Svavar Gestsson

Svavar Gestsson féll frá í vikunni. Ég kynntist Svavari á Vikublaðsárunum 1992-1996. Alþýðubandalagið var útgefandi og tveggja manna ritstjórn sat á skrifstofu flokksins neðst á Laugaveginum.

Ólafur Ragnar Grímsson var formaður flokksins en Svavar fyrrum formaður. Þeir tveir voru oddvitar tveggja arma flokksins sem helst töluðust ekki við nema í illindum. Einar Karl Haraldsson var framkvæmdastjóri flokks og blaðs. Hann hafði eitt sinn á orði að þegar flokksmenn úr andstæðum fylkingum væru á gangstétt sömu megin götu tæki annar yfirleitt þann kostinn að bregða sér yfir götuna til að mæta ekki hinum. Sá sem lifir af að vinna hjá Alþýðubandalaginu, var viðkvæði Einars Karls, er ónæmur fyrir vinnustaðaófriði það sem eftir lifir starfsævinnar. Rétt, hvað mig áhrærir.

Ég var ráðinn af Einari Karli sem var trúnaðarmaður Ólafs Ragnars. Aldrei lét Svavar mig finna fyrir því að ég væri skilgreindur í öndverðum flokksarmi. Öll okkar samskipti voru vingjarnleg. Ekki get ég fyllilega sagt það sama um viðskiptin við Ólaf Ragnar. Áherslan er á ,,fyllilega". Formaðurinn sem varð forseti er stríðsmaður. Svavar var taktíker. Synd að þeir náðu ekki saman um hvert skyldi stefna. Kannski var það aldrei í kortunum. Þótt báðir séu af sömu kynslóð er annar fulltrúi Íslands aldamótanna 2000 en hinn menningarinnar er stofnaði lýðveldið, einmitt á fæðingarári Svavars.

Eitt sinn um vetur fyrir vorkosningar birtist skoðanakönnun um fylgi flokka. Ólafur Ragnar hringdi í mig snemma að morgni að ræða könnunina sem var brotin niður eftir kjördæmum. Formaðurinn hafði uppi stór orð hve staða flokksins væri slæm í Reykjavík - kjördæmi Svavars. Stuttu síðar sama dag hringdi Svavar og ræddi skelfilega stöðu flokksins á Reykjanesi - kjördæmi formannsins.

Ekki svo að skilja að allt væri stál í stál í Alþýðubandalaginu. Það mátti hlaða í fyndni. Einu sinni var spurt í Vikublaðinu hvað Svavar og Ólafur Ragnar ættu sameiginlegt. Svarið var aftarlega í blaðinu. Þeir áttu hvor sína Guðrúnu.

Á flokksfundi í Kópavogi sat ég við hlið Arthúrs heitins Morthens. Svavar var í pontu og sagði ekkert nema það sem hægt væri að vera sammála, að mér fannst. En Arthúri varð að orði undir lok ræðu Svavars ,,að hann hefði alveg mátt sleppa þessu" án þess að ég vissi hvað ,,þetta" var. Túri, eins og hann var kallaður, bað strax um orðið, fór í pontu. Ég bjóst við andmælum en heyrði engin, eða skildi þau ekki. Maður var starfsmaður flokks sem stundaði blæbrigðapólitík er aðeins örfáir hertir í áratugagömlum innanflokkserjum gátu numið. Blaðamaðurinn á Vikublaðinu áttaði sig á að orð á opinberum vettvangi eru ekki alltaf til að upplýsa og ræða valkosti heldur líka til að dylja og breiða yfir. Pólitík varð áhugaverðari sem fræðilegt viðfangsefni en miður geðþekk að stunda.

Einar Karl orðaði þetta þannig að þegar plottið væri á mörgum hæðum yrði maður að vita á hvaða hæð maður væri hverju sinni. Sennilega var blaðamaðurinn alltaf í lyftunni á milli hæða.

Svavar sagði mér þá sögu að þegar til stóð að Alþýðubandalagið tæki þátt í Reykjavíkurlistanum 1994 var álitamál hvort Ólafur Ragnar styddi framtakið. Árni Þór Sigurðsson, seinna þingmaður Vg og sendiherra, var í borgarpólitíkinni og handgenginn Svavari. Eftir einn undirbúningsfundinn með Svavari átti Árni Þór að fara til formannsins og fá blessun. ,,Blessaður segðu Ólafi Ragnari að ég sé á móti aðild að Reykjavíkurlistanum," kvaðst Svavar hafa sagt við Árna Þór sem fór með skilaboðin til formannsins. Það tryggði samþykki Ólafs Ragnars að hann taldi Svavar mótfallinn.

Svavar hætti á þingi 1999. Viðtal var við hann í Morgunblaðinu á þeim tímamótum. ,,Skoðanaverksmiðja lokar" var fyrirsögnin. Ég hitti hann fyrir tilviljun um þetta leyti og hann var sáttur við að vera ,,skoðanaverksmiðja" en hafði efasemdir um að henni væri lokað.

Svavar stimplaði sig úr stjórnmálum þegar vinstripólitík skipti um ham. Margrét Frímannsdóttir var kjörinn formaður Alþýðubandalagsins til að leggja flokkinn niður og stofna breiðfylkingu vinstrimanna, Samfylkingu. Nánir samherjar Svavars, Steingrímur J. og Ögmundur Jónasson, voru annarrar skoðunar og stofnuðu Vinstri græna. Ekki veit ég hvort eða hvaða aðkomu Svavar hafði.

Síðast heyrði ég í Svavari þegar hann hringdi í mig eftir að ég bloggaði um fyrsta Icesave-samninginn, svokallaðan Svavarssamning, sem hann var ábyrgur fyrir og var gerður í kjölfar hrunsins. Ég hafði heimildir fyrir því að í viðræðum við Breta, um að ríkissjóður Íslands ábyrgðist skuldir Landsbanka, hafi Svavar og íslenska samninganefndin lagt fram slíkt kostaboð að Bretar báðu óðara um penna til að skrifa undir. Með símtalinu vildi Svavar kanna hug minn til stöðu mála. Eins og alltaf var samtalið okkar vingjarnlegt. Hann talaði um að samningarnir hefðu verið á ,,munkalatínu" og aðalatriðið hefði verið að fá niðurstöðu. Mér varð hugsað til þegar Svavar varð kornungur viðskiptaráðherra og sagt var að hann var sá fyrsti í embættinu sem ekki ætti tékkhefti (algeng greiðslumiðlun í þá daga). Svavar kunni pólitík frá a til ö. Fjármál voru ekki hans sterkasta hlið. Samtalið styrkti trú mína að samningurinn við Breta væri afleikur, þótt gerður væri í góðri trú.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. gerði ráð fyrir að innganga í Evrópusambandið myndi skera okkur úr snöru eftirhrunsins. Við í Heimssýn litum svo á að snaran væri Icesave-samningur Svavars. Lík fullveldisins færi til brennslu í Brussel ef ekki yrði brugðist við í tæka tíð. Fornvinur Svavars, Ólafur Ragnar, þá í forsetastól, sá til þess að engir samningar voru gerðir við Breta. Skuldir einkabanka eru ekki almennings.

Svavar er sonur bónda og húsfreyju, sem fluttu á mölina og urðu verkafólk. Við erum foreldrar okkar plús þeir tímar sem við lifum. Þegar Svavar óx úr grasi var hádegissólin í austri en er dagleiðinni lýkur hnígur hún í vestri. Blessuð sé minning Svavars Gestssonar.

 


Bloggfærslur 24. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband