Kata Jakobs kjánast á hálendinu

Jökullinn Ok var kvaddur á forsíðu Morgunblaðsins árið 1960, fyrir 59 árum. Þar segir m.a.

Myndin hér til hliðar sýnir vel hvernig komið er fyrir Okinu. Jökullinn hefur eyðst svo mjög að gígurinn er orðinn auður nema í botninum og er hann nú fyrir utan fönnina.

Kata Jakobs gerir sjálfan sig að kjána með því að fara að Ok árið 2019 og láta eins og heimsendir sé í nánd vegna jökuls sem hvarf af náttúrulegum ástæðum fyrir bráðum 60 árum. 

 


mbl.is Okjökull kvaddur með viðhöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill Helga uppgötvar þjóðhyggju

Egill Helga álitsgjafi og umræðustjóri uppgötvar þjóðhyggju þegar nærri brauðstriti hans er hoggið með því að Reykjavíkurborg auglýsir á samfélagsmiðlum en ekki íslenskum fjölmiðlum. Egill skrifar

Æ stærri hluti af fjölmiðla- og menningarneyslu okkar fer fram í gegnum stóra alþjóðlega, fyrst og fremst bandaríska, auðhringi. Google, Facebook, Amazon, Netflix. Í raun er furðulegt hversu fáir andæfa þessu – það er eins og baráttan fyrir menningarlegu sjálfstæði þyki hallærisleg.

Á liðnu hausti þóttist Egill ekkert skilja þjóðhyggju, við værum hvort eð er svo alþjóðleg og sæl í neyslunni á öllu útlendu.

Þjóðhyggja er að búa að sínu. Andstaðan við orkupakkann er þjóðhyggja; við viljum stjórna náttúruauðlindum okkar á íslenskum forsendum. Að tala íslensku er þjóðhyggja og sömuleiðis að halda úti menningarstarfsemi eins og fjölmiðlum á eigin tungu.

Þjóðhyggja er, þegar öllu er á botninn hvolft, sú afstaða að íslenskt samfélag, saga og menning er heimili okkar sem ekki er falt á alþjóðlegum markaði.  

Skilningsljósið kviknaði loks hjá Agli þegar það rann upp fyrir honum að alþjóðavæðingin, sem hann annars mærir dag inn og dag út, gerir íslenska fjölmiðla fullkomlega óþarfa.Það liggur í hlutarins eðli að í alþjóðavæddum heimi eru íslenskir fjölmiðlar eins og krækiber í helvíti.

Þjóðhyggja er aðeins hallærisleg í huga þeirra sem haldnir eru sjálfsfyrirlitningu á þjóð sinni og menningu.


Píratar klofna vegna orkupakka

Píratar felldu tillögu um að orkupakkinn færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Smári McCarthy þingmaður sagði tillöguna vera ,,meiri æfing í skrílræði en lýðræði."

Til skamms tíma voru Píratar almenn fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum. En dæmið snýst við þegar þeir sjá fram á að vera í tapliðinu, þá er þjóðaratkvæði ,,skrílræði."

Sumir Píratar eru aftur fylgjandi nýrri stjórnmálahreyfingu sem vill orkupakkann í þjóðaratkvæði.


Rósa B. fékk kennslu, - og móðgaðist

Arnar Þór Jónsson dómari hélt stutta kennslustund á fundi utanríkismálefndar alþingis. Kjarninn er þessi: ef Ísland samþykkir orkupakka þrjú verður landið hluti af orkusambandi Evrópu, European energy union. Orkusambandið er byggt upp á 5 þáttum. Einn af þessum fimm þáttum er svohljóðandi:

Samhæfður innri orkumarkaður er tryggir frjálst flæði orku í ESB með nauðsynlegum innviðum án tækni- eða reglugerðahindrana.
(A fully integrated internal energy market -  enabling the free flow of energy through the EU through adequate infrastructure and without technical or regulatory barriers)

Arnar Þór benti á hið augljósa, að Ísland verði að hlíta markmiðum, lögum og reglum Evrópusambandsins í orkumálum ef við tækjum upp orkupakka 3. Fullveldi þjóðarinnar í raforkumálum er þar með farið til Brussel.

Rósa B. þingmaður sagði kennslu Arnars Þórs ,,bara mjög móðgandi". Eins og aðrir orkupakkasinnar vill Rósa B. trúa því að orkupakkinn sé þýðingarlaust smámál og bregst ókvæða við ef hlutirnir eru sagðir eins og þeir eru.

 

 


mbl.is „Þetta er bara mjög móðgandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkupakkinn og tvær blokkir á Norður-Atlantshafi

Með hörðu Brexit tapar Evrópa Bretlandi í hendur Bandaríkjamanna, skrifar áhrifavaldur í breskan fjölmiðil. Bandaríkin vilja eignast Grænland. Dæmin tvö segja okkur að stórveldapólitík á Norður-Atlantshafi tekur hamskiptum þessi árin. 

Orkupakkinn tengir Ísland beint við orkustefnu/orkusamband meginlands Evrópu, þar sem ESB ræður ríkjum. Orkupakkinn er þess vegna ekki aðeins lögfræðilegt álitamál eða innanríkispólitík á Fróni heldur stórpólitískt viðfangsefni.

Ísland gæti staðið frammi fyrir að velja á milli tveggja blokka á Norður-Atlantshafi: Bandaríkjanna og Evrópusambandsins-Rússlands. Við höfum reynslu af Bandaríkjunum, þau hersátu Ísland, samkvæmt samningi, í 65 ár án teljandi vandræða fyrir fullveldi okkar og sjálfsstjórn. Reynsla okkar af Evrópusambandinu er miklu verri. Í 25 ár reynir ESB í gegnum EES-samninginn að knýja okkur í þjóðargjaldþrot, Icesave-áþjánin, og hirða af okkur fullveldið í orkumálum, með orkupakkanum.

Við ættum ekki undir neinum kringumstæðum að tengjast Evrópusambandinu nánari böndum um þessar mundir. Íslendingar eiga að bíða og sjá hversu fram vindur á Norður-Atlantshafi og vinna tíma. Næstu stórtíðindi eru úrlausn Brexit, sem alls ekki eru fyrirséð. Járnhörð valdalögmál segja að fjarlægist Bretland Evrópu mun nágranninn í austri, Rússland, sjálfkrafa auka áhrif sín á meginlandinu.

Orkupakkinn á þess vegna ekki að vera á dagskrá. Við eigum skilyrðislaust að hafna frekari bindingu við ESB. 


mbl.is Utanríkismálanefnd fundar um orkupakkann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir eiga Grænland vegna Íslendinga

Grænland byggðist af Íslendingum á tíundu öld. Útþensla norska konungsríkisins um miðja 13. öld, á dögum Hákonar gamla, leiddi til þess að bæði Ísland og Grænland urðu hluti Noregsveldis.

Noregur hrundi á 14. öld og gekk undir dönsku krúnuna. Ísland, Grænland og Færeyjar fylgdu í kaupbæti. 

Það liggur í hlutarins eðli að Ísland fái prósentur af sölu Grænlands til Bandaríkjanna, - verði af kaupunum.


mbl.is Trump sagður íhuga að kaupa Grænland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn sýnir XD gula spjalið

Tveir liðsoddar Framsóknarflokksins, Jón Björn Hákonarson ritari flokksins, og Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður skrifa hvor sína greinina í Morgunblaðið og Fréttablaðið þar sem andstöðu er lýst við ætlun forystu Sjálfstæðisflokksins að samþykkja orkupakkann á alþingi í lok mánaðar.

Jón Björn skrifar í Morgunblaðið:

Innleiðing orkupakka þrjú er fyrsta mál á dagskrá þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir sumarfrí nú í lok ágúst. Að mínu mati er brýnt til að umræðan rati ekki í sama farið aftur, með tilheyrandi sundrungu, að þingheimur sammælist um það að málið, eins og það er nú sett fram með þeim fyrirvörum að hingað sé ekki hægt að leggja sæstreng án samþykkis Alþingis og þeir hlutar orkupakkans sem snúa að flutningi yfir landamæri taki ekki gildi, verði sent til sameiginlegu EES-nefndarinnar til umsagnar og staðfestingar á því hvort áðurnefndir fyrirvarar haldi þannig að slíkt sé hafið yfir allan vafa. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir þá verði orkupakkinn fyrst innleiddur þegar óvissunni hefur verið eytt og rökin í málinu orðin skýr.

Jón Sigurðsson er með sömu skilaboð í Fréttablaðinu fyrir tveim dögum:

Til þess að bæta úr má hugsa sér að Alþingi samþykki þingsályktunartillöguna með viðbótartillögu þess efnis að ríkisstjórn Íslands leggi það tafarlaust fyrir sameiginlegu EES-nefndina að Ísland hyggist ekki fyrir sitt leyti taka upp allar reglur raforkukerfis Evrópusambandsins af augljósum náttúrulegum ástæðum (fjarlægðum, legu lands, mannfjölda hér, náttúruvernd, orkumálastefnu okkar og raforkukerfi, sjávardýpi o.fl.) og hyggist af sömu ástæðum ekki tengjast raforkukerfum annarra landa. Tiltekið verði að 3. orkupakkinn taki ekki gildi fyrir Ísland fyrr en sameiginlega nefndin hefur staðfest afstöðu Íslendinga með formlegum hætti.

Báðir Jónarnir eru handgengnir forystu Framsóknar, sem finnur fyrir þungri undiröldu almennra flokksmanna sem vilja ekki fórna fullveldinu í raforkumálum.

Æ betur kemur í ljós hve forysta Sjálfstæðisflokksins er einangruð í orkupakkanum. Ráðherrar og þingmenn flokksins vinna skipulega gegn þjóðarhagsmunum, grafa undan ríkisstjórninni og reyta fylgið af eigin flokki. Er forysta XD eins og hvalirnir sem synda upp í fjöru í opinn dauða, annað tveggja áttavilltir eða lífsleiðir?

 

 


mbl.is Gæti setið uppi með Svarta Pétur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logi gagnrýnir heimsókn Pence, ekki Merkel

Tveir útlendir valdamenn heimsækja Ísland á næstunni, Pence varaforseti Bandaríkjanna og Merkel kanslari Þýskalands og æðstráðandi í Evrópusambandinu.

Logi Einarsson formaður Samfylkingar gagnrýnir heimsókn varaforseta Bandaríkjanna en lætur gott heita með hingaðkomu Merkel.

Hvað Ísland varðar er munurinn á Bandaríkjunum og Þýskalandi/ESB sá að Bandaríkin komu Íslandi til varnar þegar Evrópa logaði í ófriði. Samlandi Merkel, náungi að nafni Adolf Hitler, lagði undir sig bræðraþjóðir okkar, Danmörku og Noreg, með skelfilegum afleiðingum. Við nutum verndar Breta og síðar Bandaríkjamanna.

Þessi ár og misseri sækist Evrópusambandið eftir fullveldi okkar og náttúruauðlindum en Bandaríkin biðja um aðstöðu til hervarna, líkt og þau höfðu 1941 til 2006.

Smáþjóð eins og Ísland þarf að velja erlenda vini sína af vandvirkni. Bandaríkin eru betri kostur en Evrópusambandið - ef við þyrftum að velja á milli.


mbl.is Pence til Íslands 3. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslags-Gréta og hatrið á nútímanum

Gréta Thunberg trúir á manngert veðurfar og siglir til Ameríku, líkt og tíðkaðist fyrir daga flugvéla. Trúaðir fá flugviskubit þegar samgöngutæki nútímans eru nýtt.

Hreintrúarstefna Grétu og trúarsystkina hennar hefur sama aðdráttarafl og meinlæti spámanna fyrri tíðar sem héldu í eyðimörkina, settust að í helli og lokuðu sig frá umheiminum. Sjálfspíning vekur aðdáun, kveikir löngun ístöðulítilla að fylgja fordæminu og öðlast hlutdeild í æðri tilveru.

Loftslags-Gréta og söfnuðurinn í kringum hana þrífast á valdsækinni andstyggð sem íklædd er barnslegu brosi með boðskapinn að bjarga þurfi fólki frá sjálfu sér. Valdsækin andstyggð er til muna kröftugri tilfinning en ást og friður.

Söguleg dæmi af trú og stjórnmálum sýna að valdsækin andstyggð tortímir sjálfri sér með öfgum. Eftir sitja þeir ístöðulitlu með skemmda tilveru og sorg í hjarta.

   


mbl.is Thunberg lögð af stað yfir hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúpfalsanir, týnd sannfæring og horfið sakleysi

Við óttumst stöðugt að verið sé að ljúga að okkur. Offramboð er af upplýsingum sem erfitt er að henda reiður á, hvað þá að fá staðfestar. Eins og það sé ekki nógu slæmt er sannfæring er stóð á gömlum merg horfin út í buskann.

Fyrir skemmstu var lífið einfaldara. Hægrimenn fengu sinn skammt af upplýsingum í blaði allra landsmanna er studdi þeirra sannfæringu. Vinstrimenn völdu á milli Þjóðviljans og Alþýðublaðsins, a.m.k. áður en það rúmaðist í eldspýtustokki. Bændur og búalið áttu athvarf í Tímanum.

Nú er Snorrabúð stekkur. Fréttir berast okkur eins og linnulaus skothríð sem skeikul sannfæring ræður ekki við.

Djúpfölsun rekur smiðshöggið á djúpveruleika týndrar sannfæringar og horfins sakleysis.


mbl.is Djúpfalsað myndskeið flýgur víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband