Sóttvörn gegn auðmönnum, Bjarni

Til lengri tíma er ekki heppilegt að ríkið eigi svotil alla banka hér á landi. Spurningin er hvað sé langur tími í þessu samhengi.

Einn mælikvarði er lífaldur þeirra bankaauðmanna sem settu þjóðina á hausinn 2008. Flestir voru þeir um fertugt við hrun og eru núna á besta starfsaldri, hoknir reynslu og tilbúnir í annan snúning á fjármálakerfi þjóðarinnar.

Bjarni fjármála og stuðningsmenn bankasölu strax segja bæði innlent regluverk og evrópskt koma í veg fyrir nýtt fjármálafyllerí auðmanna á Fróni með banka sem spilapeninga. Virkilega?

Kunningjakapítalismi á Íslandi í útrás fólst m.a. í því að þeir sem keyptu Landsbankann fengu lánað frá þeim er keyptu Búnaðarbankann, sem aftur lugu til um aðkomu erlends banka, Hauck & Auf­häuser. Dapurlegra en orð fá lýst, segir forveri Bjarna, Geir H. Haarde. Hvar slógu eigendur Búnaðarbankans lán fyrir kaupunum? Jú, hjá Landsbankanum. Svikamylla kunningjanna.

Fyrst að ljúga og blekkja til sín banka síðan að plata heiminn til að trúa að Ísland væri alþjóðleg fjármálamiðstöð. Þarf að rifja upp þá hrollvekju og ræða ábyrgð stjórnmálamanna sem nær allir voru í vasa bankaauðmanna er fjármögnuðu prófkjörsbaráttu meintra fulltrúa almennings? Virkilega?

Koma innlendar og erlendar reglur í veg fyrir nýja svikamyllu auðmanna, Bjarni? Munt þú vera í stöðu Geirs H. Haarde eftir tíu ár eða tólf?

Bein sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka er ávísun á fjárglæfra manna sem sækja í áhættu og eru siðlausir, eins og dæmin sanna, og gott ef ekki líka glæpamenn - samanber dóma yfir úrvali þeirra snillinga er knúðu Ísland í gjaldþrotameðferð fyrir rúmum áratug.

Aðrar leiðir, til að losa ríkið undan bankarekstri, eru vel færar. Til dæmis að gera Íslandsbanka að samfélagsbanka, sparisjóði, er einbeiti sér að einstaklingum og litlum fyrirtækjum.  

Einkenni bjána, er haft eftir Einstein, er að endurtaka sömu tilraunina og búast við annarri niðurstöðu.

Við skulum ekki vera bjánar, Bjarni.

 


mbl.is Hvergi í Evrópu séu umsvif ríkisins meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvorki til skemmri né lengri tíma hefur verið heppilegt að einkaaðilar eigi svo til alla banka á Íslandi. Þvert á móti leiddi það til þriðja stærsta gjaldþrots mannkynssögunnar.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.1.2021 kl. 21:40

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ríkisrekin fyrirtæki, bankar og stofnanir með afdankaða stjórnmálamenn í stjórn hafa mörg orðið gjaldþrota.

Íbúðalánsjóður, Lánstofnun Námsmanna og fl. eru nánast samfélagsbankar

Grímur Kjartansson, 19.1.2021 kl. 06:42

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvorki Íbúðalánasjóður né Menntasjóður námsmanna eru bankar, heldur eru þeir lánasjóðir. Það er hvimleið rangfærsla að halda því fram að þetta séu bankar og enn meiri firra að líkja þeim við samfélagsbanka.

Það eina sem þessar stofnanir eiga sameiginlegt með bönkum er að bæði lána peninga. Munurinn er sá að lánasjóður getur aðeins lánað peninga sem hann á fyrir, hann þarf semsagt að afla peninganna fyrst áður en hann getur lánað þá. Banki þarf hins vegar ekki að eiga þá peninga sem hann lánar út heldur býr hann þá einfaldlega til með því að veita útlán.

Grunnhugmyndin við samfélagsbanka gengur út á að nýta þennan galdur sem felst í því að geta búið til peninga með því að veita útlán til að fjármagna samfélagslega jákvæð verkefni, án fjármagnskostnaðar, í stað þess að einkaaðilar sem eiga banka geti lagt á og innheimt fjármagnskostnað af útlánum úr peningum sem þeir eiga ekki og áttu aldrei. Með samfélagsbanka er þessi auðlind nýtt í þágu samfélagsins, framar auðvaldinu.

Ef boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu á morgun og spurt hvort almenningur samþykki að veita einkareknum fyrirtækjum leyfi til að innheimta vexti af fjármagni sem þau eiga ekki og áttu aldrei, yrði það skítfellt. Vandinn er hins vegar að við höfum aldrei verið spurð um slíkt leyfi.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.1.2021 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband