Líkur á kosningum næsta vor

Jákvæður tónn er í viðræðum um fimm flokka ríkisstjórn. Ef tekst að halda þessum jákvæða tón út helgina og fram í næstu viku gætum við fengið yfir okkur sérkennilegustu ríkisstjórn seinni tíma.

Engar líkur eru á að fimm flokka ríkisstjórn haldi velli nema yfir bláveturinn. Í landinu er góðæri og flokkarnir fimm eiga marga munna að metta. Fyrir páska verður komið hallæri.

Ekki seinna en í maí 2017 göngum við á ný til þingkosninga.


mbl.is „Það virkuðu allir mjög jákvæðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygi vex með lausung

Net- og samfélagsmiðlar eru fjölmiðlabylting sem skellur á okkur um líkt leyti og samfélagssáttmáli síðustu áratuga er í uppnámi. Tvær lýðræðislegar hamfarir ársins 2016 færa okkur heim sanninn um að fjölmiðlabyltingin og rof samfélagssáttmálans leiða ekki til upplýstari umræðu heldur veldisvöxt lyginnar.

Í Brexit-umræðunni í Bretlandi smurðu bæði andstæðingar veru Bretlands í Evrópusambandinu og fylgjendur svo þykkt á staðreyndir að almenningur gat ekki með nokkru móti myndað sér hlutlæga skoðun. Engri hlutlægni var til að dreifa. Ýkjur og gróusögur um að Bretland yrði óþekkjanlegt, hvort heldur landið yrði áfram í ESB eða yfirgæfi sambandið, voru aðalréttirnir á matseðli umræðunnar.

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum buðu upp á sömu umræðuna. Þar í landi er orðinn til heimilisiðnaður að afhjúpa lygar í fréttaflutningi. Sú skýring, að reglulegir fjölmiðlar standi sig ekki nógu vel að flytja sannar og hlutlægar fréttir, segir ekki nema hluta sögunnar.

Jonathan Freedland er dálkahöfundur vinstriútgáfunnar Guardian. Hann kennir linku vinstrimanna um Brexit og sigur Trump. Freedland segir vinstrimenn ekki nógu ósvífna í málflutningi sínum, þar hafi hægrimenn vinninginn. Hæpið er að þessi kenning standist. Skýring R.W. Johnson á sigri Trump í London Review of Books er meira sannfærandi. Nat Parry er líka með trúverðugri skýringu en Freedland.

Engu að síður er þeir margir, bæði til hægri og vinstri, sem telja nauðsynlegt að auka veg ýktra frétta, ef ekki beinna lyga, til að ná árangri í pólitískri umræðu.

Ástæðan fyrir því að ýkjur og lygar eiga jafn mikið upp á pallborðið og raun ber vitni er stóraukin eftirspurn. Net- og samfélagsmiðlar eru þrátt fyrir allt miðlar en ekki sjálfstæð uppspretta. Þeir sem fóðra miðlana, bæði hægri- og vinstrimenn, eyddu ekki fé og fyrirhöfn í framleiðsluna ef almenningur hlýddi ekki á.

Þegar grannt er skoðað hlýtur ástæða eftirspurnarinnar að vera sú að fólki finnst heimsmynd sín á hverfanda hveli. Fólk leitar eftir frásögnum sem staðfesta þá tilfinningu annars vegar og hins vegar bjóða upp á pólitískar lausnir. Heimsmynd kalda stríðsins og velferðarríkisins er liðinn. Tími frjálslyndis og stöðugs hagvaxtar er einnig liðinn. Við lifum á tímum lausungar og þar vex lygin.


ASÍ og þjófótta verslunin

ASÍ þjónar almannahagsmunum vel með verðlagseftirliti. ASÍ sýnir fram á að verslunin skilar ekki til neytenda styrkingu krónunnar. Viðskiptaráð er ósvífið verkfæri þjófóttrar verslunar og birtir ,,leiðréttingu" á niðurstöðum ASÍ.

Viðskiptaráð reynir að útskýra þjófnað verslunarinnar með vísun í launahækkanir. ASÍ svarar og bendir á launaliðurinn í versluninni er ekki nema 8 til 13 prósent.

Niðurstaða: verslunin stelur af neytendum með því að lækka ekki vöruverð til samræmis við styrkingu krónunnar - að teknu tilliti til launahækkana.


mbl.is Sterkt gengi ekki skilað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband