Stjórnmálakreppan lýsir vangetu vinstriflokka og Viðreisnar

Á Íslandi er góðæri: hagvöxtur, full atvinna og bjartar framtíðarhorfur. Samt er stjórnmálakreppa. Ástæðan er eftirfarandi:

Stjórnmálamenn eru fangar sinnar eigin orðræðu. Þetta á fyrst og fremst við vinstriflokkana og nýja framboðið, Viðreisn. Á síðasta kjörtímabili notaði stjórnarandstaðan hvert tækifæri til að hallmæla og hrakyrða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Í stað þess að móta stefnu sem væri valkostur við sitjandi ríkisstjórn buðu vinstriflokkarnir og Viðreisn upp á mótmæli á Austurvelli. Ekkert uppbyggilegt hlýst af mótmælum sem bjóða ekki fram valkost.

Smáflokkabandalag Viðreisnar og vinstriflokka eyddi nokkrum dögum í stjórnarmyndun sem var feig frá upphafi: mótmælaflokkar geta ekki boðið upp neinn valkost við ríkisstjórnarstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Eina rökrétta niðurstaðan er að einhver smáflokkanna, vonandi Vinstri grænir, brjóta odd af oflæti sínu og gangi til liðs við sitjandi ríkisstjórn.

Oflætið er eins og drambið - falli næst.

 

 


mbl.is Framsókn áhugalaus um samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarti-Pétur og málamiðlun með útilokun

Svarti-Pétur lendir hjá þeim flokkum sem stunda mótsögnina 'málamiðlun með útilokun'. Mótsögnin varð til þess að fimm smáflokkar eyddu nokkrum dögum í sameiginlegt verkefni; að útiloka aðkomu þess flokks sem nýtur stuðnings 29 prósent þjóðarinnar og með langstærsta þingflokkinn.

Smáflokkarnir fimm áttu ekkert sameiginlegt nema að vilja útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá landsstjórninni. Mótsagnapólitík eins og 'málamiðlun með útilokin' er dauðadæmd af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi tekur hún ekki mið af hörðum pólitískum staðreyndum og í öðru lagi er tómt mál að tala um að halda saman ríkisstjórn á þeim forsendum að vera á móti.

Hlutverk stjórnarandstöðu er að vera á móti. Ríkisstjórn hlýtur alltaf að standa fyrir eitthvað, vera með en ekki á móti. Þeir sem sitja uppi með Svarta-Pétur skilja ekki þennan greinarmun.


mbl.is Hver er Svarti-Pétur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Án Sjálfstæðisflokks er engin málamiðlun

Fyrsti þingmaður í öllum kjördæmum landsins er sjálfstæðismaður. Ástæðan? Jú, stærsti kjósandaendahópurinn í hverju einasta kjördæmi landsins taldi að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að eiga aðild að landsstjórninni.

Allar tilraunir til að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá ríkisstjórn eru því marki brenndar að um leið er tæplega þriðjungur þjóðarinnar sniðgenginn. Allir sanngjarnir hljóta að sjá í hendi sér að engin möguleg ríkisstjórn sátta og samlyndis getur verið sett saman án aðildar Sjálfstæðisflokksins.

Það er einfaldlega pólitísk staðreynd að án Sjálfstæðisflokksins er ekki hægt að mynda ríkisstjórn sem byggir á lýðræðislegri málamiðlun.


mbl.is Líkur á aðkomu Framsóknar aukist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband