Framsókn sýnir XD gula spjalið

Tveir liðsoddar Framsóknarflokksins, Jón Björn Hákonarson ritari flokksins, og Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður skrifa hvor sína greinina í Morgunblaðið og Fréttablaðið þar sem andstöðu er lýst við ætlun forystu Sjálfstæðisflokksins að samþykkja orkupakkann á alþingi í lok mánaðar.

Jón Björn skrifar í Morgunblaðið:

Innleiðing orkupakka þrjú er fyrsta mál á dagskrá þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir sumarfrí nú í lok ágúst. Að mínu mati er brýnt til að umræðan rati ekki í sama farið aftur, með tilheyrandi sundrungu, að þingheimur sammælist um það að málið, eins og það er nú sett fram með þeim fyrirvörum að hingað sé ekki hægt að leggja sæstreng án samþykkis Alþingis og þeir hlutar orkupakkans sem snúa að flutningi yfir landamæri taki ekki gildi, verði sent til sameiginlegu EES-nefndarinnar til umsagnar og staðfestingar á því hvort áðurnefndir fyrirvarar haldi þannig að slíkt sé hafið yfir allan vafa. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir þá verði orkupakkinn fyrst innleiddur þegar óvissunni hefur verið eytt og rökin í málinu orðin skýr.

Jón Sigurðsson er með sömu skilaboð í Fréttablaðinu fyrir tveim dögum:

Til þess að bæta úr má hugsa sér að Alþingi samþykki þingsályktunartillöguna með viðbótartillögu þess efnis að ríkisstjórn Íslands leggi það tafarlaust fyrir sameiginlegu EES-nefndina að Ísland hyggist ekki fyrir sitt leyti taka upp allar reglur raforkukerfis Evrópusambandsins af augljósum náttúrulegum ástæðum (fjarlægðum, legu lands, mannfjölda hér, náttúruvernd, orkumálastefnu okkar og raforkukerfi, sjávardýpi o.fl.) og hyggist af sömu ástæðum ekki tengjast raforkukerfum annarra landa. Tiltekið verði að 3. orkupakkinn taki ekki gildi fyrir Ísland fyrr en sameiginlega nefndin hefur staðfest afstöðu Íslendinga með formlegum hætti.

Báðir Jónarnir eru handgengnir forystu Framsóknar, sem finnur fyrir þungri undiröldu almennra flokksmanna sem vilja ekki fórna fullveldinu í raforkumálum.

Æ betur kemur í ljós hve forysta Sjálfstæðisflokksins er einangruð í orkupakkanum. Ráðherrar og þingmenn flokksins vinna skipulega gegn þjóðarhagsmunum, grafa undan ríkisstjórninni og reyta fylgið af eigin flokki. Er forysta XD eins og hvalirnir sem synda upp í fjöru í opinn dauða, annað tveggja áttavilltir eða lífsleiðir?

 

 


mbl.is Gæti setið uppi með Svarta Pétur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Amen.

Já, ættarviti er ekki góður kompás.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 15.8.2019 kl. 20:32

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er megin munur á tillögum þeirra félaga Hákonarsonar og Sigurðssonar.

Meðan Hákonarson vill fá úr því skorið, áður en Alþingi afgreiðir tillöguna, hvort fyrirvarar haldi vill Sigurðsson að Alþingi samþykki tillöguna fyrst og bæti síðan við enn frekari fyrirvörum.

Ómöguleiki hugmyndar Sigurðssonar er augljós.

Gunnar Heiðarsson, 15.8.2019 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband