Gálginn reistur en aftöku frestað

Með innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslenskan rétt er gálginn reistur sem tekur af lífi fullveldi þjóðarinnar í raforkumálum. Gulli utanríkis lofar okkur að aftökunni verði frestað og telur stórmannlega boðið.

Það er ekki heil brú í þeirri ráðstöfun að innleiða orkupakkann í einu orðinu en segja í hinu að efni pakkans eigi ekki við hér á landi.  

Um leið og íslensk stjórnvöld falla frá fyrirvörum gagnvart orkustefnu ESB, 3. orkupakkanum, skapast nýjar aðstæður þar sem fullveldisréttur Íslands stendur veikari fótum en áður.

Eina skynsama og yfirvegaða afstaðan er að hafna 3. orkupakkanum. Þeir sem vilja reisa gálga til höfuðs fullveldi þjóðarinnar og máta snöruna í þokkabót ættu að finna sér eitthvað annað að gera en að sitja í landsstjórninni.


mbl.is Innleidd að fullu en gildistöku frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit-ástand á Íslandi; fullveldið framselt síðan betlað tilbaka

Bretar berjast við Evrópusambandið um að fá fullveldi sitt tilbaka. Þriðji orkupakkinn gefur ESB fullveldi Íslands í raforkumálum, sem við eigum síðan að betla tilbaka. Það sem meira er; stjórnarmeirihlutinn viðurkennir að hann stundi þessa aðferðafræði.

Í greinargerð með 3.orkupakkanum segir:

 Lagt er til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu. 
    Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Þá verði jafnframt tekið enn frekar og sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.

Í fyrri efnisgreininni segir að ríkisstjórnin biðji alþingi að samþykkja 3. orkupakkann, þótt hann hafi enga þýðingu fyrir Ísland. Í seinni efnisgreininni segir að ef og þegar sæstrengur kemst á dagskrá verði kannað hvort 3. orkupakkinn ,,samræmist íslenskri stjórnarskrá."

Alþingi á sem sagt að samþykkja orkupakka sem ekki skiptir máli en gæti engu að síður brotið gegn stjórnarskránni. Það á bara að athuga það síðar.

Síðar meir er orðið of seint að bæta skaðann, segir Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður: 

Vissu­lega erum við þá hugs­an­lega að gefa frá okk­ur þann mögu­leika að óska eft­ir und­anþágum á vett­vangi sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar. Ég held að það liggi í sjálfu sér í hlut­ar­ins eðli að ef vilji stæði til þess á síðari tíma­punkti þá eru þeir mögu­leik­ar af­skap­lega tak­markaðir þegar búið er að aflétta stjórn­skipu­lega fyr­ir­var­an­um og staðfesta þessa ákvörðun.

Er ekki heppilegra að hafna 3. orkupakkanum og gefa okkur tíma til að sjá hverju fram vindur? Við getum kallað þetta frestun á afgreiðslu, líkt og ESB-umsókn Samfylkingar var sett ofan í skúffu áramótin 2012/2013.

Enginn með óbrjálaða dómgreind leiðir Íslendinga inn í Brexit-ástand.  


mbl.is Felur í sér lagalega óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töpuð umræða, tapaður málstaður en samt haldið áfram

Þriðji orkupakkinn fær aðeins stuðning frá yfirlýstum ESB-sinnum annars vegar og hins vegar frá djúpríkinu og innvígðu valdafólki í stjórnarflokkunum. Allir aðrir sem taka afstöðu eru á móti innleiðingu orkustefnu ESB.

Bakland Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er í opinberri uppreisn gegn forystu flokkanna og þekktir félagar í Vinstri-grænum eru á móti.

Samt þjösnast ríkisstjórnin áfram með þriðja orkupakkann á alþingi.

Vegferð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er stórskrítin. Pólitískur stórskaði er fyrirsjáanlegur og almannahagur er fyrir borð borinn.

Allur ávinningur stjórnarmeirihlutans er í útlöndum og fáeinna auðmanna sem hugsa sér að fénýta almannagæði. Hvað er eiginlega á seyði í stjórnarráðinu?

 


mbl.is Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorsteinn, íslenskir neytendur og evrópskir

ESB-sinninn Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar segir í viðtengdri frétt: ,,þriðji orkupakk­inn snú­ist um neyt­enda­vernd fyr­ir al­menn­ing í orku­mál­um."

Íslenskir neytendur búa við orkuöryggi og lágt orkuverð. Evrópskir neytendur borga hátt verð fyrir raforku og eru víða í þeirri stöðu að búa við ótrygga afhendingu.

Þriðji orkupakkinn hækkar raforkuverð til íslenskra heimila en bætir hag þeirra evrópsku.

Þorsteinn og orkupakkasinnar tala máli evrópskra neytenda en ekki íslenskra.


mbl.is „Algjörlega óþolandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gul vesti, sósíalismi og pólitísk vörumerki

Pólitísk vörumerki eins og gulu vestin, sósíalismi og fjölmenning eru alþjóðleg. Ólíkt tískumerkjum eins og Gucci eða framleiðslumerkjum á borð við Toyota eru pólitísku vörumerkin ekki höfundavarin.

Verkó á Íslandi notar gulu vestin í bland við sósíalisma til að vekja á sér athygli og áströlsk samtök gegn innflytjendum skreyta sig með viðvörunarvestunum.

Umbúðirnar trompa innihaldið.


mbl.is Öfgaflokkurinn Gulvestungar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleira fjarverandi en Sigmundur, t.d. skynsemi

Gulli utanríkis gerir flest annað en kjarna málsins að umræðuefni þegar þriðji orkupakkinn er á dagskrá. Hann talar um fjarveru Sigmundar Davíðs, skoðanir í Noregi og fleiri smáatriði.

Kjarni málsins er að alger óþarfi er fyrir Íslendinga að samþykkja 3. orkupakkann. Við eigum að fá undanþágu frá orkustefnu ESB í heild sinni enda skýr fordæmi fyrir slíku.

Í svari þáverandi utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen, segir í niðurlagi um undanþágur Íslands frá EES-samningnum:

 Ísland hefur þannig samið um ýmsar aðlaganir og undanþágur, hvort sem er að hluta eða í heild. [...] Þá má bæta við að Ísland þarf hvorki að innleiða gerðir á sviði lestarsamgangna né um skipgengar vatnaleiðir.

Það liggur fyrir að Ísland fái undanþágur ,,í heild" frá tilskipunum sem eiga ekki við um landið okkar, s.s. vegna járnbrauta og skipaskurða.

Enginn rafstrengur er á milli Íslands og Evrópu. Af því leiðir ættum við ekki að innleiða lög og reglur ESB um yfirstjórn raforkumála í íslenskan rétt.


mbl.is Tókust á um fjarveru Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðji orkupakkinn er án fyrirvara

Með innleiðingu þriðja orkupakka ESB í íslenska löggjöf er Ísland orðið hluti af sameiginlegum raforkumarkaði Evrópusambandsins. Aðeins á eftir að leggja sæstrenginn til Evrópu svo verkið sé fullkomnað.

Orkustefna ESB gengur út á að taka raforkumál frá aðildarríkjum og færa yfirstjórn þeirra til Evrópusambandsins.

Hvað Ísland varðar er hér um að ræða rakið fullveldismál. Í dag stjórnum við raforkumálum okkar ein og alfarið. Með innleiðingu þriðja orkupakkans er völd, sem áður voru á Íslandi, flutt til Brussel.

ESB-sinnar kætast yfir nýjum bandamönnum sem þeir hafa fengið í þingflokkum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar. Kjósendur þessara flokka, sem telja fullveldið einhvers virði, munu snúa sér til annarra stjórnmálaafla.


mbl.is Fyrirvarinn ekki í yfirlýsingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aleigan Skúla drjúg, æskufjörið líka

Skúli Mogensen tapaði aleigunni í gjaldþroti WOW, segði hann fyrir rúmri viku. Aleiga er teygjanlegt og loðið hugtak, eins og rekstaráætlanir WOW, og nú er Skúli kominn á fulla ferð að endurreisa fallna félagið.

Skúli á hauk í horni í skiptastjóra þrotabúsins, Sveini Andra. Tvímenningarnir eiga svipuð áhugamál sem hverfast um útlit og ungar konur.

Æskufjör miðaldra manna kemur vanalega niður á dómgreindinni. 


mbl.is WOW í hópfjármögnun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög gegn öfgum og hatri - bjánaskapur

Bretar hætta við lagabálk um bann við orðræðu öfga og haturs. Eftir ítarlega athugun komust Bretar að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð lög myndu gera ólöglega pólitíska orðræðu og trúariðkun.

Víðtækt bann á frjálsa orðræðu gengur kannski í Rússlandi en við ættum ekki að fylgja því fordæmi, segir Anderson lávarður sem fór yfir frumvarpið.

Frumvarpið stóðst ekki Clarkson-prófið, segir í umfjöllun Telegraph. Vinsæll sjónvarpsmaður, Jeremy Clarkson, kallaði þáverandi forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, ,,eineygðan skoskan bjána."

Brown er bæði skoskur og eineygður. Íslendingar kunna honum litlar þakkir fyrir að beita hryðjuverkalögum á íslenskar fjármálastofnanir í hruninu. En hvorki koma þar við sögu öfgar eða hatur, - en kannski bjánaskapur.


Þorsteinn: Ísland verði orkunýlenda ESB - jákvætt mál

Á eftir 3. orkupakkanum kemur sæstrengur til Evrópu, segir Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar, og það telur hann jákvætt:

Þorsteinn segir að sameiginlegur raforkumarkaður Evrópusambandsins hafi stuðlað að stórbættri orkunýtingu innan sambandsins...

Þorsteinn er ESB-sinni, telur að forræði í íslenskum málum sé betur komið í Brussel en Reykjavík. Afstaða þingmannsins er rökrétt út frá þeirri lífsskoðun sem hann fylgir.

En þjóðin vill ekki inn í Evrópusambandið og kaus sér þingmeirihluta í þeirri trú að ESB yrði ekki gert að æðsta yfirvaldi í íslenskum málum.

Illu heilli ætla Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri grænir að ganga fyrir björg og taka upp ESB-stefnu Viðreisnar og Samfylkingar.

Ef þriðji orkupakkinn verður samþykktur á alþingi yrðu það svik sem gleymast ekki.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband