Sjálfstæðisstefnan í Miðflokknum

Þriðji orkupakkinn er fullveldismál. Ef við innleiðum hann flyst forræði íslenskra auðlinda yfir til Evrópusambandsins, sem mótar og hefur eftirlit með framkvæmd orkustefnu fyrir öll ESB-ríki.

Miðflokkurinn fylgir afdráttarlausri sjálfstæðisstefnu og hafnar þriðja orkupakkanum.

Flokkurinn sem kennir sig við sjálfsstæðisstefnuna fylgir á hinn bóginn ESB-flokkum að málum og hyggst samþykkja orkupakkann með stuðningi Viðreisnar og Samfylkingar.

Flokkur sem brýtur gegn grunnstefnu sinni er kominn í ógöngur. Svo vægt sé til orða tekið.


mbl.is Hafnar þriðja orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logi, ríkisvaldið og WOW

Logi Einarsson formaður Samfylkingar segir að ríkið hafi brugðist rangt við gjaldþroti WOW. Ýmsir vinstri höggva í sama knérunn; ríkið átti að redda málunum.

Ríkið stóð frammi fyrir tveim kostum þegar spurðist af rekstarvandræðum WOW fyrir sex mánuðum. Í fyrsta lagi að grípa í taumana og dæla peningum, beint eða óbeint, í ósjálfbæran rekstur. Í öðru lagi að leyfa hlutum að þróast eftir aðstæðum á markaði. Góðu heilli tók ríkið seinni kostinn.

Ríkisvaldið á ekkert erindi i grjótharðan alþjóðlegan samkeppnisrekstur í flugi. Botnlaus vanþekking Loga og vinstrimanna á atvinnulífinu leiðir þá til þeirrar niðurstöðu að ríkið eigi að eigi að halda gangandi taprekstri einkaaðila.

Logi og félagar halda að ríkisvaldið tryggi lífskjör. En þannig gera kaupin ekki á eyrinni. Nema kannski í Sovétríkjunum sálugu eða Venesúela samtímans. En það eru ekki lífskjör mönnum bjóðandi.  


mbl.is Of mikill mótvindur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn: fjölbreytni - en ekki í lífskjörum

Dæmigerður vinstrimaður er hlynntur fjölbreytni í mannlífinu. Fjölmenning er vinstra hugtak. Jaðarhópar eiga vísan stuðning vinstriflokka, einkum ef þeir kenna sig við kyn, kynhneigð. litarhátt og trú. Hægrimenn eru meira fyrir einsleitni enda íhaldssamir.

En það er á einu sviði sem vinstrimenn vilja alls ekki fjölbreytni. Mismunandi efnahagsleg lífskjör er eitur í þeirra beinum.

Hægrimenn líta á ólík lífskjör sem afleiðingu af vali fólks og upplagi. Sumir eru duglegir en aðrir latir; einhverjir helga sig auðssöfnun á meðan aðrir hafna efnishyggju; svo eru menn misheppnir lífinu. Allt veldur þetta fjölbreytni í lífskjörum.

Vinstrimenn, á hinn bóginn, krefjast þess upp til hópa að efnisleg lífskjör séu jöfnuð, ef ekki með góðu þá illu. ,,Lág laun eru ofbeldi," segja vinstrimenn. Ólík laun eru ,,þjóðarskömm." 

Hér er mótsögn á ferðinni. Ef við erum ólík og keppumst við að halda fram hve fjölbreytni er æskileg þá hljóta lífskjörin að verða ólík. Sumir sækjast eftir efnislegum lífskjörum en láta sér þau í léttu rúmi liggja. Einhverjir eru duglegir, heppnir og greindir á meðan aðrir eru latir, óheppnir og heimskir. Óhjákvæmileg afleiðing er ólík lífskjör.

Vinstrimenn neita að horfast í augu við mótsögnina. Þess vegna er vinstripólitík svona vitlaus.

 


Skúli bjargaði okkur frá sósíalisma

Með því að stýra WOW í gjaldþrot bjargaði Skúli Mogensen okkur frá Eflingarsósíalisma og VR-óreiðu.

Eftir að kaldur kapítalískur veruleiki blasti við Sólveigu Önnu og Ragnari Þór, atvinnuleysi í kjölfar gjaldþrots stórfyrirtækis, eru þau meira og minna kjaftstopp.

Verkföll blásin af og sáttatónn í verkó. 

Einhver ætti að færa Skúla blómvönd.


mbl.is 80 milljóna kr. framlag vegna falls WOW
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi lækkar kaup

Bein áhrif af gjaldþroti WOW er að um 2000 manns missa vinnuna. Afleidd áhrif, fækkun ferðamanna, munu enn frekar fækka störfum. 

Þau fyrirtæki sem ekki segja upp fólki munu hagræða. Í því felst að ráða ekki í störf sem losna og hætta yfirborgunum.

Kjaraviðræður í skugga atvinnuleysis og samdráttar snúast sjálfkrafa um að verja það sem fengið er - hækkun launataxta myndi aðeins auka atvinnuleysið.


mbl.is Fall WOW air hríslast um hagkerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífskjör eftir WOW

WOW gerði ferðalög Íslendinga til annarra landa ódýrari. Þá stuðlaði flugfélagið að hagvexti hér á landi með hópflutningum ferðamanna. Um þúsund starfsmenn fengu laun frá WOW og afleidd störf voru enn fleiri.

WOW stóð undir hluta lífskjara okkar. En starfsemi félagsins var ekki sjálfbær, það safnaði skuldum. Niðurgreidd ferðalög til og frá landinu voru í reynd fölsk lífskjör.

Lán í óláni er að WOW hætti starfsemi þegar staða þjóðarbúsins er nokkuð góð, lítið atvinnuleysi, lág verðbólga og hagvöxtur verið traustur.

Lífskjörin munu eitthvað láta á sjá við gjaldþrot WOW. En við höfum sé það svartara, mun svartara.


mbl.is Eignir félagsins hverfi ekki af markaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk, Skúli og WOW

WOW og Skúli Mogensen lyftu sálartetri þjóðarinnar eftir hrun. Og mokuðu inn ferðmönnum til að njóta Íslands og smyrja atvinnulífið sem hökti og skrölti fyrstu árin eftir hrunið.

Skúli og WOW hlupu spretthlaupið of lengi. Hraður vöxtur var ekki sjálfbær til lengdar, sem hægari vöxtur ferðamanna og hækkandi eldsneytisverð afhjúpaði.

Menn eins og Skúli og fyrirtæki eins og WOW gera sig við sérstakar kringumstæður. Í hversdagsleikanum þarf aftur stöðugleika og stíganda en ekki flugeldasýningar.

Takk til Skúla og WOW. 


mbl.is WOW hætt starfsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkó lærir hófstillingu

Sólveig Anna temprar auðvaldsorðræðuna og Ragnar Þór pakkar niður gula vestinu. Síðustu tvo daga hefur veruleikinn seytlað inn í vitund verkó.

Umbjóðendur forystunnar spá ekki í kauphækkun heldur hvort þeir haldi vinnunni. Yfirvofandi skellur vegna færri ferðamanna, loðnubrests og óvissu um afdrif WOW veit á samdrátt í efnahagskerfinu.

Laun eru afleiðing af atvinnustarfsemi. Verkó er að átta sig á grunnatriðum efnahagsmála vonum seinna.


mbl.is Nýr tónn á sáttafundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofsi, afsökun og réttlæti í Samherjamálinu

Samherjamálið svokallaða er af ástæðum sem ekki liggja í augum uppi persónulegt. Vanstillt orð sonar Þorsteins Más forstjóra Samherja í garð Más seðlabankastjóra eru birtingarmynd heitra tilfinninga í máli sem er fyrst og fremst deilumál stofnunar og stórfyrirtækis.

,,Hætt er við því að viðbrögð stjórnvalda verði ofsafengin þegar stóráföll dynja yfir sem eiga sér enga hliðstæðu," segir í inngangi ritgerðar Björns Jóns Bragasonar sem gerði úr skólaritgerð varnarskjal fyrir Samherja. Björn Jón sérhæfir sig í að rétta hlut stórmenna, skrifaði bók í þágu Björgólfs Guðmundssonar. 

En, sem sagt, hér varð svokallað hrun og menn hrukku af hjörunum. Margt fór úrskeiðis í aðdraganda hrunsins, annars hefði það aldrei orðið, og eftir hrun voru viðbrögð stjórnvalda ,,ofsafengin" í mörgum tilfellum. Þjóðfélagið lék á reiðiskjálfi. Téiður Björn Jón skrifaði um það enn aðra bók með heitinu Bylting - og hvað svo? Skemmtilegur þríleikur hjá Birni Jóni, tveir auðmenn og eitt stykki bylting.

Samherjamálið snýst um að stjórnvöld, gjaldeyriseftirlit Seðlabanka og sérstakur saksóknari, töldu ástæðu til að rannsaka bókhald stórfyrirtækisins vegna gruns um misferli. Málið fór sína leið í kerfinu og Samherji fékk fullan sigur fyrir dómstólum. Hliðarþáttur er hlutur RÚV sem fékk undarlega greiðan aðgang að húsrannsóknum og stóð fyrir galdrabrennu í anda Gróu á Efstaleiti.

Samherjamenn vilja meira en réttlæti, þeir vilja hefna sín á persónu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Litla ómerkilega atvikið í framhaldi af þingnefndarfundi í morgun var sviðsetning á hefndarleiðangri Samherjamanna.

Þorsteinn Már forstjóri krefur Má Guðmundsson um afsökunarbeiðni en segir hana aldrei koma.

Þorsteinn Már var stjórnarformaður Íslandsbanka fyrir hrun. Hefur Þorsteinn Már beðið þjóðina afsökunar á sínum hlut í hruninu? Er það svo að stórmennin eigi aldrei að biðjast afsökunar, aðeins þeir lægra settu?

 


mbl.is „Kumpánlegur“ bankastjóri óviðeigandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

WOW: leiðtogi verður leppur

Skúli Mogensen er orðinn leppur nýrra eigenda WOW, segir í fréttaskýringu Morgunblaðsins. Skúli skiptir um söluræðu, segir Fréttablaðið.

Ljósmyndin, sem Fréttablaðið birtir, er af Skúla og öðrum toppum WOW þ.m.t. Lív Bergþórsdóttur sem er handgengin Björgólfi Björgólfssyni. Lív stefnir ekki í sömu átt og fólkið að baki Skúla.

Úr leiðtogafræðum 101: leiðtoginn verður að hafa skýra framtíðarsýn og alltaf að sýnast stjórna atburðarásinni.

Skúli stjórnar ekki lengur atburðarásinni og framtíðarsýnin verður æ óskýrari.


mbl.is Í viðræðum við aðra kröfuhafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband