Hreinsanir í Moskvu, afsakið, Washington, og þöggun

Stuðningsmenn Trump missa vinnuna, eru reknir, segir bandarískur fréttamiðill. Kröfur er um að við valdatöku Biden og demókrata beiti alríkið sér gegn embættismönnum sem teljast hallir undir forsetann. Þá er kominn listi yfir samfélagsmiðla sem meina forsetanum og liði hans aðgang að opinberri umræðu.

Söguleg tíðindi atarna. Í Moskvu á millistríðsárunum og í Austur-Evrópu í kalda stríðinu stunduðu valdhafar reglulega hreinsanir og þöggun á fólki og hugmyndum sem hverju sinni voru ekki að skapi.

Bandaríska ríkisvaldið í samvinnu með stærstu tæknifyrirtækjum heimsins virðast ætla að ganga skipulega á milli bols og höfuðs, í óeiginlegum skilningi, á forseta og 70 milljónum kjósenda. Og Bandaríkin eru sem sagt fyrirmyndarríki lýðræðis og mannréttinda.

Allt getur þetta ekki endað nema illa, bæði fyrir Bandaríkin og heiminn allan. Ekkert gott kemur út úr ofsóknum á hendur fólks sem hefur aðrar pólitískar skoðanir en ráðandi öfl.

Það er sundurlaus hjörð sem sameinast gegn Trump og fylgismönnum hans. Ef það tekst að króa Trumpista af og setja þá í skammarkrókinn munu nýju valdahóparnir berjast innbyrðis um hver sé mestur og réttlátastur. Ef Trumpistar ná vopnum sínum dýpkar og versnar menningarstríðið í Bandaríkjunum.

Fyrir áhorfendur að sjónleik stjórnmálanna fer í hönd stórkostleg veisla. Það verður hægt að fylgjast með í beinni á upplausn stórveldis. En maður kennir í brjósti um aumingja fólkið sem verður fyrir barðinu á þeim óreiðutíma sem genginn er í garð.


mbl.is Sakar Twitter um þöggun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir: kerfi eru góð, fólk er vont

,,Ég hef metnað til [...] land­vörslu og upp­bygg­ingu innviða sem skýla nátt­úr­unni.“

Ofanritað er tilvitnun í grein náttúruráðherra Vinstri grænna, Guðmund Inga Guðbrandsson. Guðmundur þykist vita meira um náttúruna en aðrir. Það sem verra er þá er Guðmundur Ingi grillufangari að hætti róttækra vinstrimanna sem trúa á kerfi en er fremur illa við fólk.

,,Innviðir" í tilvitnaðri setningu er annað orð yfir kerfi, stjórnkerfi í þessu tilfelli, sem á að ,,skýla" náttúrunni. Frá hverju? Með leyfi að spyrja. Jú, auðvitað frá fólki, almenningi.

Við sem byggjum þetta land eigum náttúruna saman. Ef það á að takmarka eða hindra aðgang okkar að henni með nýju opinberu kerfi þarf að standa betur að málum en hingað til. Ein hörmungin sem Guðmundur Ingi og sálufélagar hans hafa boðið upp á er þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi. Það er manngerð kerfishörmung með Disney-skiltum, malbiki og klósettskúrum sem ónýta reynsluna af heimsókn þangað. 

Grillufangarar eins og Guðmundur Ingi og vinstri grænir sóttu einu sinni í smiðju Karls Marx en núna skipa þeir sér í sveit Grétu Thunberg. Í báðum tilfellum eiga kerfi að brjóta frjálsa einstaklinga undir manngerða ,,innviði". Í sögulegri tímalínu liggur Gúlagið á milli Marx og Thunberg.

Nei, takk, Guðmundur Ingi, við þurfum ekki þína vörslu og innviði. Samfélagið batar ekki með nýjum kerfum. Fólk er almennt gott, þú áreiðanlega líka. Aftur eru sumar hugmyndir vondar. Þær eigum við að varast.

 


mbl.is Ákvörðun um verndun náttúrunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband