr HAM sem þekkir vel til aðferða hljómlistarmanna að taka laun án þess að þau komi fram á opinberum skýrslum.

Krafan hlýtur að vera: lágmarkslaun fyrir lágmarksvinnu.


mbl.is Fyrsta próf nýrra alþingismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að vera milljón kr. launþegi á Íslandi

Vinstriþingmenn fá milljón kr. á mánuði líkt og aðrir fulltrúar þjóðarinnar á löggjafasamkundunni. Þeir standa frammi fyrir að efna til uppþota á Austurvelli vegna ,,hraustlegra" launahækkana til sín eða útskýra eftirfarandi:

Milljón kall á mánuði fyrir þingmennsku er ekkert ýkja mikið.

Alveg eins og það er erfitt að vera launþegi á Íslandi, ef maður er vinstriþingmaður, er erfitt að eiga peninga á Íslandi. Förum ekki lengra út í þá sálma.


mbl.is Laun Loga hækkuðu um hálfa milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pírati: hættum að taka brjálæðiskast

Helgi pírati Hrafn Gunnarsson biður fólk að taka ekki enn eitt brjálæðiskastið - jafnvel þótt tilefni sé til vegna launahækkana þingmanna og ráðherra.

Píratar eru flokka duglegastir ásamt tunnufólkinu í Samfó heitinni að taka brjálæðiskast í beinni.

En nú bregður svo við brjálæðiskastið hentar ekki. Auðvitað hefur það ekkert með það að gera að tíu píratar eru þingmenn.


mbl.is Hefði ekki breytt ákvörðun launa nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamótin í dauða Samfylkingar

Dauði Samfylkingar markar tímamót í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn var stofnaður um síðustu aldamót til að framkvæma meira en 50 ára gamlan draum vinstrimanna að ná völdum á Íslandi. Samfylking átti að verða hinn ,,turninn" stjórnmálum og keppa við Sjálfstæðisflokkinn um forystu.

Til hliðar við Samfylkinguna var stofnað til Vinstri grænna, sem skyldi vera valkostur sósíalista og andófsafla gegn borgaralegu lýðræði. Eftir kosningarnar á laugardag eru Vinstri grænir næst stærsti flokkur landsins á eftir Sjálfstæðisflokki. Samfylkingin er dauð í öllum kjördæmum nema á landsbyggðinni, sem var alltaf veikasta vígið.

Hvað gerðist? Jú, eftirfarandi.

Samfylkingin varð til löngu eftir að sögulegu hlutverki jafnaðarmannaflokks var lokið, sem er að skjóta fótum undir velferðarríkið. Samfylkingin átti engin stór málefni til að berjast fyrir. Sameining Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Kvennalista og Þjóðvaka var gerð til að ná völdum og eftirspurn var eftir hugmyndafræði sem réttlætti tilkall til valda.

Eina stóra hugmyndin á lausu í íslenskri pólitík var Evrópusambandið. Þrátt fyrir að nágrannaþjóðir okkar Norðmenn, Grænlendingar og Færeyingar höfðu með afgerandi hætti hafnað ESB-aðild, vegna þess að hún samrýmdist ekki grunvallarhagsmunum þeirra sem strandríkja á Norður-Atlantshafi, ákvað forysta Samfylkingar að gera Evrópustefnu að hugmyndafræði flokksins. Betra þótti að veifa röngu tré en öngvu.

Samfylkingunni bar ekki gæfu til að stíga varlega til jarðar í leit að hugmyndafræði og leyfa umræðunni að ná þroska. Sá sem hér skrifar var stofnfélagi í Samfylkingunni og fékk haustið 2002 sendan atkvæðaseðil, sem vitanlega er geymdur á góðum stað, frá flokknum.

Atkvæðaseðilinn var svindl. Í stað þess að spyrja af eða á: ,,vilt þú að það verði stefna Samfylkingar að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu," var spurt:

Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?

Til að segja nei við þessari spurningu þurfti maður bæði að vera á móti skilgreiningu samningsmarkmiða og þjóðaratkvæðagreiðslum. Spurningin var beinlínis hönnuð til að ekki væri hægt að svara neitandi.

Forysta Samfylkingar fékk meirihluta flokksmanna til að játast undir svindlið. Þetta er upphafið að óförum flokksins. Eftir kosningarnar 2009 var haldið áfram með svindlið, þegar þjóðin var í taugaáfalli eftir hrunið. Íslendingar skyldu ,,kíkja í pakkann" - sjá hvað væri í boði í Brussel. Forysta Samfylkingar gat svindlað á flokksmönnum og þjóðinni en Evrópusambandið tók ekki þátt í blekkingunni. Þar á bæ taka menn ekki við þreifingum um aðild en bjóða aðeins upp á aðlögun inn í sambandið.

Allir geta spurt Evrópusambandið um skilyrði fyrir inngöngu og fá alltaf sama svar, núna síðast Svavar Alfreð Jónsson. Aðlögun felur í sér að umsóknarríki tekur upp lög og reglur ESB jafnt og þétt og verður ESB-ríki í áföngum. Þegar aðlögunni er lokið er ekki hægt að snúa við; þjóðaratkvæðagreiðsla í lok aðlögunarferlis er aðeins formsatriði.

Leiðangri Samfylkingar til Brussel lauk með sneypu í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. áramótin 2012/2013. Íslendingar vildu ekki aðlagast ESB enda fól það í sér afnám fullveldis þjóðarinnar yfir landinu.

Stórar hugmyndir eru viðsjálar. Þær geta bæði magnað upp veldi en líka tortímt þeim sem um véla. Evrópusambandsaðild Íslands gengur þvert á meginhagsmuni okkar sem strandríkis á Norður-Atlantshafi. Þegar ESB-umsókn Samfylkingar var samþykkt 16. júlí 2009 náði veldi ESB út á Atlantsála. Eftir Brexit í sumar er Ermasundið landamæri meginlandsþjóðanna og strandríkjanna í norðri. Allir með óbrjálaða dómgreind sjá að ESB-aðild er ekki raunhæf í fyrirsjáanlegri framtíð.

En ESB-hugmyndafræðin gagntók Samfylkinguna. Þrátt fyrir viðvörun kjósenda 2013, þegar flokkurinn féll úr 30 prósent fylgi niður í 12,9 prósent, þumbaðist flokkurinn við og bauð enn á ný, árið 2016, ESB-aðild sem töfralausn. Kjósendur svöruðu með 5,7 prósent fylgi.

Lærdómurinn af risi og falli Samfylkingar í stuttu máli: stórar hugmyndir, sem aflað er fylgis með svindli, leiða til sjálfstortímingar.

 


mbl.is Samfylkingin ekki í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband