Sóttvörn gegn auðmönnum, Bjarni

Til lengri tíma er ekki heppilegt að ríkið eigi svotil alla banka hér á landi. Spurningin er hvað sé langur tími í þessu samhengi.

Einn mælikvarði er lífaldur þeirra bankaauðmanna sem settu þjóðina á hausinn 2008. Flestir voru þeir um fertugt við hrun og eru núna á besta starfsaldri, hoknir reynslu og tilbúnir í annan snúning á fjármálakerfi þjóðarinnar.

Bjarni fjármála og stuðningsmenn bankasölu strax segja bæði innlent regluverk og evrópskt koma í veg fyrir nýtt fjármálafyllerí auðmanna á Fróni með banka sem spilapeninga. Virkilega?

Kunningjakapítalismi á Íslandi í útrás fólst m.a. í því að þeir sem keyptu Landsbankann fengu lánað frá þeim er keyptu Búnaðarbankann, sem aftur lugu til um aðkomu erlends banka, Hauck & Auf­häuser. Dapurlegra en orð fá lýst, segir forveri Bjarna, Geir H. Haarde. Hvar slógu eigendur Búnaðarbankans lán fyrir kaupunum? Jú, hjá Landsbankanum. Svikamylla kunningjanna.

Fyrst að ljúga og blekkja til sín banka síðan að plata heiminn til að trúa að Ísland væri alþjóðleg fjármálamiðstöð. Þarf að rifja upp þá hrollvekju og ræða ábyrgð stjórnmálamanna sem nær allir voru í vasa bankaauðmanna er fjármögnuðu prófkjörsbaráttu meintra fulltrúa almennings? Virkilega?

Koma innlendar og erlendar reglur í veg fyrir nýja svikamyllu auðmanna, Bjarni? Munt þú vera í stöðu Geirs H. Haarde eftir tíu ár eða tólf?

Bein sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka er ávísun á fjárglæfra manna sem sækja í áhættu og eru siðlausir, eins og dæmin sanna, og gott ef ekki líka glæpamenn - samanber dóma yfir úrvali þeirra snillinga er knúðu Ísland í gjaldþrotameðferð fyrir rúmum áratug.

Aðrar leiðir, til að losa ríkið undan bankarekstri, eru vel færar. Til dæmis að gera Íslandsbanka að samfélagsbanka, sparisjóði, er einbeiti sér að einstaklingum og litlum fyrirtækjum.  

Einkenni bjána, er haft eftir Einstein, er að endurtaka sömu tilraunina og búast við annarri niðurstöðu.

Við skulum ekki vera bjánar, Bjarni.

 


mbl.is Hvergi í Evrópu séu umsvif ríkisins meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herinn, hræddur valdhafi og andrúmsloft haturs

Hermenn eiga að tryggja friðsamlega embættistöku Biden á miðvikudag í Washington. Óttast er að almenningur láti andúð sína í ljós þegar Biden sver embættiseiðinn.

Hræddir valdhafar styðjast við her og lögreglu til að hafa hemil á óánægðum almenningi. Til skamms tíma var slíkt ástand bundið við þriðja heims ríki. Nú eru sjálf Bandaríkin í sömu stöðu.

Yfirvöld í Washington óttast að erlendir aðilar séu að einhverju leyti ábyrgir fyrir uppreisnarhug almennings. Þetta eru sömu viðbrögð og stjórnvöld í Íran og Kína grípa til þegar á bjátar heima fyrir.

Hefð er að segja um nýkjörinn forseta að fyrstu 100 dagar í embætti séu hveitibrauðsdagar. Stefnumál og ríkisstjórn leggja línur fyrir kjörtímabilið. Biden fær sína hveitibrauðsdaga undir hervernd.

Félagsmiðlar og miðlar með forskeytið fjöl kynda undir ótta um vopnatak, samanber viðtengda frétt. Lausnin sé að vera fyrri til og gera atlögu að óvildarmönnum valdhafa áður en þeir ná að safna liði. Frjálslynt tímarit, The New Republic, segir Trumpisma bandalag hvítu yfirstéttarinnar og nái langt inn í embættismannakerfið.

Opinber umræða sem biður um og kallar eftir ofbeldi verður vanalega að ósk sinni. Vítahringur bandarískra stjórnmála dýpkar enn. Biden-stjórnin er leiksoppur atburðarásar sem ekki verður undið ofan af.


mbl.is „Ef þeir neita drepið þá, skjótið þá niður á staðnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband