Vald, sannleikur og öfgar

Nýir valdhafar búa til nýjan sannleika þegar vafi leikur á um lögmæti valdsins. Í Evrópu á millistríðsárunum komust til valda menn og flokkar sem boðuðu nýjan sannleika. Sama gerðist í Austur-Evrópu eftir seinna stríð. Til forna í Róm urðu keisarar guðir eftir andlátið en í lifanda lífi þegar lögmæti valdanna varð vafasamara.

Nýr forseti Bandaríkjanna boðar nýjan sannleika. Bandaríkin standi frammi fyrir  „upprisu póli­tískra öfga, yf­ir­burðahyggju hvítra, inn­lendri hryðju­verka­ógn, sem við verðum að tak­ast á við, og við mun­um sigra“.

Valdhafi sem þarf nýjan sannleika til að réttlæta völdin er öfgamaður. Samkvæmt skilgreiningu. Sannleikurinn um gamla hvíta karlinn sem sór embættiseið í gær er sá að hann er í stríði við sjálfan sig og meirihluta bandarísku þjóðarinnar. Í senn bæði fáránlegt og grátbroslegt.


mbl.is „Þetta er dagur lýðræðisins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondi kallinn og góða fólkið

Trump er farinn og sviðið er góða fólksins. Aðeins á eftir að hreinsa dreggjarnar, segir Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, og endurómar þar Hillary Clinton sem kallaði stuðningsmenn Trump fyrirlitlega.

Úrsúla og Hillary lifa í ævintýraheimi þar sem gott og illt er auðþekkjanlegt eins og svart og hvítt. Vondi kallinn farinn, grýla dauð og við blasir björt veröld ný og fögur.

Veruleiki mannheima er blæbrigðin. Sumt virkar, annað síður, fátt er algott og það alvonda trauðla til. Raunsætt er að velja skásta kostinn af þeim sem í boði eru, sá besti er annað tveggja ekki til eða handan mannlegrar getu.

Góða fólkið sem vill skapa ævintýraveröld í kjötheimi endar alltaf í and-ævintýrinu, - martröðinni. 


mbl.is Fagna því að „vinur“ tekur við af Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiran og pólitískar sóttvarnir

Faraldurinn kenndur við Kína breytir samfélögum. Í framhaldi breytist pólitísk hugsun. Vörn gegn Kínaveirunni er þríþætt. Einangrun, lokanir og bóluefni. 

Trump og stuðningsmenn hans sæta einangrun og lokunum á samfélagsmiðlum. Bandaríski herinn er mótefnið. Tucker Carlson rekur pólitískar sóttvarnir nýrra valdhafa í Washington. 

Kínaveiran sjálf hverfur úr sögunni næstu misseri. Eftir stendur breytt samfélag í pólitískum sóttvarnarham.


mbl.is Rúmlega 400.000 dauðsföll í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög fyrir lélega ráðherra

Við lagasetningu þarf að hafa í huga að sumir ráðherrar eru góðir en aðrir síðri, er efnislegt sjónarmið Helgu Völu formanns velferðarnefndar í umræðu um sóttvarnarlög.

En er þetta ekki sjónarmið sem ætti að viðhafa um alla lagasetningu? Ráðherrar eru brigðulir og lögin ættu að taka með með í reikninginn - á meðan þau eru enn frumvarp.

Tek ofan fyrir þér, Helga Vala, í þetta sinn. Stundum ratast kjöftugum satt orð í munn.


mbl.is Helga Vala ekki mótfallin skyldubólusetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin kreppa á Íslandi

Bankar skila auknum hagnaði, smásöluverslun í byggingavörum gerir það gott og verslunarkeðjur í matvælum og fatnaði bera sig vel. Orðið á götunni er að innlend eftirspurn eftir ferðaþjónustu í sumar sé meiri en nokkru sinni. 

Þótt ekki séu skrifaðar fréttir um það þá er áberandi sterk eftirspurn erlendis frá í sérhæfðari ferðaþjónustu s.s. laxveiðar. Landið liggur þannig að efnaðir ferðamenn og bólusettir kaupa sér þjónustu þar sem gera má ráð fyrir að samfélagið sé starfhæft. Allt stefnir í að Ísland verði starfhæft með tryggum sóttvörnum á Keflavíkurflugvelli.

Víst er atvinnuleysi i hærri kantinum. En þokkalegar líkur eru á að það jafni sig með vorinu og minna verði um innflutt vinnuafl en á góðæristíma fjöldatúrisma, - sem, vel að merkja, kemur vonandi aldrei aftur.

Ísland er í góðum málum.


mbl.is Stefnir í 6 milljarða hagnað á síðasta ársfjórðungi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóttvörn gegn auðmönnum, Bjarni

Til lengri tíma er ekki heppilegt að ríkið eigi svotil alla banka hér á landi. Spurningin er hvað sé langur tími í þessu samhengi.

Einn mælikvarði er lífaldur þeirra bankaauðmanna sem settu þjóðina á hausinn 2008. Flestir voru þeir um fertugt við hrun og eru núna á besta starfsaldri, hoknir reynslu og tilbúnir í annan snúning á fjármálakerfi þjóðarinnar.

Bjarni fjármála og stuðningsmenn bankasölu strax segja bæði innlent regluverk og evrópskt koma í veg fyrir nýtt fjármálafyllerí auðmanna á Fróni með banka sem spilapeninga. Virkilega?

Kunningjakapítalismi á Íslandi í útrás fólst m.a. í því að þeir sem keyptu Landsbankann fengu lánað frá þeim er keyptu Búnaðarbankann, sem aftur lugu til um aðkomu erlends banka, Hauck & Auf­häuser. Dapurlegra en orð fá lýst, segir forveri Bjarna, Geir H. Haarde. Hvar slógu eigendur Búnaðarbankans lán fyrir kaupunum? Jú, hjá Landsbankanum. Svikamylla kunningjanna.

Fyrst að ljúga og blekkja til sín banka síðan að plata heiminn til að trúa að Ísland væri alþjóðleg fjármálamiðstöð. Þarf að rifja upp þá hrollvekju og ræða ábyrgð stjórnmálamanna sem nær allir voru í vasa bankaauðmanna er fjármögnuðu prófkjörsbaráttu meintra fulltrúa almennings? Virkilega?

Koma innlendar og erlendar reglur í veg fyrir nýja svikamyllu auðmanna, Bjarni? Munt þú vera í stöðu Geirs H. Haarde eftir tíu ár eða tólf?

Bein sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka er ávísun á fjárglæfra manna sem sækja í áhættu og eru siðlausir, eins og dæmin sanna, og gott ef ekki líka glæpamenn - samanber dóma yfir úrvali þeirra snillinga er knúðu Ísland í gjaldþrotameðferð fyrir rúmum áratug.

Aðrar leiðir, til að losa ríkið undan bankarekstri, eru vel færar. Til dæmis að gera Íslandsbanka að samfélagsbanka, sparisjóði, er einbeiti sér að einstaklingum og litlum fyrirtækjum.  

Einkenni bjána, er haft eftir Einstein, er að endurtaka sömu tilraunina og búast við annarri niðurstöðu.

Við skulum ekki vera bjánar, Bjarni.

 


mbl.is Hvergi í Evrópu séu umsvif ríkisins meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herinn, hræddur valdhafi og andrúmsloft haturs

Hermenn eiga að tryggja friðsamlega embættistöku Biden á miðvikudag í Washington. Óttast er að almenningur láti andúð sína í ljós þegar Biden sver embættiseiðinn.

Hræddir valdhafar styðjast við her og lögreglu til að hafa hemil á óánægðum almenningi. Til skamms tíma var slíkt ástand bundið við þriðja heims ríki. Nú eru sjálf Bandaríkin í sömu stöðu.

Yfirvöld í Washington óttast að erlendir aðilar séu að einhverju leyti ábyrgir fyrir uppreisnarhug almennings. Þetta eru sömu viðbrögð og stjórnvöld í Íran og Kína grípa til þegar á bjátar heima fyrir.

Hefð er að segja um nýkjörinn forseta að fyrstu 100 dagar í embætti séu hveitibrauðsdagar. Stefnumál og ríkisstjórn leggja línur fyrir kjörtímabilið. Biden fær sína hveitibrauðsdaga undir hervernd.

Félagsmiðlar og miðlar með forskeytið fjöl kynda undir ótta um vopnatak, samanber viðtengda frétt. Lausnin sé að vera fyrri til og gera atlögu að óvildarmönnum valdhafa áður en þeir ná að safna liði. Frjálslynt tímarit, The New Republic, segir Trumpisma bandalag hvítu yfirstéttarinnar og nái langt inn í embættismannakerfið.

Opinber umræða sem biður um og kallar eftir ofbeldi verður vanalega að ósk sinni. Vítahringur bandarískra stjórnmála dýpkar enn. Biden-stjórnin er leiksoppur atburðarásar sem ekki verður undið ofan af.


mbl.is „Ef þeir neita drepið þá, skjótið þá niður á staðnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindi í siðuðu samfélagi

Við höfum endurskilgreint mannréttindi í kófinu. Nýja skilgreiningin er hvergi skráð sem slík. Hún er afleidd verkregla sóttvarna. 

Ný skilgreining á mannréttindum felur í sér að samfélagið telur rétt og skylt að taka þá einstaklinga úr umferð sem eru smitaðir Kínaveirunni og stunda ekki sóttkví. Í viðtengdri frétt segir af einstaklingi sem ekki virti sóttkví og var fluttur af lögreglu í farsóttarhús.

Við vitum af reynslu síðustu missera að einn einstaklingur getur í krafti smits og mannréttinda sýkt nógu marga til að loka þurfi samfélaginu. Verklagsreglur sóttvarna taka fyrir þennan möguleika á iðkun mannréttinda.

Í lok september í fyrra spurði Víðir yfirlögregluþjónn: 

Vilj­um við búa í sam­fé­lagi með mjög miklu lög­reglu­eft­ir­liti eða vilj­um við búa í sam­fé­lagi þar sem við treyst­um borg­ur­un­um?

Svarið er já, við viljum búa í siðuðu samfélagi þar sem lögreglan hefur eftirlit með og skiptir sér af fólki sem sýnir af sér hegðun er setur samfélagið í uppnám. Við sættumst á skert mannréttindi í þágu heildarhagsmuna.

Veruleikinn hefur þann merkilega eiginleika að þegar hann breytist þá breytast hugmyndir okkar. Jafnvel hugmyndir sem við teljum býsna rótfastar, s.s. um mannréttindi.


mbl.is Fluttur í farsóttarhúsið af lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, lygar 2016, 2020 og hreinsanir 2021

Lygin lifir lygarann, skrifar Jonathan Freedland í Guardian. Jónatan er frjálslyndur með andsyggð á Trump. Samlíkingin sem hann notar er við þá þýsku lygi millistríðsáranna, að Þjóðverjar hefðu fengið rýtinginn í bakið fyrra stríði. Fimmtán árum eftir fyrra stríð fékk Hitler völdin út á þá lygi.

Jónatan og fleiri óttast að lygin um stolnar forsetakosningar 2020 muni greiða leið Trump að völdum 2024, eða arftaka Dónalds hafi karlinn sjálfur fengið nóg.

En, óvart, þá er lygin um stolnu kosningarnar 2020 aðeins endurvinnsla á lyginni um stolnu kosningarnar 2016, að Trump hafi fengið kjör fyrir atbeina Pútín Rússlandsforseta. Greining Jónatans gefur sér að Trump og hans fólk segi ósatt, gangi fyrir lyginni, en Clinton, Biden og demókratar gangi erinda sannleikans. Svo er ekki. Lyginni um að Pútín hafi tryggt Trump kjör 2016 er ekki hægt að sópa undir teppið. Demókratar gátu ekki sæst á að bandaríska þjóðin kaus Trump og bjuggu til lygavaðal um rússneska íhlutun. Þar hófst hringrás lyga sem ekki sér fyrir endinn á.

Leiðtogar demókrata á Bandaríkjaþingi kynna einfalda lausn á lygavandamálinu. Þeir efna til hreinsana, saksækja og dæma repúblíkana, ef ekki Trump sjálfan. Gangi þau áform eftir er lygin, að Trump reyndi valdarán, komin með dómsúrskurð að vera sönn. Þetta er sama aðferð og Stalín notaði með árangri á sínum tíma.

Pólitískar lygar eru aðferð til að réttlæta völd annars vegar og hins vegar vefengja valdhafa. Stórar lygar skapa nýjan sannleika. Hrætt fólk gleypir lygar hráar. Handritið að valdasápunni í Washington gæti verið skrifað af Göbbels.

 


mbl.is Rannsaka þátt þingmanna í innrásinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bólutregða, pólitískt vantraust, Trump og miðlun upplýsinga

Í Frakklandi, og víðar á vesturlöndum, vilja margir ekki láta bólusetja sig gegn Kínaveirunni, segir Spiegel. Ástæðan sé pólitískt vantraust á ráðandi öflum. Í Bandaríkjunum vantreysta tæknifyrirtæki Bandaríkjaforseta og sameinast um að þagga niður í honum. 

Miðlun upplýsinga og skoðana hefur aldrei í veraldarsögunni verið auðveldari. Vantraust og tortryggni er aldrei jafn víðtækt vandamál og einmitt nú.

Augljóst er að eitthvert samhengi er þarna á milli. Mótsagnakennt er að eftir því sem fleiri taka til máls þá aukist vantraust. Viðurkennd hugmynd er að lýðræði felist í því að allir eigi rétt á að segja sína skoðun. Umræðan leiði í ljós bestu og hagfelldustu útkomuna. En því virðist alls ekki að heilsa. Þvert á mót: meiri upplýsingar og fleiri skoðanir leiða til stærri vandamála.

Óheft flæði upplýsinga og skoðana leiðir til sundrungar og óreiðu. Hæfni til að aðgreina rétt frá röngu batnar ekki í hlutfalli við áreitið. Dómgreindin þarf undirstöðu, eitthvað sem er tekið gott og gilt af nánast öllum.

Trúarbrögð þjónuðu þessu hlutverk fyrrum og þegnskapur í þjóðríki á seinni tíð. Einhverjir kynnu að halda að trúin á manninn og mannréttindi komi í staðinn. En það er misskilningur eins og blasir við. Með stílfærstu á Aristótelesi þá er maðurinn upplýsingaóreiðudýr. Nú um stundir gildir frumskógarlögmálið þar sem áður var samfélag.


mbl.is Rétt en hættulegt segir forstjóri Twitter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband