Twitter drepur lýðræðið - eða tístið

Ef Twitter er áhrifamikill samfélagsmiðill drepur hann lýðræðið, reynir það að minnsta kosti. Lýðræðið þrífst á frjálsu flæði hugmynda. Ef það flæði er stöðvað kafnar lýðræðið. 

En nú er ekki víst að Twitter sé merkilegur miðill. Kannski er þetta miðill fábjána og froðusnakka sem engu máli skipta til eða frá. Sé það tilfellið drepur Twitter tístið - sig sjálft. Farið hefur fé betra.

Væntanlega heyrist hljóð úr horni þeirra sem nota þennan miðil þegar sá frægasti þeirra sætir útskúfun.


mbl.is Twitter lokar alfarið fyrir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þinghóll, vanhelgun og Trumpismi

Þinghelgi er forn hugmynd um að þingstaðir njóti friðar umfram aðra staði. Bandaríkjamenn vanhelguðu sinn Þinghól í fyrradag. Innanríkismál ef viðlíka gerðist í Kiev, Róm eða Reykjavík.

Aldeilis ekki þegar um er að ræða Washington. Vanhelgunin er stórfrétt um alla heimsbyggðina. Skýringin er sumpart að Bandaríkin eru stórveldi og meint bólverk frelsis og lýðræðis. En stærsti hluti skýringarinnar er sitjandi forseti, Donald Trump.

Trump verður hálfáttræður í sumar. Ef vandamálið væri hann sem slíkur hverfur ergelsið er karlinn verður elliær eða fellur frá, hvort heldur sem kemur fyrr.

En Trump er ekki vandamálið, það vita allir sem fylgjast með pólitík, heldur Trumpismi.

Trumpismi er útslag fyrir reiði og óþol breiðs hóps þjóðfélagsþegna víða á vesturlöndum. Brexit sumarið 2016 var Trumpismi og það var ekki fyrr en um haustið sem Dónald fékk kjör fyrir vestan.

Vaxandi hópur fólks telur samfélagið ekki virka fyrir sig heldur útlendinga og alþjóðlega sérfræðingastétt er lítur á heiminn allan sem sinn vettvang. Þeir alþjóðlegu vilja segja fólki í hverri sókn og hverjum hreppi hvernig það eigi að lifa lífinu.

Sérfræðingastéttin hefur aftur ekkert lögmæti hjá hversdagsfólki sem ann sinni sveit, sínu héraði, landshluta eða þjóðríki. Til að bæta gráu ofan á svart vita sérfræðingarnir alls ekki hvernig á að reka samfélag. Þeir lifa í bergmálshelli háloftanna, Zoom-fundum á veirutímum, og flakka um heimsálfur eins og rótlaust þangið til að boða samfélag án heimkynna.

Valdastétt án lögmætis og kunnáttu er vitanlega ekki á vetur setjandi. Skriftin á veggnum verður ekki skýrari. Heimsþorpið er draumsýn fárra en martröð fjöldans sem leitar á náðir Trumpisma.

Í vestrænum ríkjum er frjór akur fyrir Trumpisma, sem vitanlega heitir staðbundnum nöfnum. Þinghóll er víðar en í Washington.

 

 

 


mbl.is Biden: „Við sáum hvað var í uppsiglingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband