Nató er í tilvistarkreppu sem bitnar á ESB

Bandaríkin og Evrópusambandið munu ekki halda áfram útþenslu í Austur-Evrópu. Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fékk engin atkvæði út það gera Úkraínu að bandarísku áhrifasvæði. Bandarísk innanríkismál verða í forgangi Trump.

Ráðamenn í Evrópusambandinu veðjuðu á að útþensla í Austur-Evrópu myndi styrkja ESB. Hugsunin var að sameiginlegur óvinur, Rússland, myndi efla samstöðu ESB-ríkja. Útganga Breta, Brexit, og kjör Trump rústar þeirri von, eins og Ana Palacio, fyrrum utanríkisráðherra Spánar útskýrir.

Útþensla Evrópusambandsins í Austur-Evrópu var einnig valdefling Nató, sem skorti tilgang eftir lok kalda stríðsins fyrir aldarfjórðungi. Fyrrum starfsmaður bresku leyniþjónustunnar, Annie Machon, rekur skilmerkilega vandræðin sem Nató er komið í við landamæri Rússlands.

Bretland er með næst stærsta her ESB-ríkja. Útganga þeirra ásamt kjöri Trump, sem ætlar ekki að fjármagna Nató eins og hingað til, en Bandaríkin borga 70% af rekstrinum, girðir fyrir alla vaxtarmöguleika hernaðarbandalagsins. Og það er gott fyrir heimsfriðinn.


mbl.is Kjör Trump ekki endalok NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefni með 5,7% fylgi í ríkisstjórn

Samfylkingin var 0,8 prósentum frá því að þurrkast út af þingi fyrir þrem vikum. En næsta ríkisstjórn gæti orðið Samfylkingarstjórn. Samkvæmt orðum formanns 5,7 prósent flokksins:

Samfylkingin er til í að taka þátt í fimm flokka stjórn, segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann segir að ef málefni sem flokkurinn leggur áherslu á fá inni í slíku samstarfi sé flokkurinn til í stjórnarsamstarf.

Vinstristjórnin verður sem sagt ekki að veruleika nema málefni Samfylkingar verði í forgangi.

Jamm.


mbl.is „Hreinskipt og gott samtal“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútín-fóbían og múslímskar miðaldir

Pútín-fóbían er ríkjandi viðhorf í valdamiðstöðvum vesturlanda í Washington, Brussel, London og Berlín. Fóbían gefur sér að Rússland sé á útþensluskeiði þegar sannleikurinn er sá að vesturlönd, með Nató sem verkfæri, eru frá falli Sovétríkjanna búin að raða upp herstöðvum við vesturlandamæri Rússlands.

Pútín-fóbían kemur í veg fyrir bandalag vesturlanda og Rússlands til að stemma stigu við ófriðarbálinu í miðausturlöndum. Í löndum múslíma er félags- og hagkerfi sem líkist helst því sem tíðkaðist í Evrópu á miðöldum.

Evrópa logaði í ófriði frá miðöldum og fram yfir frönsku byltinguna þegar hún tók stökkbreytingum og hristi af sér samfélagsgerð sem var úr sér gengin. Miðausturlönd eru í sömu sporum.

Enginn veit hvað kemur út úr fárinu sem nú geisar í miðausturlöndum. Hitt er augljóst að áratugir munu líða áður en friður kemst á og múslímski menningarheimurinn finnur nýtt jafnvægi.

Samfélagsgerðir vesturlanda og Rússlands eru sprottnar úr sama jarðvegi. Náttúrulegt bandalag ætti að vera á milli þessara aðila um að takmarka þann skaða sem ófriðurinn í miðausturlöndum veldur. En Pútín-fóbían kemur í veg fyrir þróun eðlilegra samskipta vesturlanda og Rússlands.

 


mbl.is Ráðleggja Trump frá því að viðurkenna innlimun Krímskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband