Miðvikudagur, 5. september 2018
Tíu ára Trump sigrar fullorðinn Macron
Trump stendur betur að vígi meðal bandarískra kjósenda en Macron meðal franskra. Báðir forsetarnir bjuggu til sína eigin pólitísku hreyfingu sem skilaði þeim æðstu embættum í Bandaríkjunum og Frakklandi.
Macron er vonarstjarna vinstrimanna og frjálslyndra. Alþjóðahyggja síðustu áratuga er hugmyndafræðin. Mottóið er engin þjóðríki, öll völd til alþjóðakerfisins. Trump er oddviti hægrimanna. Þeir líta á þjóðríkið sem hornstein siðmenningar. Lykilsetningin er; án þjóða, ekkert samfélag aðeins óreiða.
Í vinstriútgáfunni Guardian er gerður samanburður á Trump og Macron. Niðurstaðan er að á bakvið Macron standa ósamstæð öfl alþjóðasinna en fylgjendur Trump vita hvað þeir vilja - samfélagið sitt tilbaka.
Nú er okkur sagt að Trump sé með heilabú tíu ára krakka. Í ævintýrinu um keisarann klæðalausa var það einmitt krakkinn sem afhjúpaði blekkingu þeirra fullorðnu. Alþjóðahyggjan er nakin blekking.
![]() |
Með ofsóknaræði og skilning á við 10 ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 4. september 2018
Já takk, ESB
Evrópusambandið ætlar að bjóða Bretum fríverslunarsamning í ætt við þann sem er í gildi á milli ESB og Kanada. Bretar höfðu áður hafnað því að vera hlekkjaðir við ESB með EES-samningnum sem Ísland situr uppi með.
Gangi það fram að Bretar fái fríverslunarsamning eftir Brexit er það gott mál fyrir Ísland.
Við gætum strax daginn eftir sagt upp EES og tekið upp fríverslunarviðræður.
![]() |
Barnier býður Bretum fríverslun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 4. september 2018
Útlönd, RÚV og afkoma fjölmiðla
Samkeppnin við Ríkisútvarpið hefur farið harðnandi vegna aukinna umsvifa þess, einkum á auglýsingamarkaði. Erlend samkeppni hefur einnig harðnað mjög og þar keppa innlendir miðlar við erlenda miðla sem búa við allt aðrar aðstæður, svo sem í skattalegu tilliti og í tækifærum til auglýsingasölu.
Tilvitnunin hér að ofan er í frétt af neikvæðri afkomu útgáfufélags Morgunblaðsins. Erlenda samkeppnin um auglýsingatekjur í netútgáfum er ekki hægt að gera neitt við. Íslenskir og erlendir auglýsendur geta keypt sér athygli Facebook-notenda sem og þeirra sem lesa erlenda fjölmiðla á netinu.
Aftur er eitthvað hægt að gera í samkeppninni við RÚV sem er ríkisfyrirtæki í beinni samkeppni við einkarekna fjölmiðla hér á landi. Í meginatriðum eru aðeins tvær leiðir færar:
a. Leggja RÚV niður.
b. Taka RÚV af auglýsingamarkaði.
Frekari ríkisvæðing fjölmiðla, t.d. með beinum framlögum til þeirra, er ekki raunhæfur kostur. Fyrir það fyrsta yrðu óðara stofnaðir fjölmiðlar til að gera út á ríkisjötuna. Í öðru lagi yrðu fjölmiðlar háðir ríkisframlögum, ef þau skiptu á annað borð máli, sem veit ekki á fjölræði í fjölmiðlum.
![]() |
Neikvæð afkoma í erfiðu umhverfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 4. september 2018
ESB: Gamli sáttmáli gildir um Noreg og Ísland
Í augum Evrópusambandsins er Ísland hjálenda Noregs í EES-samstarfinu. Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu býður Bretum sama samning og Noregur hefur; að taka við reglum sambandsins og borga fyrir aðgang að innri markaði sambandsins.
Á hátíðarstundum er reynt að telja okkur trú um að EES-samningurinn sé fjölþjóðasamningur þriggja ríkja, þ.e. Noregs, Íslands og Lichtenstein við Evrópusambandið. Í reynd er samningurinn milli Noregs og tveggja smáríkja, sem valdamönnum í Brussel finnst ekki taka að nefna á nafn.
Noregur er stórveldið í EES, sagði norskur þingmaður í vor. Norskur ráðherra gerði sér ferð til Íslands í sumar að leggja línurnar um hvernig ríkisstjórn Íslands ætti að bregðast við einhliða útvíkkun ESB á samningnum, sem felur m.a. sér íhlutunarrétt í íslensk orkumál.
Barnier í Brussel segir blátt áfram það sem íslensk stjórnvöld láta yfir sig ganga: Osló ákveður, Reykjavík fylgir. Gamli sáttmáli er í fullu gildi í stjórnarráðinu á Arnarhvoli.
![]() |
Þýddi endalok innri markaðarins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 3. september 2018
RÚV og Trump-geðveikin
RÚV gæti verið bandarískur fjölmiðill sé tekið mið af hvernig fjallað er um Trump. Bandarískum fjölmiðlum til afsökunar má segja að opinbert stríð sé á milli þeirra og forsetans. Trump tístir og fjölmiðlar gala.
RÚV býr ekki við þá afsökun að Hvíta húsið sé valdamiðstöð á Íslandi. Fréttirnar af Trump gefa þó annað til kynna; RÚV er í mun að gjaldfella forsetann.
RÚV bauð til sín geðlækni að ræða andlegt heilsufar Trump. Er líklegt að geðlæknir yrði kallaður til að fjalla um May í Bretlandi, Merkel í Þýskalandi eða Macron í Frakklandi? Nei, líklega ekki.
Óttar Guðmundsson geðlæknir sagði undan og ofan af sérkennum Trump eins og þau blasa við fjölmiðlaneytendum en harðneitaði að lýsa manninn geðveikan. Heldur ekki siðblindan, þótt hann hafi verið um það þýfgaður.
Við þurfum ekki fjölmiðla til að vita að Trump er maður sinnar gerðar. En fjölmiðlar ættu að fara varlega að nota hugtök úr geðlæknisfræði. Við gætum sannfærst um að við búum í geðveikum heimi. Í framhaldi farið að haga okkur skringilega - eins og RÚV þegar fréttaefnið er Trump.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 3. september 2018
Vinstrimenn valdníða Ástráð - hvar er pólitíkin?
Ástráður Haraldsson varð fyrir valdníðslu vinstrimeirihlutans í Reykjavík þegar kona var tekin fram yfir hann í stöðu borgarlögmanns. Halldór Auðar Svansson fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata viðurkennir samsærið gegn Ástráði.
Þannig vill til að Ástráður var einnig umsækjandi um stöðu dómara við landsrétt. Þegar hann fékk ekki framgang gerðu vinstrimenn harða hríð að dómsmálaráðherra og kröfðust afsagnar. Ástráður sjálfur kynti undir með bloggher vinstrimanna.
En nú, þegar úrskurður liggur fyrir um brot á jafnréttislögum og játning geranda, um valdníðslu borgarstjórnar á Ástráði, er fátt að frétta af hneykslan vinstrimanna.
![]() |
Viðurkennir eigin valdníðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 2. september 2018
Óhjákvæmni EES, Björn Bjarna og Jón Baldvin
Við höfum fengið allt fyrir ekkert, voru fleyg orð Jóns Baldvins Hannibalssonar þáverandi utanríkisráðherra þegar hann kynnti Íslendingum EES-samninginn fyrir aldarfjórðungi.
En alveg eins og ekki er til ókeypis hádegisverður eru engir alþjóðasamningar þannig úr garði gerðir að einn aðili fær allt fyrir ekkert. Núna stendur yfir umræða um hvort veita skuli Evrópusambandinu íhlutunarrétt í íslensk raforkumál. Íslensku heiðarnar og fallvötnin eru nokkru stærra en ,,ekkert".
Á þessu bloggi var gagnrýnt að skipuð var af hálfu utanríkisráðherra pólitísk nefnd EES-sinna. Vitnað var til orða formanns nefndarinnar, Björns Bjarnasonar, um óhjákvæmni EES-samningsins. Björn mótmælir þessari túlkun og segist ekki telja EES-samninginn óhjákvæmilegan fyrir samskipti Íslands og ESB. Það er vel.
Friðhelgi hvíldi yfir EES-samningnum á meðan umræðan stóð yfir um hvort Ísland ætti að verða aðildarríki Evrópusambandsins eða ekki. Sá sem hér skrifar var einn af stofnendum Heimssýnar sumarið 2002, starfaði í stjórn félagsins og var framkvæmastjóri um tíma frá stofnun til ársins 2013.
Heimssýn er vettvangur andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Á árabilinu sem hér um ræðir, 2002 og 2013, var reglulega rætt um EES-samninginn. Nær öllum umræðum lauk með samkomulagi um að af tvennu illu væri EES-samningurinn skárri en aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna naut EES-samningurinn friðhelgi.
Eftir að ESB-umsókn Samfylkingar var dregin tilbaka áramótin 2012/2013 af ríkisstjórn Jóhönnu Sig. voru ekki lengur forsendur fyrir friðhelginni. Evrópusambandið notar EES-samninginn til að sækja sér valdheimildir yfir íslenskum innanríkismálum, flytja völd frá Reykjavík til Brussel. Það kallar á átök um grundvöll EES. Þau standa yfir þessi misserin.
EES-samningurinn var gerður þegar Evrópusambandið var ráðandi hugmyndafræði í nær allri álfunni. Frá og með Brexit 2016 er ESB deyjandi hugmynd. Leiðari Telegraph í Bretlandi segir umbúðalaust: ESB er sökkvandi skip.
Í gegnum EES-samninginn er Ísland munstrað á sökkvandi skip. Við eigum að segja upp þessum samningi. Það er mergurinn málsins - óhjákvæmilega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 2. september 2018
Trump; orsök eða afleiðing?
Forsetatíð Trump má skoða frá tveim ólíkum sjónarhornum. Í fyrsta lagi að hann sé orsök vandræða, bæði innan Bandaríkjanna og í alþjóðasamskiptum. Út frá því sjónarhorni er Trump óverulegt vandamál. Hann er á áttræðisaldri og guðirnir kalla hann til sín fyrr heldur en seinna. Jafnvel þótt hann nái endurkjöri 2020 er átta ára valdatími fjarri nógu langur tími til að marka þáttaskil í sögu stórveldis að öðru óbreyttu.
En frá öðru sjónarhorni er Trump afleiðing en ekki orsök - og aukast þá vandræðin.
Trump gæti boðað endalok tveggja tímabila. Vestrænnar velmegunar áratuganna eftir seinna stríð annars vegar og hins vegar vestrænna yfirburða í alþjóðastjórnmálum frá lokum kalda stríðsins - síðustu 30 árin eða svo.
Ef Trump er afleiðing en ekki orsök er hvorttveggja í húfi opið og frjálslynt velferðarsamfélag og friðsöm alþjóðasamskipti.
Trump fékk umboð til að gera Bandaríkin sterk að nýju. Meginleiðir til að ná þeim árangri eru að loka landamærunum og draga Bandaríkin úr heimsviðskiptum með tollmúrum. Í 100 ár, allt frá lokum fyrra stríðs, eru Bandaríkin gerandi í alþjóðamálum. Wilson Bandaríkjaforseti festi í sessi þjóðríkjaregluna, sem m.a. Íslendingar nutu góðs af með fullveldinu 1918. Bandaríki Trump gefa ekki út stórar yfirlýsingar um hvernig málum skuli háttað. Nema, auðvitað, þegar bandarískir hagsmunir eru í húfi. Frjálslynd hugmyndafræði er hvergi nefnd.
Lokuð landamæri fá víða hljómgrunn, ekki síst í Evrópu þar sem ótaldar milljónir múslíma standa í biðröð eftir vestrænum lífskjörum. Þeim verður í auknum mæli vísað frá og sagt að hypja sig heim og taka þar til hendinni. Í leiðinni verður þeim gert að endurnýja miðaldatrúna, sem múslímar eru ánetjaðir, til að þeir verði húsum hæfir norðan Miðjarðarhafs. Hvorttveggja tekur áratugi og kallar á viðvarandi blóðsúthellingar.
Kína var bændasamfélag þangað til bandaríski markaðurinn opnaðist ódýrum neysluvarningi á seinni hluta síðustu aldar. Ef bandaríkjamarkaðurinn lokast vegna tollmúra verða Kínverjar að finna nýja markaði til að halda sér á lífi sem efnahagsveldi. Evrópa tekur ekki við nema hluta framleiðslunnar. Þá er eftir Asía enda Afríka enn of fátæk. Í Asíu hitta Kínverjar fyrir tvö önnur iðnveldi, Japan og Suður-Kóreu. Það veit á átök um áhrifasvæði og markaði.
Kerfið sem sett var upp árin eftir seinna stríð, með Bandaríkin í forystu fyrir vestrænum ríkjum og veitti nýfrjálsum ríkjum svigrúm, Kína meðtalið, er að hruni komið. Þetta kerfi er kennt við vestrænt frjálslyndi og byggði á tveim forsendum, sem báðar reyndust rangar.
Fyrri forsendan var að vestræn gildi myndu fyrr heldur en seinna yfirtaka heiminn. Hrun Sovétríkjanna og kommúnismans virtist styrkja forsenduna. Innrásin í Írak og ófriðurinn í miðausturlöndum kippir fótunum undan þessar forsendu. Ekki síst þar sem Rússland var ekki tekið með í reikninginn, en það er hvorki vestrænt né asískt en þó stórveldi á sínu vísu. Vestræn ríki eru, þegar á hólminn er komið, of veik til að þvinga menningu sinni á óviljugar þjóðir. Úkraína, Sýrland, Líbýa og Írak eru skýr vitnisburður.
Seinni forsendan var að allur almenningur á vesturlöndum bætti jafnt og þétt lífskjörin á meðan vestræn gildi sigruðu heiminn og nýfrjáls ríki styrktu sig í sessi. Hagtölur síðustu ára í Bandaríkjunum sérstaklega, en einnig Evrópu, ómerkja þessa forsendu. Millitekjufólk og láglaunahópar sitja eftir í lífskjörum en efri stéttirnar maka krókinn í alþjóðavæddum heimi.
Bandarískir kjósendur sendu Trump í Hvíta húsið til að afnema fyrirkomulag sem vann gegn almannahag. Vorið áður en Trump sigraði kusu Bretar að yfirgefa hornstein frjálslyndrar hugmyndafræði vestan Atlantsála, Evrópusambandið. Brexit og Trump eru engilsöxun á hugmyndafræði sem Bretar og Bandaríkin eru meginhöfundar að. Vinstrimenn leita ekki í smiðju J.S. Mill til að endurvekja frjálslyndið, Karl Marx og sósíalismi eiga upp á pallborðið.
Trump er stærri og fyrirferðameiri en nokkur annar forseti Bandaríkjanna í manna minnum. Ekki sökum þess að maðurinn sé stór í sniðum heldur af þeirri ástæðu að Trump er holdtekja umbyltinga. Enginn veit, allra síst forsetinn sjálfur, hver útkoman verður. En það er kýrskýrt að Trump leysir úr læðingi pólitískar jarðhræringar sem ekki sér fyrir endann á. Í framtíðinni verður talað um tímaskeiðið fyrir og eftir 2016. Trump er afleiðing en ekki orsök.
![]() |
Hótar að ganga úr WTO |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 1. september 2018
Palestínumenn, hryðjuverk og dollarar
Stjórnvöld Palestínu nota bandarískt skattfé til að niðurgreiða hryðjuverk. Palestínumaður sem drepur Ísraela fær peninga frá heimastjórninni. Þetta er opinber stefna og hefur lengi verið. Ef hryðjuverkamaðurinn fellur í árásinni fær fjölskyldan framfærslu frá heimastjórninni.
Nú verður skrúfað fyrir fjármagn til að niðurgreiða hryðjuverk og það kalla Palestínumenn ,,svívirðilega árás".
Hryðjuverk eru líklega eitthvað annað og fallegra en ,,svívirðileg árás."
![]() |
Þetta er svívirðileg árás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 1. september 2018
Pólitísk nefnd til varnar EES
Hugmyndafræði EES-samningsins er komin í þrot. Evrópusambandið bjó til þennan samning fyrir 25 árum fyrir ríki sem voru á leið inn í sambandið. Á seinni árum notar ESB samninginn til að sækja sér valdheimildir yfir innanríkismálum EES-ríkja, nú síðast yfir raforkumálum.
Auk Íslands eiga Noregur og Liechtenstein aðild að EES-samningnum á móti Evrópusambandinu.
Bretar, sem eru á leið úr ESB, ætla ekki að ganga inn í EES-samninginn enda samræmist hann ekki fullveldi Bretlands.
Utanríkisráðherra Íslands skipar pólitíska nefnd sem skipa yfirlýstir stuðningsmenn EES-samningsins. Formaður nefndarinnar, Björn Bjarnason, segir
Ég var og er á móti ESB-aðild og tel að EES-leiðin sé best til óhjákvæmilegs samstarfs okkar við ESB.
EES-samningurinn er ekki óhjákvæmilegur fyrir samskipti nágrannaþjóða við Evrópusambandið. Ef svo væri yrði Bretland aðili að samningnum eftir úrsögn úr ESB.
EES-samningurinn er barn síns tíma. Ísland ætti að segja sig frá samningi sem samrýmist ekki fullveldi þjóðarinnar.
![]() |
Björn Bjarnason leiðir starfshóp um EES |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)