Friðjón, Brynjar og viðreisnarsósíalismi

Tveir sjálfstæðismenn skrifast á í Morgunblaðinu um hlutverk flokksins. Friðjón R. Friðjónsson vill að Sjálfstæðisflokkurinn verði umbreytingarafl en Brynjar Níelsson geldur varhug við.

Vinstrimenn og sósíalistar líta svo á að stjórnmálaflokkar séu til að umbylta samfélaginu. Hægfara sósíalistar, oft kallaðir kratar, vilja breyta með góðu, þ.e. eftir reglum lýðræðis og þingræðis, en þeir róttæku með illu, byltingu.

Borgaraleg stjórnmálaöfl, sem Sjálfstæðisflokkurinn tilheyrir, a.m.k. að nafninu til, boða almennt ekki umbyltingu á samfélaginu. Samfélagsverkfræði er meira á dagskrá jaðarhópa sem telja sig handhafa sannleikans. Flestir þannig þenkjandi eru í vinstripólitík af einhverri sort. En svo eru sérafbrigði.

Viðreisn, eins og Brynjar bendir á, vill breytingar og þær frekar meiri en minni. Fyrsta krafa flokksins er að Benni komist á þing og flokkurinn í ríkisstjórn. Þarnæst bylta landbúnaðarkerfinu, síðan fiskveiðikerfinu og loks fullveldinu - með inngöngu í ESB.

Viðreisnarsósíalismi er dans elítunnar um gullkálfinn. Meiningin er að skilja þá eftir sem vinna til lands og sjós svo að sérfræðielítan fái stærri sneið af kökunni. Skiljanlegt markmið hjá þeim sem telja sig eiga alltaf að vera fremst í röðinni, hvort heldur við útdeilingu gæða eða afskriftir skulda.


Spilling, hatur og skothríð

Spilling er siðferðishugtak, ekki lagamál. Engin lagagrein bannar spillingu. Aftur eru mörg lögbrot, einkum er varða efnahagslegan ávinning, kennd við spillingu og það með réttu.

Siðferði snýst um rétta og ranga breytni. Sá sem breytir rangt gerir vont, bæði sjálfum sér og samferðamönnum. Umburðalynt samfélag aðgreinir vond verk frá þeim þau vinna. Sagt er að einhverjum hafi orðið á í messunni, gert mistök, leiðst af leið eða gert eitthvað af vangá. Sá sem vann vonda verkið er ekki endilega vondur maður.

Samfélag sem trúir að allt sé grasserandi í spillingu ræktar ekki með sér umburðalyndi heldur óþol og andstyggð. Það trúir illu upp á náungann og telur vonda menn vinna ill verk af ráðnum hug. Hatrið sem af hlýst er sumum um megn að byrgja innra með sér. Viðhorfið verður ,,með illu skal illt út reka."

Þeir sem núna hæst kveina um hatursorðræðu eru um það bil þeir sömu og harðastir eru á því að við búum í gjörspilltu samfélagi. Líkur sækir líkan heim.


mbl.is Gagnrýnir harða og ómálefnalega orðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband