Frjálslyndir innherjar með stefnu Samfylkingar

Björt framtíð og Viðreisn eru tvær útgáfur af Samfylkingunni, sem þjóðin hafnaði í kosningunum 2013 (12,9%) og aftur um helgina (5,7%). Björn Bjarnason spyr hvort Björt Viðreisn ætli virkilega að taka upp föllnu samfylkingarstefnuna.

Samanlagt er Björt Viðreisn með 17,7% fylgi, rúmur hálfdrættingur á við Sjálfstæðisflokkinn.

Ekkert fyrirsjáanlegt stjórnarmynstur er til sem gerir Bjartri Viðreisn kleift að verða ráðandi afl í landsstjórninni. Valdaplott með Heiðu Kristínu Helgadóttur sem millilið er aðeins til að fresta myndun starfhæfrar ríkisstjórnar.


mbl.is „Betra að leggja í púkk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sanngjörn laun þingmanna

Laun þingmanna, eftir síðustu launahækkun, ná því ekki að vera tvöföld meðallaun í landinu. Við ættum að búa sæmilega að þingmönnum okkar, þeir eru fulltrúar þjóðarinnar og setja lög í landinu. 

Á síðustu öld starfaði ég fyrir Alþýðubandalagið, fór reglulega á fundi þingflokksins og kynntist starfi þingmanna bæði innan þings og utan. Í stuttu máli er vinna dæmigerðs þingmanns töluvert meiri en hægt er að komast yfir á dagvinnutíma. Þingmaður sem sinnir starfi sínu hlýtur að vinna að minnsta kosti tíu til tólf tíma á dag á meðan þingið starfar. Aðskiljanlegir fundir utan þingtíma eru reglulegur þáttur í starfi þingmanna.

Dæmigerður þingmaður er þess verðugur að fá tvöföld meðallaun. Við launaákvörðun þingmanna hljótum við að miða við dæmigerðan þingmann. Líkt og í öðrum starfsstéttum er misjafn sauður í mörgu fé; sumir vinna lítið og illa en aðrir mikið og vel. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að ákveða laun þingmanna út frá afköstum - stundum er best að setja engin lög fremur en ólög.


mbl.is Þingfararkaup á við 1,8 meðallaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið síast inn - byltingin mistókst

Eftir hrun var eftirspurn eftir byltingarkenndum hugmyndum um breytt Ísland. Róttækasta hugmyndin var að kollvarpa stjórnskipun landsins, taka upp annan gjaldmiðil og ganga í Evrópusambandið.

Samfylkingin var í þessum skilningi byltingarflokkurinn. Strax eftir hrun fékk flokkurinn 30 prósent fylgi til að stokka upp Ísland. Byltingarleiðangurinn til Brussel rann út í sandinn áramótin 2012/2013. Í kosningunum á laugardag galt Samfylkingin afhroð og er dauðvona.

Vægari útgáfur af Samfylkingunni, Viðreisn hægrimanna og Björt framtíð til vinstri, eru smáflokkar. Stjórnlausa afbrigði Samfylkingar, Píratar (sem Össur sagði að væri alveg eins og Samfylkingin), fékk 14,5 prósent fylgi.

Niðurstöður kosninganna á laugardag eru að sá flokkur sem lofaði engu öðru en að viðhalda stöðugleikanum sigraði í öllum kjördæmum landsins og er nær tvöfalt stærri en sá flokkur sem næstur kemur.

Sigur Sjálfstæðisflokksins markar tímamót í eftirhruninu. Lýðræðislegur vilji þjóðarinnar er að viðhalda og styrkja félagslegan og efnahagslegan stöðugleika.

Ekkert stjórnarsamstarf er betur til þess fallið að endurspegla úrslit kosninganna en að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir myndi ríkisstjórn. Verkskiptin eru skýr, Sjálfstæðisflokkurinn á að sjá um að bókhaldið gangi upp en Vinstri grænir að félagsleg samheldni þjóðarinnar styrkist, sem er jafnvel mikilvægari en efnahagslegi þátturinn.

Þriðji flokkurinn undir ríkisstjórnarvagni Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti verið í þessari röð: Framsókn, Björt framtíð eða Viðreisn.


mbl.is Byrjar á fundi með Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband