Hrútar, sauðir og sannleikurinn

Menón eftir Platón er um dygðina. Þeir Sókrates og Menón eiga samtal um eðli dygðarinnar, hvort hún sé meðfædd eða kennd líkt og námsgrein. Í samtalinu teflir Menón fram mótsögn (80E). Við leitum ekki að því sem við þekkjum, segir hann, og leit að því óþekkta er tilgangslaus þar sem við þurfum að vita hverju við leitum að. Í báðum tilfellum er leitin gagnslaus og eftir því óþörf.  

Svar Sókratesar er tvíþætt. Í fyrsta lagi segir hann að maðurinn hafi val, að vera sauður eða hrútur. Sauðirnir gefast upp, hrútarnir ekki. Með orðum Sókratesar: ,,Þess vegna á ekki að láta sannfærast af þessum kappræðurökum, því þau geta gert okkur lata en eru áheyrileg fyrir hina dáðlausu. En hin rökin gera mann framkvæmdasaman og hæfilegan til að leita sannleikans." (81E)

Hin rökin eru upprifjunarkenningin, að þekking sé innra með manninum. Sókrates leit á sig sem ljósmóður þekkingar. Með samræðu yrði þekkingin leidd fram.

Kenningin sem Platón leggur Sókratesi í munn stenst tímans tönn. Þekking er tjáð í orðum eða tölum. Hæfileikinn að tjá sig er öllum meðfæddur. Án orðræðu og táknmálsins sem við köllum stærðfræði er engin þekking nema sú sem tengist frumhvötum s.s. að eta og eðla sig.

Hrúta- og sauðaspurningin vill aftur gleymast. Hver og einn verður að svara fyrir sig. Valið er frjálst og fer fram áður en reynir á leitina að þekkingu. Við veljum að vita - eða láta aðra hafa vit fyrir okkur.

Tilfallandi athugasemdir óska lesendum gleðilegs árs og þakka samfylgdina á liðnum árum.


Bloggfærslur 1. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband