Orkupakkinn breytir íslenskum stjórnmálum

Deilan um orkupakkann snýst um framtíðarsýn fyrir Ísland. Stuðningsmenn pakkans telja yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins, í gegnum EES-samninginn, æskilegt fyrir Íslendinga. Andstæðingar eru þeirrar sannfæringar að allar meginákvarðanir um íslensk málefni skuli teknar í Reykjavík en ekki Brussel.

Forysta Sjálfstæðisflokksins og þingflokkur talar eins og útþynnt útgáfa af Samfylkingunni sem barðist eftir hrun, og gerir enn, undir slagorðinu ,,ónýta Ísland". Þórdís iðnaðar sagði hreint út í útvarpsviðtali í vor að Íslendingar kunni ekki að setja reglur um raforku, ESB viti best. Fólk sem þannig talar gerir þjóðinni skömm til.

Frá heimastjórn, fullveldi og lýðveldisstofnun á síðustu öld bjuggu kynslóðir Íslendinga til samfélag sem þótti öfundsvert víða um heim. Skipulega er grafið undan þessu samfélagi með því að flytja forræði íslenskra mála til Brussel og gera okkur að hjálendu ESB líkt og við vorum ósjálfbjarga undir forræði Dana um aldir.

Afleiðingarnar af orkupakkadeilunni verða alvarlegir og djúptækari en af ESB-umsókn Samfylkingar. Nú bregðast þeir sem síst skyldi.


mbl.is Alþingi samþykki ákvæði um auðlindir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breskt lýðræði, fordæmi fyrir Miðflokkinn, þjóðin hlustar

Bretland er vagga nútímalýðræðis. Þingbundin ríkisstjórn er framlag Breta til vestræns lýðræðis. Boris Johnson forsætisráðherra frestar þinginu og flæðir það síðan með lagafrumvörpum. Gagngert til að koma í veg fyrir að valdaklíkur á breska þinginu komi í veg fyrir lýðræðislegur þjóðarvilji nái fram að ganga, Brexit.

Borisarlexían fyrir Miðflokkinn er eftirfarandi. Það á að virkja allar leyfilegar heimildir þingbundins lýðræðis til að þjóðarvilji nái fram að ganga. Þingbundið lýðræði á Íslandi felur í sér að það má tala um mál til eilífðarnóns.

Miðflokkurinn berst fyrir þjóðarvilja í orkupakkamálinu. Meirihluti alþingis hagar sér eins og lokaður valdaklúbbur útvalinna og ætlar sér að samþykkja orkupakkann hvað sem tautar og raular.

Andsvar Miðflokksins er að beita þinglegum rétti að tala til eilífðarnóns, ef þurfa þykir. Krafan ætti að vera eftirfarandi: annað hvort verður orkupakkanum frestað eða boðað til þingkosninga.

Á meðan talar Miðflokkurinn. Þjóðin hlustar.


mbl.is Fer fram á frestun þings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raforkan fyrst og nú fiskurinn: EES drepur sjálfsbjörg Íslands

EES-samningurinn drepur hægt en örugglega íslenska þjóðarbúið í dróma. Formaður sjávarútvegsnefndar ESB-þingsins hótar uppnámi EES-samningsins ef Íslendingar hætta ekki að veiða makríl sem er á beit í landhelgi okkar.

Viðbrögðin eru fyrirsjáanleg. Taugaveiklaðir embættismenn í stjórnarráðinu, sem óttast að missa ESB-spón úr aski, og þingmannshérar, einkum í Sjálfstæðisflokknum ef að líkum lætur, leggjast á eitt að friðmælast við Brusselvaldið; leyfa makrílnum að éta sig feitan í íslenskri landhelgi og verða ESB-ríkjum búhnykkur. Landinn situr eftir með tvær hendur tómar og sultardropa.

Skilaboðin eru að Íslendingar eigi að þiggja skít úr hnefa Evrópusambandsins og beygja sig undir útlenda valdboðið. Fimmta herdeild embættismanna djúpríkisins og málaliða við Austurvöll sjá um að innprenta þjóðinni þrælsótta við hverja stunu og hósta í Brussel.

Íslendingar verða að grípa til varna áður en það er um seinan. Tækifærið er núna að setja ágengu Evrópusambandi stólinn fyrir dyrnar. Látum sverfa til stáls á alþingi. Miðflokkurinn er í þeirri stöðu að krefjast frestunar á orkupakkanum en þingkosninga að öðrum kosti. Hvor tveggja yrði afgerandi skilaboð til Brussel og fimmtu herdeildarinnar: hingað og ekki lengra.

Þjóðin þarf að taka til máls í kosningum þar sem EES-samningurinn er undir. Á meðan ætti ekki að samþykkja nein nýmæli ættuð úr Tinna-landi.   

Ef krafa Miðflokksins fengi ekki framgang er réttast að tala til jóla. Þjóðin hlustar.


mbl.is Tengir makríldeiluna við EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband