Fjölmiðlar: skoðanir í stað frétta

Breska útgáfan Telegraph endurhannaði vefsíðuna fyrir nokkrum dögum. Stór hluti af efsta hluta forsíðunnar er núna með rými fyrir skoðanir, þar sem áður voru fréttir. Í Bandaríkjunum ræðir ritstjórn New York Times hvernig megi koma þeirri skoðun að í fréttum að Trump forseti sé rasisti.

Nær allar fréttir fjölmiðla hér heima um orkupakkann eru skoðanir. Fjölmiðlar nenna ekki, með heiðarlegum undantekningum, að sækja efni um orkupakkann á erlendar síður, t.d. heimasíðu ESB, en láta sér nægja að birta skoðanir.

Hér áður var almenna reglan blaðamennsku að fréttir væru staðreyndir sem raðað væri upp í skipulega frásögn. Aðalatriði frétta áttu að koma fram í fyrirsögn og innangi og megintexti skyldi skrifaður eftir fallandi mikilvægi. Skoðanir fyrr á tíð komu fram í leiðurum og umræðugreinum sem var ekki blandað saman við fréttaefni, t.d. á síðum dagblaða. 

Skoðanablaðamennska á hinn bóginn reynir að hanna fréttafrásagnir eftir fyrirframgefinni forskrift þar sem fjölmiðillinn tekur afstöðu til viðfangsefnisins. Þurrar staðreyndir eru aðeins hráefni í raðframleiðslu á skoðanafréttum.

Að hluta til er skoðanablaðamennska vegna samkeppni fjölmiðla við samfélagsmiðla um athygli og auglýsingatekjur. Annar hluti stafar af undirliggjandi menningarlegum og pólitískum hamskiptum þar sem gömul kennileiti, stofnanir, flokkar og stefnumál, víkja fyrir nýjum. Þriðji þátturinn er almenn hnignun blaðamennskunnar, sem einu sinni þótti ekki skítafag.


Orkupakkinn, millileikur til að finna sátt

Orkupakkinn er stærsta deilumál stjórnmálanna frá Icesave og ESB-umsókn. Ábyrgðarhluti er að bera málið atkvæðum á alþingi án þess að leita sátta.

Orkupakkinn, þessi nr. 3, var samþykktur á vettvangi Evrópusambandsins árið 2009, fyrir tíu árum. Af því leiðir er tími til að ígrunda málið betur í heild sinni. Ekkert liggur á.

Stjórnvöld gerðu vel í því að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem fulltrúar EFTA-ríkjanna (Ísland meðtalið) og Evrópusambandsins ræða lausn á málum er varða EES-samninginn.

Þessi millileikur útilokar hvorki að orkupakkinn verði samþykktur né að honum verði hafnað. En millileikurinn skapar frið til að vinna úr þeim álitamálum sem tengjast innleiðingu orkupakkans.

Ríkisstjórnin ætti ekki að snúa baki við tilboði um frið. Eitt meginhlutverk stjórnvalda er að stuðla að innanlandsfriði.


Trump, Rússar og herskáir frjálslyndir vinstrimenn

Vilji Trump var að friðsamleg samskipti yrðu á milli Bandaríkjanna og Rússlands. Vinstrimenn og frjálslyndir, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, mögnuðu upp Rússagrýlu um aldamótin til að knésetja Rússa og beygja undir vestrænt forræði.

Vestræn forræðishugsun tröllreið höfuðborgum Evrópu og Bandaríkjanna. Innrás í fullvalda ríki á fölskum forsendum var dagskipunin: Afganistan og Írak og ríkisstjórnaskipti í Líbýu, Sýrlandi og Úkraínu. 

Allt fór þetta brölt illa og afhjúpaði heimsvaldaglópsku frjálslyndra og vinstrimanna beggja vegna Atlantsála. 

Trump bauð vitleysunni birginn og vildi friðmælast við Rússa og hætta hernaðaríhlutun í fjarlægum heimshornum. Frjálslyndir og vinstrimenn tóku sig saman, í samvinnu við fjölmiðla, og gerðu Trump að leikbrúðu Pútín Rússlandsforseta. Klifað var á því að Trump hefði orðið forseti með hjálp Kremlarbónda. Allt reyndist það þvættingur, samanber niðurstöðu Muller-rannsóknarinnar.

Kemst á sæmilegur friður milli kjarnorkuveldanna Bandaríkjanna og Rússlands? Trauðla á meðan ítök herskárra frjálslyndra og vinstrimanna eru enn jafn mikil og raun ber vitni.


mbl.is Styður endurkomu Rússa í G8
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband