Kúrdar á milli steins og sleggju: Assad eða Erdogan

Kúrdar semja við Assad Sýrlandsforseta um að láta af hendi bardagalaust svæði sem þeir tóku af Ríki íslams og hefði getað orðið vísir að nýju þjóðríki, Kúrdistan. Á móti kemur að sýrlenskar hersveitir halda til tyrknesku landamæranna.

Erdogan Tyrklandsforseti sér ekki fram á að ná árangri gegn herjum Sýrlands sem njóta stuðnings Rússa. Þótt Tyrkland sé Nató-þjóð hvarflar ekki að vestrænum ríkjum að veita Tyrkjum aðstoð - samúðin er öll með Kúrdum.

Erdogan, sem vildi Assad feigan fyrir tveim árum og óöld í Sýrlandi, er gæfi færi á að víkka út tyrknesku landmærin í suðri, sættir sig við að Assad taki ráðin af Kúrdum og komi í veg fyrir kúrdískt ríki.

Handritið að framvindu síðustu daga í Norður-Sýrlandi er skrifað í Moskvu. Pútín kann að tefla valdaskák til sigurs. Vesturlönd eru bjarglausir áhorfendur. 


mbl.is Sýrlenskar hersveitir gegn Tyrkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferði, raunsæi og bandarískur fávitaháttur

Var siðferðilega rétt að ráðast inn í Írak 2003? Ef svarið er já, og rökin þau að Hussein Íraksforseti hafi verið harðstjóri, þá var einnig rétt að efna til ófriðar við Assad í Sýrlandi og Gaddaffi í Líbíu. Og, vel að merkja, sömu rök dygðu til að fara með hernað gegn Sádí-Arabíu og Kína, svo dæmi séu tekin.

Siðferðisrökin fyrir stríði, þau einu gildu, eru sjálfsvörn. 

Í tilfelli Kúrda er málið snúnara. Landið sem Kúrdar ráða er ekki þeirra, samkvæmt alþjóðarétti, heldur Sýrlands. Kúrdar eru þjóð án þjóðríkis. Ástæðan fyrir því að Kúrdar voru komnir í þá stöðu að stjórna búsetusvæðum sínumm í Sýrlandi og Írak er að Ríki íslams kom sér þar fyrir eftir að vesturlönd, Bandaríkin með stuðningi Evrópuríkja, ónýttu ríki Assads og Hussein.

Kúrdar unnu með Bandaríkjunum að kveða Ríki íslams í kútinn og gera í framhaldi kröfu um að stofna sitt eigið þjóðríki er fæli sjálfkrafa í sér landakröfu á hendur Tyrkjum. Erdogan Tyrkjaforseti tekur upp hernað á sýrlensku landssvæði til að hindra stofnun Kúrdistan. Assad í Sýrlandi lætur sér það vel líka, enn sem komið er, og bíður átekta að fyrirskipun Rússa sem hafa öll ráð Assad í hendi sér. Allar líkur eru á að áætlanir um framtíð landamærahéraðanna séu sameiginleg niðurstaða Erdogan, Assad og Pútín. 

Bandaríkjamenn eru þreyttir á krossferðum í framandi heimshlutum og kalla stefnu Clinton, Bush og Obama fávitahátt. Fyrir kjör Trump árið 2016 var samstaða í Washington að krossfarastríð í nafni lýðræðis og mannréttinda væru af hinu góða, jafnvel þótt slóðin væri stráð líkum, ónýtum samfélögum og væri lífgjöf Ríkis íslams og álíka hópa.

Í Washington er stefnubreyting í utanríkismálum, sú fyrsta frá lokum kalda stríðsins. Bókin sem er besta greiningin heitir Helvíti vinsamlegs ásetnings  eftir Stephen M Walt.

Trump er friðarhöfðingi í samanburði við forvera sína. Bandarískar friðarhreyfingar eru í siðaklemmu, sérstaklega þær á vinstri kantinum, sem almennt líta á Trump sem afl hins illa.

Í umsköpun bandarískrar utanríkisstefnu er Trump fulltrúi raunsæis. Mörgum finnst erfitt að kyngja því. 

 


mbl.is Bandaríkjamenn uppfylli „siðferðislegar skyldur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrikona og barn auglýsa eftir neyðarástandi

Evrópukrati úr röðum Vinstri grænna og aðgerðasinni í grunnskóla ræddu um loftslagsmál í boði samfylkingarútgáfu. Í Kjarnanum segjast kratinn og krakkinn sammála um að nauðsynlegt sé að lýsa fyrir ,,neyðarástandi" vegna manngerðs veðurfars.

Árátta vinstrimanna er að lýsa yfir hörmungum þar sem engar eru. Kjöraðstæður vinstrimanna eru þar sem allt er í kalda koli. Eina hreina vinstristjórn Íslandssögunnar var mynduð strax eftir hrun, Jóhönnustjórnin. Tímasetningin er ekki tilviljun. Ekki fyrr en fokið er í flest skjól eiga vinstrimenn færi á valdatöku.

Manngert veðurfar er skáldskapur. Náttúrulegar loftslagsbreytingar eru sannleikur. Ef valið stendur á milli þess að mæta breytilegu veðurfari af raunsæi annars vegar og hins vegar lýsa yfir að heimurinn stefni til helvítis taka vinstrimenn seinni kostinn.

Í örvæntingu og neyð skapast forsendur fyrir valdatöku vinstrimanna. 


Ísland og Evrópuherinn

Tvö evrópsk ríki, Bretland og Þýskaland, háðu kapphlaup um Norður-Atlantshafið vorið 1940. Þjóðverjar tóku Danmörku og Noreg í apríl það ár en mánuði seinna urðu Bretar á undan Þjóðverjum og hernumdu Færeyjar og Ísland.

Árið eftir, sumarið 1941, tók Bandaríkin við herstöðu Breta á Íslandi. Markaði það endalok evrópskrar sóknar á Norður-Atlantshaf í áratugi. Í taugaveiklun eftirhrunsins buðu Íslendingar, eða öllu heldur alræmda vinstristjórn Jóhönnu Sig., Evrópu að fá landið með gögnum þess og gæðum en Evrópa hikaði, bauð ekki nógu vel.

Ef Evrópa, les: Evrópusambandið, hefði talið sig í stöðu að hirða Ísland frá áhrifasvæði Bandaríkjanna 2009-2013, með aðstoð fimmtu herdeildar vinstrimanna, þá myndi Íslendingum hafa verið gert eftirfarandi tilboð: gangið í ESB en haldið fiskveiðilandhelginni ykkar. Slíkt tilboð kom aldrei og áramótin 2012/2013 dó ESB-umsóknin drottni sínum. Um vorið var ríkisstjórn vinstrimanna slátrað. Samfylking missti 2/3 af fylginu og Vinstri grænir helming.

Íslandi hefur áður verið dinglað framan í Evrópuríki. Danir reyndu að selja Ísland Englandskonungi á 16. öld og Þjóðverjum á 19. öld. En svo heppilega vildi til fyrir Íslendinga að Englendingar voru ekki tilbúnir á 16. öld að leggja undir sig Norður-Atlantshafi og Þjóðverjar enn síður á 19. öld. Nýmælið 2009 var að ríkisstjórn Íslands falbauð landið útlendingum.

Ef draumar Stór-Evrópusinna rætast og ESB verður hernaðarveldi gæti Norður-Atlantshaf orðið vettvangur aukinnar spennu stórveldanna. Bandaríkin, Evrópusambandið og Rússland myndu vilja koma ár sinni fyrir borð. Bretland stæði líklega með Bandaríkjunum - eftir Brexit.

Ef Íslendingar hætta gelgjupólitík, eins og var ráðandi 2009-2013, og senda skýr skilaboð um hver landið á heima í stórveldapólitíkinni yrði það öllum fyrir bestu. 

(Eins og glöggir lesendur sjá er ofanritaður texti skrifaður jöfnum höndum fyrir íslenska lesendur og útlenda. Borið hefur á því að google-þýðingar hafi misskilið texta um íslenska utanríkispólitík og merking ekki komist fyllilega til skila).


mbl.is Þarf fleiri hermenn og þarf að nota þá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björnsskýrslan um EES er ástarjátning

Skýrsla Björns Bjarnasonar, í umboði Gulla utanríkis, um EES-samninginn, er ástarjátning, segja Norðmenn.

Engin ástæða til að andmæla því.

Spurning er aftur hvort Björn og Gulli séu dæmigerðir Íslendingar.


mbl.is Segir Íslendinga ástfangna af EES-samningnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkir berjast við hryðjuverkamenn, Kúrdar vilja þjóðríki

Vopnaður maður getur í senn verið hryðjuverkamaður og þjóðfrelsishetja. Tyrkir líta á vopnaða Kúrda sem ógn við þjóðaröryggi, vita að þjóðríkið Kúrdistan verður ekki til nema með landssvæði sem tilheyrir Tyrklandi.

Kúrdar, á hinn bóginn. telja að vopnaátök séu forsenda fyrir þjóðríki, og hafa líklega rétt fyrir sér þar. Vopnaður Kúrdi að berjast við tyrkneska hermann er þar af leiðandi þjóðfrelsishetja.

Afstaða annarra hlýtur að litast af því hvort það sé sanngjarnt eða ósanngjarnt að Kúrdar fái þjóðríki. Það er sanngjarnt.


mbl.is NATO hvetur Tyrki til að gæta hófsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit: 3 ár, 3 vikur, 3 mínútur

Breska þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 að ganga úr Evrópusambandinu. Í Brussel var niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hafnað, Bretar áttu ekkert með það að fara úr ESB. Punktur.

Í samningaviðræðum var tæknilegt viðfangsefni, landamæri Írlands og Norður-Írlands, sem er hluti Bretlands, gert að óleysanlegum hnút. 

Nú segir forsætisráðherra Írlands að hægt sé að ná samningum um útgöngu, Brexit, á innan við þrem vikum. Hvers vegna hefur það ekki tekist í 3 ár?

Sá írski hefði allt eins geta sagt: það er hægt að leysa málið á 3 mínútum. Eina sem þarf er að viðurkenna einfalda pólitíska staðreynd. Breska þjóðin kaus Brexit.


mbl.is Telja samning mögulegan fyrir lok október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkir sömdu fyrir innrásina í Sýrland

Áður en Erdogan sendi hermenn inn í Norðaustur-Sýrland gekk hann frá samningum við Assad Sýrlandsforseta og Rússa. Í Norvestur-Sýrlandi er Idlib hérað, sem liggur að landamærum Tyrklands og er undir stjórn andstæðinga Assad. Mögulega fær Assad stuðning Tyrkja við endurheimt héraðsins.

Kúrdar ráða svæðinu sem Tyrkir sækja að, þótt formlega sé það hluti Sýrlands. Líklega kveða samningar á hve langt tyrknesku sveitirnar fari inn í Sýrland.

Bandaríkjamenn vissu, eða máttu vita, um samkomulagið fyrir innrásina. Bandaríkin eru næmari fyrir umræðunni og gætu gripið í taumana, t.d. í tilfelli mannfalls óbreyttra borgara. Tyrkir vilja hafa hraðar hendur og komast yfir það land sem þeir telja sig eiga heimtingu á.

Kúrdar berjast fyrir ættjörð sinni og halda í von um þjóðríki í fyllingu tímans. Þeir munu gera Tyrkjum innrásina dýrkeypta. 


mbl.is Trump vill sætta Tyrki og Kúrda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gulli pantar flóttamenn frá Erdogan

Erdogan æðstráðandi í Tyrklandi segist vera með 3,6 milljónir flóttamanna sem hann hótar að senda til Evrópuríkja er gagnrýna innrásina í Sýrland.

Hvað ætli Gulli utanríkis hafi tryggt sér marga flóttamenn?


mbl.is Tyrkir hætti hernaði í Sýrlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðflokkurinn bjargar Sjálfstæðisflokknum

Mótsagnakennt eins og það hljómar bjargar aukið fylgi Miðflokksins Sjálfstæðisflokknum frá fylgishruni. Forysta Sjálfstæðisflokksins er á hraðri leið að gera flokkinn að hægriútgáfu Samfylkingar, sem veit á fylgishrun, en vaxandi styrkur Miðflokksins temprar þær öfgar.

Meirihluti kjósenda er borgaralega þenkjandi og kýs öfgalausa útfærslu á góðlífi þar sem fetaður er millivegur einstaklingsfrelsis og ríkisforsjár. Meirihluti kjósenda er jafnframt fráhverfur fikti við það sem virkar, og skiptir máli, samanber stjórnarskrána. Þá segir sagan okkur að ismar frá útlöndum, t.d. kommúnismi, ESB-ismi og loftslagsismi eiga ekki upp á pallborðið.  

Miðflokkurinn er í senn fordæmi og aðhald fyrir Sjálfstæðisflokkinn, bjargar gömlu háborg borgaralegra stjórnmála frá kviksyndi samfóisma. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur bæta við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband