Ný breiðfylking í íslenskum stjórnmálum

Til skamms tíma gátu ESB-sinnar treyst því að ASÍ spilaði með og styddi með ráðum og dáð að Ísland yrði ESB-ríki. Ekki lengur. ASÍ leggst gegn orkupakkanum:

Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu launafólks.

Umræðan um orkupakkann riðlar íslenskum stjórnmálum. Breiðfylking frá hægri til vinstri er andsnúin innleiðingu ESB-réttar inn í íslensk raforkumál. Jón Baldvin úr Alþýðuflokki/Samfylkingu, Styrmir úr Sjálfstæðisflokki, Hjörleifur úr Vinstri grænum, Frosti úr Framsókn, Inga úr Flokki fólksins og Miðflokkurinn eins og hann leggur sig.

Á móti breiðfylkingunni standa þingflokkar stjórnarinnar ásamt Samfylkingu og Viðreisn.

Breiðfylkingin nýtur víðtæks stuðnings í þjóðfélaginu. Orkupakkinn snýst um yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum. Þeir sem ekki skilja hve djúpt það ristir að óttast óafturkræft framsal á forræði yfir lífsnauðsynlegum auðlindum, - tja, þeir skilja ekki pólitík.

 


mbl.is Vill að Katrín „aðstoði“ Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmaður í pólitík, þingmenn í lögfræði

Evrópusambandið skrifar pólitík í lagatexta. Framkvæmdastjórn ESB notar jöfnum höndum hugtökin stefnumál (policies) og lög (law). Hér á Íslandi leggjast menn undir fávísisfeld þar sem lögfræðingur á þingnefndarfundi talar eins Evrópupólitíkus og þingmenn týna sér í lagatækni.

Í báðum tilfellum birtist einbeittur vilji til að skilja ekki kjarna málsins í orkupakkanum.

Skúli Magnússon, dómari og kennari í lögum, kemur fyrir þingnefnd og segir setningar eins og

Með því að hafna því að aflétta stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara væru Íslend­ing­ar í raun að segja að þeir vildu velja „bestu mol­ana“ úr sam­starf­inu og það væri Evr­ópu­sam­band­inu ekki að skapi.

Skúli ræðir hér pólitík en ekki lögfræði. Á hinum endanum eru fávísir þingmenn sem keppast við að sökkva sér ofan í lagatexta en skilja ekki pólitíkina.  

Orkupakkinn er hluti af pólitískri stefnu ESB um að mynda orkusamband með miðstýrðu ákvörðunarvaldi. Þetta liggur fyrir þótt íslenskir þingmenn keppist við að skilja það ekki

Miðstýrt erlent vald yfir orkumálum Íslendinga felur í sér að alþingi getur ekki lengur sett lög um raforkumál í þágu þjóðarhagsmuna - lagavaldið er komið út fyrir landsteinana.

Ísland er í dauðafæri að afþakka aðild að orkusambandi ESB. Við erum ekki tengd raforkukerfi ESB. En ef við samþykkjum 3. orkupakkann jafngildir það lagalegri og pólitískri yfirlýsingu um að við ætlum okkur að verða hluti af orkusambandi ESB. Eftir það verður ekki aftur snúið.


mbl.is „Neikvæðar afleiðingar“ markmið ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband