Stjórnarmyndun í skugga velmegunar

Síðustu tvær ríkisstjórnir voru myndaðar í kreppuástandi, vinstristjórn Jóhönnu Sig. strax eftir hrunið og samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í skuldakreppunni eftir hrunið.

Næsta ríkisstjórn, þessi sem reynt er að stofna til næstu daga, glímir ekki við neina kreppu. Við blasir velsæld með hagvexti, vaxandi kaupmætti og engu atvinnuleysi.

Íslendingum gengur oft erfiðlega að höndla velsæld. Okkur er tamt að hugsa í vertíðum. Þegar vel aflast er um að gera að afla sem mest enda ekki á vísan að róa næstu vertíð.

Við þurfum ríkisstjórn sem leggur grunn að varanlegum stöðugleika. Þá þarf að vanda til verka og gefa sér rúman tíma. Ekki ætti að setja saman ríkisstjórn í tímahraki eða geðshræringu.

Meginverkefni næstu ríkisstjórnar er að gera sitt til að velmegunin komi öllum landsmönnum til góða og að viðhalda stöðugleika. Þegar allir viðkomandi átta sig á verkefninu hlýtur að fást skynsamleg niðurstaða.


mbl.is Allir finna til ábyrgðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi Viðreisnar og nýja ríkisstjórnin

Hægriflokkurinn Viðreisn reynir að selja sig sem miðjuflokk í stjórnarmyndunarviðræðum. Framlag eins þingmanns Viðreisnar, Pawel Bartosek, í þeirri sölumennsku er að skattar séu ofbeldi.

Ögmundi Jónassyni fráfarandi þingmanni Vinstri grænna finnst markassetning Viðreisnar minna á ýkjusöguna um Lísu í Undralandi.

Í orðræðu miðalda voru skattar játning um þegnskap. Í sögu Ólafs helga Noregskonungs leggur Snorri Sturluson þau orð í munn Einars Eyjólfssonar frá Þverá að skattar til konungs jafngildi ,,lýðskyldu". Í Gamla sáttmála, gerður þegar Íslendingar gáfust upp á innanlandsófriði, og játuðust Noregskonungi, voru skattar tjáning á þegnskap.

Þeir sem túlka skatta sem ofbeldi gefa lítið fyrir það megineinkenni velferðarríkisins að skattar standi undir sameiginlegum þörfum þegnanna. Viðreisn er stofnuð af fólki sem tilheyrir þeim best settu í samfélaginu, sem hvorki hefur skilning á né samstöðu með meginhugsun velferðarsamfélagsins.

Þegar þetta fólk kennir sig við miðjuna í íslenskum stjórnmálum er augljóst að miðjan er orðin að öfgum. Samkvæmt því yrði ríkisstjórn undir forystu Viðreisnar öfgastjórn. 


mbl.is Fá en stór lykilverkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband