Þórdís, skrifaðu póst til Brussel

ESB-sinnar og orkupakkafólkið vitnar í Úlfljótsgrein Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar til stuðnings 3. orkupakka ESB. Þar eru tvær lykilefnisgreinar. Sú fyrri er þessi:

Flutningur raforku hér á landi er í höndum Landsnets hf. og eru eigendur þess vinnsluaðilar raforku. Slíkt eignarhald væri að öllu jöfnu ekki í samræmi við ákvæði þriðju raforkutilskipunarinnar. Ekki er þó nauðsynlegt að gera breytingar þar á í tilefni af innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt þar sem Íslandi var veitt undanþága frá þessu skilyrði tilskipunarinnar í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017.

Það sem sagt liggur fyrir að Ísland getur fengið undanþágu frá tilskipun ESB um raforku. Seinni lykilefnisgreinin:

Mikilvægt er að hafa í huga, þegar rætt er um valdheimildir ACER, sem eru í höndum ESA gagnvart EFTA-ríkjunum, að þessar stofnanir geta einungis tekið bindandi ákvarðanir þegar eftirlitsaðilar í ríkjunum geta ekki náð samkomulagi sín á milli um atriði er varða grunnvirki yfir landamæri. Með öðrum orðum þá gilda þær einungis þegar álitamálið lýtur að tengingum milli landa með flutningslínu eða sæstreng. (undirstr. pv) Raforkukerfi Íslands er ekki tengt við önnur lönd. Af þeim sökum geta ekki komið upp þau tilvik að ESA beiti hinum bindandi valdheimildum gagnvart Orkustofnun.

Í viðtengdri frétt segir að engar hugmyndir eru uppi um að leggja sæstreng til að flytja raforku frá Íslandi til Evrópu.

Að þessu gefnu, undanþágur eru í boði frá raforkutilskipun ESB, og enginn sæstrengur er í bígerð þá er einboðið að Íslandi fái undanþágu frá öllum 3. orkupakkanum. Allur pakkinn skiptir engu máli fyrir Ísland á meðan enginn er sæstrengurinn. Til hvers að fórna sjálfstæðisstefnunni fyrir eitthvað sem engu máli skiptir?

Þórdís, málið er einfalt. Þú sendir Brussel línu um að Ísland segi sig frá raforkumálum í EES-samningnum. Í Brussel hljóta menn að fallast að þetta sjónarmið. Hvorki á Ísland hagsmuni á evrópskum raforkumarkaði né ESB í íslenskri raforku. Við skulum hafa það þannig um hríð.

Og Þórdís, bara okkar á milli, þá mun ég hvorki senda þér né Gulla reikning upp á 25 milljónir fyrir þessa ráðgjöf. Hún er ókeypis.


mbl.is Tengist ekki Atlantic SuperConnection
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB: heimsyfirráð eða dauði - raflost Íslands

Franskur ráðherra segir nauðsynlegt að Evrópusambandið verði heimsveldi. Kanslari Þýskalands tekur undir með forseta Frakklands að Evrópuher sé forgangsmál. Frakkar eru herskáir núna þegar fyrir liggur að Bretar ganga úr ESB og krefjast stóraukinnar miðstýringar í ofanálag við hermennskuna - annars verði engin evra.

Miðstýrð Stór-Evrópa grá fyrir járnum er til marks um klofning í Nató-bandalaginu við Bandaríkin. Leiðtogar ESB-ríkja gera ráð fyrir að Trump sitji tvö kjörtímabili í Hvíta húsinu og á þeim tíma verði slútt með kaldastríðsbandalagið.

Opin spurning er hvort Bretland, með annan stærsta her Evrópu, verði hluti af Evrópuhernum eða hvort ,,hin viljugu" ESB-ríki hervæðist upp á eigin spýtur. Ef Bretland verðu hluti Evrópuhersins er ESB úr sögunni. Ef Bretar taka ekki þátt munu þeir halla sér að Bandaríkjunum, verða útvörður bandaríska heimsveldisins gagnvart meginlandinu.

Ísland fór undir áhrifasvæði Bandaríkjanna í byrjun seinna stríðs þegar bandarískur her leysti af hólmi breska hernámsliðið. Herverndarsamningur var gerður við Bandaríkin í upphafi kalda stríðsins.

Nú sitja í stjórnarráði lýðveldisins embættismenn með pólitíkusa sem strengjabrúður og vinna að því hörðum höndum að gera Ísland að raforkuveri fyrir Evrópusambandið - með þriðja orkupakkanum.

Eru ráðamenn ólæsir á þróun alþjóðamála?


mbl.is Vill að ESB verði heimsveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðflokkurinn: valkostur 3 kjósendahópa

Miðflokkurinn er þriðji stærsti stjórnmálaflokkur landsins, skv. könnun. Sóknarfæri flokksins eru betri en allra annarra stjórnmálaflokka í viðkvæmri pólitískri stöðu þar sem fylgið fer auðveldlega á hreyfingu.

Miðflokkurinn sækir á mið Framsóknarflokksins, eins og gefur að skilja. Sigmundur Davíð sýndi það í kosningunum 2013 að hann er í kallfæri við kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Undir formennsku Sigmundar Davíðs varð Framsókn jafnstór Sjálfstæðisflokknum. Þriðji kjósendahópurinn eru þjóðhyggjuvinstrimenn, sem löngum áttu heimili í Vinstri grænum.

Miðflokkurinn er vaxandi stjórnmálafl.

 


mbl.is 38% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill Helga skilur ekki þjóðhyggju

Egill Helgason umræðustjóri RÚV skilur ekki þjóðhyggju. Egill vitnar í pistil um þjóðhyggju, auðvitað án þess að geta heimildarinnar, og segist ekkert botna í einu eða neinu.

Í staðinn segir margyfirlýstur ESB-maðurinn Egill að neysla sé stjórnmálahugmynd. Egill er af þeirri kynslóð sem kynntist fyrst Íslendinga alþjóðlegri neyslu; amerískt tyggjó, franskar sokkabuxur og þýskur bjór alþjóðvæddu Egil þegar á unga aldri.

Við erum það sem við neytum, er skoðun Egils. En nei, takk, neysla er ekki stjórnmálaskoðun. 


Þórdís: ekki almannatengill embættismanna

Sömu embættismenn og reyndu að fá okkur til að samþykkja Icesae-lögin freista þess að læða í gegnum alþingi þriðja orkupakka ESB. Til skamms tíma talaði iðnaðarráðherra, Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, eins og hún væri almannatengill embættismanna.

Ekki lengur. Þórdís skynjar andstöðuna við þriðja orkupakkann, sem flytur forræðið yfir raforkumálum okkar til Brussel. Ráðherra gefur til kynna að blekking embættismanna sé að rakna upp.

Ísland er ekki hluti af evrópskum raforkumarkaði. Íslenskir embættismenn eru aftur hluti af samevrópskum valdamarkaði. Trúarsetning valdamarkaðarins er gamalkunn: allt vald til Brussel. Þetta er sama kenningin og Lenín boðaði fyrir hundrað árum: öll völd til sovétanna.

Icesave-lögin voru mistök vinstrimeirihlutans á alþingi sem þjóðin leiðrétti. Þriðji orkupakki ESB er eitrað peð sem alþingi á ekki að þiggja. Annars verðum við að leiðrétta alþingi, líkt og 2013. 


mbl.is Farið talsvert nærri stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissa í breskum stjórnmálum - í boði ESB

Allt frá þjóðaratkvæði um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit-kosningarnar 2016, er viðvarandi uppnám í breskum stjórnmálum. Evrópusambandið stundar gamalkunna herfræði Rómverja, að deila og drottna, þegar þjóðir láta ekki að stjórn Brussel-valdsins.

Bæði Ítalir og Grikkir hafa kynnst því hvernig embættismenn í Brussel grípa inn í innanríkismál aðildarþjóða til að hafa áhrif á gang mála - oft þvert á þann þjóðarvilja sem birtist í niðurstöðum kosninga.

Evrópusambandið er stórhættulegt lýðræðinu.


mbl.is „Við getum ekki stöðvað Brexit“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsborgarinn Guðni Th.

Forseti lýðveldisins kemst býsna nærri að lýsa yfir fyrirlitningu á þjóð sinni með þessum orðum: 

Macron hélt inni­halds­ríka ræðu um þá vá sem get­ur steðjað að okk­ur öll­um þegar að þjóðremba og illska tek­ur öll völd eins og segja má að gerst hafi í aðdrag­anda fyrri heims­styrj­ald­ar...

Fyrir utan lélega sagnfræði, menn héldu glaðir á vígvöllinn síðsumarið 1914 en ekki froðufellandi af illsku, þá er í meira lagi hæpið að kenna þjóðhyggju um upphaf fyrra stríðs. Heimsvaldastefna var rót fyrra stríðs, átök nýlenduvelda Evrópu um forræðið yfir Afríku.

Þjóðhyggja sækir innblástur í einkunnarorð frönsku byltingarinnar: frelsi, jafnrétti og bræðralag. 

Heimsborgararembingurinn sem Guðni Th. gefur sig á vald er aðeins önnur útgáfa af heimsvaldastefnu fyrri tíðar. Heimsvaldasinnar fyrirlitu fólk sem vildi búa að sínu í friði fyrir framandi yfirvaldi.


mbl.is „Hjartnæm og alvöruþrungin athöfn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhyggja eftir fasisma og 30 ára stríðið

Fasismi varð til í fyrri heimsstyrjöld. Hitler var í skotgröfunum á vesturvígstöðvunum. Þýski herinn stóð á franskri grund í stríðslok. Borgarastéttin, sem hóf stríðið, gafst upp og með henni lauk heimsveldaskeiði Evrópu. Mussolíni varð í fyrra stríði fráhverfur sósíalism, sem var mótvægi við heimsvaldastefnuna, og tók upp merki fasisma.

Þeir félagar eru andlit hugmyndafræði sem skýtur rótum um alla Evrópu í hálfleik 30 ára stríðsins 1914-1945.

Þjóðhyggju var reynt að útrýma eftir 30 ára stríðið. Alþjóðahyggja skyldi koma í staðinn. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og fleiri slíkar stofnanir áttu að leiða okkur inn í fagra nýja veröld.

En það tókst ekki. Alþjóðahyggjan rændi fólki átthagamenningu. Fjölmenningin reyndist uppskrift að villimennsku menningarkima, óeirða og hryðjuverka. Svarið var Brexit og Trump, sem markar upphaf endaloka alþjóðahyggju síðustu áratuga.

Helftin af pólitíska litrófinu, þessi sem kennd er við vinstristjórnmál, skilur ekki enn upprisu þjóðhyggju, skrifar helsta málgagn engilsaxneskra vinstrimanna, Guardian.

Fólk finnur sig heima í samfélagi sameiginlegs tungumáls, siða, sögu og menningu. Það er þjóðhyggja. Og hún er eina raunhæfa hugmyndafræðin. Allt hitt eru framandi ismar.

 


mbl.is Fagna lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkó gróf sína eigin gröf - og launþega

Við þurfum byltingu, er viðkvæðið í stærstu verkalýðsfélögunum, Eflingu og VR, síðustu misserin. Yfirstéttin arðrænir fátækt fólk sem lifir við sult og seyru, sósíalísk bylting er rétta svarið að sögn verkó.

Svartnætti og yfirvofandi kollsteypa skapar óvissu, lamar framtak og hræðir fólk og fyrirtæki frá fjárfestingum. Afleiðingin verður aðhald og samdráttur í atvinnulífinu. Undir þeim kringumstæðum skapast forsendur fyrir kauplækkun fremur en að laun hækki. Menn teljast heppnir ef þeir halda sjó.

Fréttir af uppsögnum fyrirtækja og minni hagnaði renna stoðum undir áróður sósíalista í verkó að hér sé allt í kalda koli.

Neikvæðni og svartsýni lamar baráttuþrek almennra launþega. Þeir sjá fram á atvinnuleysi og þá hjálpar ekki að kaupið hækki; þeir atvinnulausu eru alltaf á strípuðum bótataxta.

Byltingarorðræða sósíalista í verkó eru stærstu mistökin í seinni tíma sögu verkalýðshreyfingarinnar.

 


mbl.is „Dapurlegt á hvaða plani orðræðan er“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgitta boðar nýja stjórnmálahreyfingu

Fyrrum kafteinn Pírata, Birgitta Jónsdóttir, kallar eftir hugmyndum að nýrri stjórnmálahreyfingu þar sem 

eiga sér stað samræður alls konar hópa í frjálsu flæði og undir ægishjálmi hins vægðarlausa heiðarleika.

Píratar prófuðu vægðarlaust innanflokksstarf en nú skal heiðarleikinn vægðarlaus. Í stað öfga mætti kannski reyna ígrundun og skynsemi og kurteisa framkomu. En þá sæti öfgafólkið heima - virkt í athugasemdum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband