Stjórnarmyndun, andúð og siðleysi

Sjálfstæðisflokkurinn er nær tvöfalt stærri, með 29% fylgi, en næsti stærsti flokkurinn á alþingi, Vinstri grænir, sem eru með 15,9% hlutfall atkvæða í nýafstöðnum kosningum.

Nú reyna fimm flokkar, sem allir fengu atkvæði á ólíkum forsendum, að setja saman ríkisstjórn án aðildar Sjálfstæðisflokksins. Flokkarnir fimm buðu kjósendum upp á fimm ólíkar stefnuskrár sem málefnahópar sjóða saman í einn stjórnarsáttmála.

Í stjórnarsáttmálanum, ef af verður, er ein setning sem allir læsir á pólitík lesa á milli línanna: ríkisstjórn vinstriflokkanna og Viðreisnar er til höfuðs Sjálfstæðisflokknum og kjósendum hans.

Fimm flokka ríkisstjórn til höfuðs tæplega þriðjungi þjóðarinnar fær hvorki meðbyr né velvild. Ekkert málefni, nema andóf gegn Sjálfstæðisflokki, sameinar smáflokkana fimm.

Þegar smáflokkar sameinast gegn þeim stærsta þarf málatilbúnaðurinn að byggja á heilbrigðari hvöt en andúð. Annars er siðleysinu gert hátt undir höfði.


mbl.is Tuttugu manns í málefnahópunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgaríkisstjórn vinstrimanna

Fimm flokka ríkisstjórn vinstriflokkanna og Viðreisnar verður með Reykjavíkurslagsíðu á kostnað landsbyggðarinnar. Sérstök áhugamál kennd við 101 Reykjavík, s.s. ESB-umsókn, skattlagning á útgerð, óheftur innflutningur matvæla og stjórnarskrárbreytingar, fá stóraukið vægi. Málefni landsbyggðarinnar verða víkjandi. 

Öfgastjórn vinstrimanna er gagngert sett saman til að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Sjálfstæðisflokkurinn er með fyrsta þingmanninn í öllum kjördæmum landsins, sem þýðir að stærsti kjósendahópurinn í hverju kjördæmi styður flokkinn til áhrifa í samfélaginu.

Þeir 5 flokkar sem nú ræða stjórnarmyndun geta með samráði hindrað að tæp 30 prósent þjóðarinnar fái eðlilega aðkomu að landsstjórninni. En aðeins í skamman tíma. Þegar kemur að uppgjöri verður vígstaða vinstriflokkanna gjörtöpuð.


mbl.is Samþykkja formlegar viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkin yfirgefa Evrópu

Síðasti fundur Obama Bandaríkjaforseta og starfsfélaga hans í Rússlandi, Pútín, fór í að hvetja til samninga um Úkraínu. Bandaríkin og Evrópusambandið styðja ríkisstjórnina í Kiev en Rússar uppreisnarmenn í austurhluta landsins.

Obama er forseti á útleið, í janúar tekur Donald Trump við. Nýr hæstráðandi í Washington vill hverfa frá stöðutöku Bandaríkjanna í Austur-Evrópu. Baráttan stendur um hvort Úkraína verði ESB-ríki með Nató-aðild en Rússar segja það ógna öryggishagsmunum sínum. Minsk-samkomulagið í deilunni gerir ráð fyrir að Úkraínu verði skipt upp í sjálfsstjórnarsvæði, sem gefur Rússum færi á að stjórna í reynd austurhluta landsins.

Sérfræðingar í alþjóðamálum, t.d. Robert Kagan, spá einangrunarstefnu Bandaríkjanna í kjölfar sigurs Trump. Í Austur-Evrópu er talað um að Pútín verði vinsælli sökum þess að fjarvera Bandaríkjanna geri Rússland sterkt en Evrópusambandið veikt. Smáríkin við Eystrasalt munu í auknum mæli komast undir rússnesk áhrif.

Evrópusambandið tapar áhrifum sínum í Austur-Evrópu. Efnahagslegur máttur ESB kemur fyrir lítið þegar hernaðarstyrkur Nató er ekki lengur bakhjarl. Bandaríkin greiða 70 prósent af kostnaði Nató og Trump mun skera þau framlög niður.

Angela Merkel kanslari Þýskalands mun eiga fullt í fangi með að tryggja þýska hagsmuni í Mið-Evrópu. Eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og einangrunarstefnu Bandaríkjanna er kristaltært að ESB er ekki lengur aflið sem mótar framtíð Evrópu. Öxullinn Berlín-Moskva mun gera það.


mbl.is Vill verja lýðræðisleg gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband