Píratar hrynja - þjóðin afhuga óreiðupólitík

Fylgi Pírata hrynur um heil 8,6 prósent og rétt kemst upp í tveggja stafa tölu, 11,9% fylgi. Píratar standa fyrir óreiðupólitík þar sem saman fer núllstefna, t.d. í atvinnumálum, og krafa um upplausn ríkjandi stjórnskipulags.

Píratar voru stóri flokkurinn í mælingum allt síðasta kjörtímabil, en féllu undir 15 prósent í kosningum. Hratt undanhald í skoðanakönnunum er staðfesting á þeirri þróun að eftir því sem þjóðin kynnist Pírata-pólitík betur líst henni verr á.

Önnur óábyrg stjórnmálasamtök, Samfylking, voru sett í skammakrókinn í kosningunum og ný könnun staðfestir að það var ekki tilviljun. Samfylking mælist með 5,6 prósent fylgi.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitíska andlitið eftir kosningar

Viðreisn er þriðji minnsti flokkurinn á alþingi og Björt framtíð næst minnsti. Aðeins hornkerling Samfylkingar er minni en þessir flokkar. Smáflokkar eru og verða smáflokkar þótt þeir taki sæti í ríkisstjórn.

Vandræði Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru þau sömu. Flokkarnir börðust fyrir kollsteypum á sviði utanríkismála, stjórnskipunar og í landbúnaðarmálum. En kjósendur voru ekki áhugasamir, Viðreisn fékk 10,5 prósent fylgi en Björt framtíð 7,2 prósent.

Af þessu leiðir eru hvorki Viðreisn né Björt framtíð með umboð frá kjósendum að gera stórfelldar breytingar á meginþáttum samfélagsins. Til að halda andlitinu verða flokkarnir á fá bein að naga. Á beininu verða tægjur af kosningaloforðum sem engin rök stóðu til að hægt væri að efna.


mbl.is „Væntanlega“ fundað áfram í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump afhjúpar Nató-lygina um Pútín

Utanríkisstefna Nató-ríkjanna, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, er frá aldamótum byggð á þeirri lygi að Pútín Rússlandsforseti stefni að heimsyfirráðum. Þessi lygi er fóðruð með endalausum áróðri um að Pútín sé voðalegur maður á alla vegu og kanta. Í reynd stendur Pútín aðeins fyrir lögmæta öryggishagsmuni rússneska ríkisins og sýndi enga tilburði til að endurvekja útþenslustefnu föllnu Sovétríkjanna.

Í skjóli lyganna um Pútin reka Bandaríkin og Evrópusambandið herská utanríkisstefnu í Austur-Evrópu sem leiddi til Úkraínustríðsins. Með Bandaríkin í forystu stunda sömu aðilar ævintýralega dómgreindarlaus afskipti af málefnum miðausturlanda þar sem slóð stríða og eyileggingar liggur um Írak, Sýrland og Líbýu.

Trump andæfði lyginni um Pútín Rússlandsforseta og hann fordæmdi hernaðarstefnu Bandaríkjanna í miðausturlöndum. Helstu hönnuðir Pútín-lyginnar, t.d. William Hague fyrrum utanríkisráðherra Breta, skrifa núna hrollvekjur um að Vesturlönd séu að falli komin - ef þau halda ekki í Pútín-lygina.

Eina leiðin fyrir Vesturlönd til að halda velli er í friðsamlegri sambúð við Rússland. Sögulega og menningarlega stendur Rússland nærri Vesturlöndum. Til að nokkur von sé um að halda ófriðnum í miðausturlöndum í skefjum verða Vesturlönd (les Nató-ríkin) að vinna með Rússum og Pútín.

 

 


mbl.is Biður fólk að gefa Trump tækifæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband