Trump; orsök eða afleiðing?

Forsetatíð Trump má skoða frá tveim ólíkum sjónarhornum. Í fyrsta lagi að hann sé orsök vandræða, bæði innan Bandaríkjanna og í alþjóðasamskiptum. Út frá því sjónarhorni er Trump óverulegt vandamál. Hann er á áttræðisaldri og guðirnir kalla hann til sín fyrr heldur en seinna. Jafnvel þótt hann nái endurkjöri 2020 er átta ára valdatími fjarri nógu langur tími til að marka þáttaskil í sögu stórveldis að öðru óbreyttu.

En frá öðru sjónarhorni er Trump afleiðing en ekki orsök - og aukast þá vandræðin.

Trump gæti boðað endalok tveggja tímabila. Vestrænnar velmegunar áratuganna eftir seinna stríð annars vegar og hins vegar vestrænna yfirburða í alþjóðastjórnmálum frá lokum kalda stríðsins - síðustu 30 árin eða svo.

Ef Trump er afleiðing en ekki orsök er hvorttveggja í húfi opið og frjálslynt velferðarsamfélag og friðsöm alþjóðasamskipti.

Trump fékk umboð til að gera Bandaríkin sterk að nýju. Meginleiðir til að ná þeim árangri eru að loka landamærunum og draga Bandaríkin úr heimsviðskiptum með tollmúrum. Í 100 ár, allt frá lokum fyrra stríðs, eru Bandaríkin gerandi í alþjóðamálum. Wilson Bandaríkjaforseti festi í sessi þjóðríkjaregluna, sem m.a. Íslendingar nutu góðs af með fullveldinu 1918. Bandaríki Trump gefa ekki út stórar yfirlýsingar um hvernig málum skuli háttað. Nema, auðvitað, þegar bandarískir hagsmunir eru í húfi. Frjálslynd hugmyndafræði er hvergi nefnd.

Lokuð landamæri fá víða hljómgrunn, ekki síst í Evrópu þar sem ótaldar milljónir múslíma standa í biðröð eftir vestrænum lífskjörum. Þeim verður í auknum mæli vísað frá og sagt að hypja sig heim og taka þar til hendinni. Í leiðinni verður þeim gert að endurnýja miðaldatrúna, sem múslímar eru ánetjaðir, til að þeir verði húsum hæfir norðan Miðjarðarhafs. Hvorttveggja tekur áratugi og kallar á viðvarandi blóðsúthellingar.

Kína var bændasamfélag þangað til bandaríski markaðurinn opnaðist ódýrum neysluvarningi á seinni hluta síðustu aldar. Ef bandaríkjamarkaðurinn lokast vegna tollmúra verða Kínverjar að finna nýja markaði til að halda sér á lífi sem efnahagsveldi. Evrópa tekur ekki við nema hluta framleiðslunnar. Þá er eftir Asía enda Afríka enn of fátæk. Í Asíu hitta Kínverjar fyrir tvö önnur iðnveldi, Japan og Suður-Kóreu. Það veit á átök um áhrifasvæði og markaði.

Kerfið sem sett var upp árin eftir seinna stríð, með Bandaríkin í forystu fyrir vestrænum ríkjum og veitti nýfrjálsum ríkjum svigrúm, Kína meðtalið, er að hruni komið. Þetta kerfi er kennt við vestrænt frjálslyndi og byggði á tveim forsendum, sem báðar reyndust rangar.

Fyrri forsendan var að vestræn gildi myndu fyrr heldur en seinna yfirtaka heiminn. Hrun Sovétríkjanna og kommúnismans virtist styrkja forsenduna. Innrásin í Írak og ófriðurinn í miðausturlöndum kippir fótunum undan þessar forsendu. Ekki síst þar sem Rússland var ekki tekið með í reikninginn, en það er hvorki vestrænt né asískt en þó stórveldi á sínu vísu. Vestræn ríki eru, þegar á hólminn er komið, of veik til að þvinga menningu sinni á óviljugar þjóðir. Úkraína, Sýrland, Líbýa og Írak eru skýr vitnisburður. 

Seinni forsendan var að allur almenningur á vesturlöndum bætti jafnt og þétt lífskjörin á meðan vestræn gildi sigruðu heiminn og nýfrjáls ríki styrktu sig í sessi. Hagtölur síðustu ára í Bandaríkjunum sérstaklega, en einnig Evrópu, ómerkja þessa forsendu. Millitekjufólk og láglaunahópar sitja eftir í lífskjörum en efri stéttirnar maka krókinn í alþjóðavæddum heimi.

Bandarískir kjósendur sendu Trump í Hvíta húsið til að afnema fyrirkomulag sem vann gegn almannahag. Vorið áður en Trump sigraði kusu Bretar að yfirgefa hornstein frjálslyndrar hugmyndafræði vestan Atlantsála, Evrópusambandið. Brexit og Trump eru engilsöxun á hugmyndafræði sem Bretar og Bandaríkin eru meginhöfundar að. Vinstrimenn leita ekki í smiðju J.S. Mill til að endurvekja frjálslyndið, Karl Marx og sósíalismi eiga upp á pallborðið. 

Trump er stærri og fyrirferðameiri en nokkur annar forseti Bandaríkjanna í manna minnum. Ekki sökum þess að maðurinn sé stór í sniðum heldur af þeirri ástæðu að Trump er holdtekja umbyltinga. Enginn veit, allra síst forsetinn sjálfur, hver útkoman verður. En það er kýrskýrt að Trump leysir úr læðingi pólitískar jarðhræringar sem ekki sér fyrir endann á. Í framtíðinni verður talað um tímaskeiðið fyrir og eftir 2016. Trump er afleiðing en ekki orsök.


mbl.is Hótar að ganga úr WTO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Fjári skarpleg greining Páll. Það væri hollt fyrir vinstrimenn að hugleiða þessa djúpu köfun í þeirra hugmeyndaheim sem þeir sjá ekki að byggir á sömu villunni og felldi Sovétríkin, oftrú é reglugerðir og paragröff sem Íslendingar eins og Guðlaugur Þór og forysta Sjálfstæðisflokksins gleypa því  miður yfirleitt allt of hráar. En það hefði verið eina viðspyrnan fyrir Ísland  því ekki kemur hún frá Pírötum eða öðru vinstra hyski. Nú eiga Björn Bjarnason og Kristrún heimis og ein til að skilgreina hvað sé frjálslyndi í EES  og hvað ekki. Ekki var umhlaupið mikið hjá Guðlaugi

Halldór Jónsson, 2.9.2018 kl. 10:28

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Tíst frá Trump eftir að Kanada hafnaði þatttöku í fríverslunarsamningi við US-MEX: 

We shouldn’t have to buy our friends with bad Trade Deals and Free Military Protection

Þetta er það sem liggur til grundvallar áherslubreytinga Trump í utanríkismálum. Auðvitað veldur þetta óróa hjá þeim sem vanist hafa að ganga í vasa BNA. Við höfum líka fengið okkar skerf. En við ættum að athuga hvort þessi orð Trump geti ekki líka átt við okkur, þegar við íhugum að selja fullveldið til þess eins að fá að vera með í klúbb sem við viljum ekki einu sinni ganga í.

Ragnhildur Kolka, 2.9.2018 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband