Ákærusamfélagið og mannréttindi

Tvær gamlar og áður viðurkenndar reglur réttarríkisins standa höllum fæti á seinni tíð. Sú fyrri er að betra sé að níu sekir gangi lausir fremur en að einn saklaus sé dæmdur. Seinni reglan er að hver maður er saklaus uns sekt er sönnuð, - fyrir dómi.

Almennt er mannréttindum betur borgið séu þessar reglur í heiðri hafðar.

Þessi færsla er skrifuð í tengslum við frávísun héraðsdóms á ákæru á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni. Líkt og aðrir ótengdir málsaðilum veit ég ekkert um málið nema hrafl af því sem kemur fram í fréttum og þjóðfélagsumræðu. 

,,Umræðan" hefur, a.m.k. að hluta, dæmt Jón Baldvin. Ef við skiptum út nafninu Jón Baldvin og setjum inn annað, okkar eigið eða einhvers nákomins, og spyrjum hvort málsmeðferðin á opinberum vettvangi sé sanngjörn eða mannúðleg þá er einboðið að svarið sé nei.

Það er vont að búa í ákærusamfélagi þar sem ásökun jafngildir sakfellingu.

(Svo öllu sé til skila haldið: ég þekki Jón Baldvin ekkert. Á blaðamannsárum mínum talaði ég kannski einu sinni eða tvisvar við hann. Í pólitík hef ég nær alltaf verið ósammála honum).


mbl.is Máli gegn Jóni Baldvin vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump mótsögnin og lýðurinn

Vinstrimenn og frjálslyndir létu finna fyrir sér í bandarískum borgum á liðnu ár, brenndu hús og börðu fólk. Líklega er það einhver útgáfa hægrimanna sem tók hús á Þinghól höfuðborgar lands þeirra frjálsu og huguðu. Óþarfi að hafa áhyggjur af lögreglunni, það er búið að leggja hana niður, ef ekki á borði þá í orði. Annað hvort er lög og regla eða ekki. Lýðurinn þolir ekki tvöföld skilaboð.

Lýðræði er ekki sterkara en almenningurinn - lýðurinn - sem það á að þjóna. Menningarstríð í hálfa öld tekur sinn toll. Sjálfsmynd lýðsins er lík svaðinu í Woodstock sumarið 1969.

Hippakynslóðin tök völdin í Bandaríkjunum með kjöri Bill Clinton 1992. Bush yngri, Obama og Trump eru af sömu kynslóð, Obama þó tæplega, verður sextugur í ár. Með þessari kynslóð fylgdi ótæpt frjálslyndi sem varð í senn agalaust og alltumlykjandi eftir fall Sovétríkjanna ári áður en Clinton var kjörinn. 

Allsráðandi hugmyndastefna kafnar í eigin hroka. Fall Sovétríkjanna er útskýrt með innbyrðis mótsögnum. Alræði öreiganna var í raun fámennisstjórn kommissara. Fall Bandaríkjanna verður útskýrt  með orðalagi hippa. Þjóðmenning sem trúir að líffræðileg kyn séu ekki tvö heldur þrjú, fimm eða sjö en ætlar samt að breyta heiminum að sinni fyrirmynd (Írak, Sýrland og Úkraína) er á sýru. Þegar víman rennur af er kveikt í Þinghól. Ekki af vandalisma heldur sjálfshatri. Bandaríska þjóðin þolir ekki smettið á sjálfri sér.

Forsetatíð Donald Trump 2017-2021 átti að stöðva sýrutrippið. Trump kallaði heim frá útlöndum bæði herinn og framleiðslustörfin. Vinstrimenn og frjálslyndir brjáluðust, sögðu forsetann leiksopp Pútín í Rússíá og stofnuðu til þingrannsóknar á forsetakjörinu 2016. Lögmæti kosninga er aðeins viðurkennt við ,,rétt" úrslit. Lýðurinn þolir ekki tvöföld skilaboð.   

Bandaríkin eru sem lýðræðisríki komin að fótum fram. Kannski að Eyjólfur hressist um hríð undir gamla hippanum Biden og úkraínsku vina hans. Uppþotið á Þinghól i janúar 2021 er hiksti. Kommúnisminn fékk hiksta með innrásinni í Tékkóslóvakíu 1968, ári fyrir Woodstock, en kafnaði ekki fyrr en með falli Berlínarmúrsins tveim áratugum síðar. Hiksti síðan hrun. 


mbl.is Biden: „Ekki mótmæli heldur uppreisn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband