Miðvikudagur, 3. janúar 2018
Sjálfala sérfræðingaveldi
Íslensk lögfræði er heimskasta háskólagreinin norðan Alpafjalla, aðeins kennd í fásinninu á Fróni. Þegar niðurstöður íslenskra dómara sæta endurskoðun erlendis, t.d. fyrir mannréttindadómstól Evrópu er oftar en ekki gerðar athugasemdir við úrlausnir þeirra.
Skýtur skökku við að dómarar og nefndir á þeirra vegum telji sig hafna yfir það að svara lögmætum spurningum almannavaldsins um tillögur á dómaraefnum. Skörin færist hærra upp á bekkinn þegar dómaranefndir þykjast upp á prómill vita hverjir séu hæfastir í embætti dómara, líkt og gerðist í alræmdu landsdómsmáli.
Dómarar virðast líta á sig sem sjálfala sérfræðiveldi sem komi lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum ekki við - það á bara að borga og skaðabætur ef útaf bregður.
Dómarar og samfélag lögfræðinga ættu að temja sér ögn meiri virðingu fyrir stjórnvöldum og taka ekki reglulega frekjukast heimalningsins. Það þjónar ekki almannahagsmunum að umboðslausir sérfræðingar setji sig á háan hest trekk í trekk.
![]() |
Lýtur ekki boðvaldi ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 3. janúar 2018
Ofbeldisglæpir flóttamanna staðfestir
Aukinn viðtaka flóttamanna hækkar tíðni ofbeldisglæpa, samkvæmt nýrri rannsókn þýskra stjórnvalda. Rannsóknin tók til ofbeldisglæpa í Neðra-Saxlandi árin 2014 til 2016.
Ofbeldisglæpum fjölgaði um rúm tíu prósent á tímabilinu. Yfir 90 prósent aukningarinnar er vegna ofbeldisglæpa flóttamanna, einkum karlmanna á aldrinum 14 til 30 ára.
Flóttamennirnir koma nær allir frá múslímaríkjum. Þeir sem helst fremja ofbeldisglæpi eru frá Marokkó, Túnis og Alsír.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 3. janúar 2018
Diplómatískur sigur Trump
Fjölmiðlar eru svo uppteknir við að útmála Trump Bandaríkjaforseta sem kjána að þeir taka ekki eftir diplómatískum stórsigrum hans. Norður-Kórea og Suður-Kórea boða viðræður sín á milli en þær hafa lengið niðri í tvö ár.
Norður-Kórea snýr þar með af vegi kjarnorkuvopnaskaks og leitar eftir samtali. Ástæðan fyrir viðsnúningi kommúnistaríkisins getur ekki verið nema ein. Trump gaf ekki eftir hótunum Norður-Kóreu heldur svaraði hann í sömu mynt.
Staðfesta en ekki eftirgjöf gagnvart yfirgangi skilar árangri. Í deilunni á Kóreuskaga stendur Trump með pálmann í höndunum.
![]() |
Minn er stærri en hans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 2. janúar 2018
Einkalíf, samfélagsmiðlar og áreitni
Við lifum æ stærri hluta einkalífs okkar á opinberum vettvangi, á samfélagsmiðlum og sem kennitölur í gagnasöfnum. Byltingin kennd við metoo er krafa um virðingu fyrir einkalífi, að fólk, einkum konur, losni undan kynferðislegri áreitni.
Mótsögnin á milli þess að múrar einlífsins eru brotnir á einum stað en reistir á öðrum er hægt að skýra með valdeflingu kvenna. Konur nota samfélagsmiðla í ríkari mæli en karlar og konur eru fremur fórnarlömb áreitni en karlar.
Metoo er menningarbylting frá Hollywood. Valdefling kvenna þar á bæ er þegar farin að skila sér. Kvikmyndir með konum í aðalhlutverki fengu mesta aðsókn á síðasta ári. Síðast gerðist það skömmu eftir seinna stríð.
Valdefling kvenna kemur í bylgjum. Í einni bylgjunni um aldamótin 1900 óttuðust ráðandi öfl (les: karlar) endalok siðmenningar. ,,Frakkland er náttúrulaust, karlmennskan töpuð; þrátt fyrir bann á fóstureyðingum og smokkum mun ríkinu hnigna," skrifar Philipp Blom um andlegt ástand Frakka fyrir rúmum 100 árum.
Vestrænir karlmenn drifu sig í stríð fyrir einni öld að endurheimta karlmennskuna. Vægari úrræði eru reynd núna, t.d. með innflutningi á trúarmenningu sem lítur öðrum augum á jafnrétti kynjanna en vesturlandabúar.
![]() |
Dagatölin öll með tölu beint í ruslið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 2. janúar 2018
Saga Íslands í 100 ár
Þjóðarsaga Íslands frá fullveldinu 1918 er í drögum eftirfarandi.
1918 - 1940 er sagan um nýfrjálsa þjóð í leit að pólitísku fyrirkomulagi. Fullveldisstjórnmál víkja fyrir stéttabaráttu. Um miðbik tímabilsins kemur fram stjórnmálaflokkur, búinn til úr Íhaldsflokknum og litlu broti kenndu við frjálslyndi. Einennisorðin ,,stétt með stétt" duga Sjálfstæðisflokknum til að verða leiðandi stjórnmálaafl í samkeppni við Kommúnistaflokk Íslands, sem er nærri jafngamall. Þjóðin býr enn í torfkofum að stórum hluta. Þéttbýlis-Íslendingar taka ekki fram úr bændum og búaliði fyrr en á seinni hluta þriðja áratugsins. Framsóknarflokkurinn er aðalflokkur landsins, sem gætir þess að hallir verði ekki reistar á mölinni á meðan helmingur þjóðarinnar býr undir moldarþaki. Kaupfélögin og SÍS ráða ferðinni í verslun og viðskiptum ásamt fjölskyldufyrirtækjum.
1940 - 1975 er saga hernáms, tæknivæðingar og sjálfstæðisbaráttu á fiskimiðum. Hernám Breta 10. maí 1940 innleiðir tækniöld. Íslendingum græddist fé í stríðinu og höfðu efni á lýðveldi undir lok þess. Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks og kommúnista/sósíalista leggur grunn að blönduðu hagkerfi og velferðarkerfi. Þegar hernámið verður varanlegt klofnar þjóðin, nýsköpunarstjórnin fellur. Bandaríski herinn á Miðnesheiði myndar gjá milli efnahagslegra sjálfsstæðissinna með Sjálfstæðisflokkinn sem höfuðból og menningarlegra sjálfsstæðissinna þar sem Sósíalistaflokkurinn/Alþýðubandalagið var sterkasta vígið. Þessi gjá var ekki brúuð fyrr en 2017, þegar sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð. Þótt hersetan klyfi þjóðina sameinaðist hún gegn Bretum í landhelgisstríðinu sem stóð yfir með hléum í aldarfjórðung, 1950-1975. Í efnahagsmálum tapaði þjóðin sér í verðbólgu en flutti samtímis úr torfbæjum í steypt einbýli við flóa og firði.
1975 - 2000 er sagan um afnám verðbólgu og fyrstu tilraun til stjórnfestu. Síðasta uppgjörið við gamla framsóknarveldi sveitanna fór fram á þessum tíma þegar SÍS lagði upp laupana. Síðasta stórvirki Framsóknarflokksins, þangað til að Sigmund Davíð bar að garði, var að veita forstöðu ríkisstjórnarinnar sem sló af verðbólguna. Fjármálaráðherra þeirrar ríkisstjórnar, Ólafur Ragnar Grímsson, fékk þau verðlaun frá þjóðinni að verða forseti. Stjórnmálamaðurinn sem mótaði Ísland á þessum tíma var þó Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins sem starfaði fyrst með Alþýðuflokknum en síðar Framsókn og bjó til pólitískan og efnahagslegan stöðugleika í fyrsta sinn á alla fullveldissöguna. Undir forystu Davíðs varð Sjálfstæðisflokkurinn heill á andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu og skóp þar með grundvöll fyrir samstarfi flokksins við arftaka sósíalista, Vinstri græna.
2000 - 2018 er saga útrásar, blekkingar og pólitískrar upplausnar. Auðmenn yfirtóku stjórnmálakerfið í kringum aldamótin. Fyrst fjölmiðlana, síðan bankana og loks stjórnmálaflokkana. Útrásin bjó til þá blekkingu að íslenskir auðmenn gætu gengið á vatni. Þjóðin var mötuð af þeirri blekkingu, auðmenn keyptu stóreignir í gömlu höfuðborginni, Kaupmannahöfn, og kynntu sem sigur hjálendunnar yfir nýlenduveldinu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 hét Baugsstjórnin enda borguð og keypt af auðmönnum. Bankahrunið 2008 felldi ríkisstjórina og í hönd fór tími pólitískrar upplausnar. Stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrsta hreina vinstristjórn lýðveldisins, reyndi að bylta stjórnkerfinu innan frá, með nýrri stjórnarskrá og gera Ísland að ESB-ríki. Hvorttveggja mistókst. Sigmundur Davíð gerði Framsókn að stærsta flokki landsins 2013 og bjargaði þjóðinni frá Icesave-skuldaáþján og ESB-aðild. Þriðja stórfrek Sigmundar Davíðs var skuldauppgjörið við þrotabú gömlu bankanna. Enginn stjórnmálamaður í allri sögu fullveldisins fékk meira vanþakklæti en hann. Ofsóknir fjölmiðla bjuggu í haginn fyrir hallarbyltingu í Framsókn sem keyrði Sigmund Davíð út á jaðar stjórnmálanna. En hann er enn ungur maður.
2018 - og áfram er óskrifað blað. Vonir standa til að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggi grunn að varanlegri stjórnfestu.
![]() |
Fullveldishátíðin verði sjálfsprottin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. janúar 2018
Heimsfriður fjármagnaður af Bandaríkjunum - ekki lengur
Sameinuðu þjóðirnar áttu að leiða til heimsfriðar eftir seinni heimsstyrjöld. Þótt það sé ofmælt að friður hafi ríkt í 70 ár er ekki ofsagt að friðsælla hafi verið í heiminum síðustu áratugi en á fyrri hluta síðustu aldar.
Bandaríkin, að stórum hluta, hafa fjármagnað friðinn. Bæði með framlögum til Sameinuðu þjóðanna og einstakra ríkja þvers og kruss um heiminn. En nú bregður nýrra við. Bandaríkin loka buddunni.
Sameinuðu þjóðirnar niðurlægðu Bandaríkin í deilunni um viðurkenningu á Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael og Trump lækkaði framlög til stofnunarinnar í beinu framhaldi. Pakistanar hafa þegið milljarða frá Bandaríkjunum, allt frá kalda stríðinu þegar þeir stríddu við Indverja sem nutu stuðnings Sovétríkjanna. Nú hótar Trump að hætta peningaaustri til Pakistan.
Bandaríkin telja, með réttu eða röngu, að þau fá ekki fyrir peninginn sinn fjármuni sem þau dæla til annarra ríkja og ríkjasamtaka. Peningar kaupa stundum frið en blankheit geta verið ástæður stríðsátaka. Minni framlög Bandaríkjanna til alþjóðamála eru í sjálfu sér ekki stríðsógn. En þegar kreppir að í fjármálum getur það hraðað þróun í átt til átaka.
![]() |
Sendir heimsbyggðinni rauða viðvörun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 1. janúar 2018
Munurinn á mótmælum og byltingum; Ísland - Íran
Mótmæli gegn stjórnvöldum geta leitt til byltingar en þó ekki nærri alltaf. Tveir þættir skipta höfuðmáli. Í fyrsta lagi hvort og hve mikið stjórnvöld geta komið til móts við mótmælendur. Í öðru lagi hversu víðtæk mótmælin eru meðal almennings.
Viðvarandi mótmælaástand var á Íslandi eftir hrun. Stjórnkerfið mætti mótmælum með nýjum kosningum og almenningur kaus sér n.k. byltingarstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Jóhönnustjórnin boðaði umbyltingu í stjórnskipun landsins, með nýrri stjórnarskrá, og uppstokkun á lýðveldinu, með ESB-umsókn.
En byltingarmóðurinn þvarr, ekkert varð úr nýrri stjórnarskrá og ESB-umsóknin dagaði uppi.
Í trúarríkinu Íran er ekki boðið upp á frjálsar kosningar. Sitjandi stjórnvöld ýmist beita loforðum eða hótunum til að friða mótmælendur. Kannski verður það nóg, kannski ekki. Ef til vill verður sett saman umbótastjórn sem boðar lækkun matarverðs og frjálslyndari stjórnarhætti.
Trúarríki eins og Íran er of ósveigjanlegt í stjórnskipun til að mæta mótmælum nema að takmörkuðu leyti. Stóra spurningin er hve óþol almennings er orðið mikið. Byltingarástand er eins og fjölskylda sem er á mörkum þess að liðast í sundur. Annað tveggja gerist að fólk kemur sér saman um að friður sé skárri kostur en að stökkva fram af bjargbrúninni eða að óvissan um hörmungarnar sem bíða sé betra en núverandi ástand.
Þriðji þátturinn getur ráðið úrslitum um hvoru megin hryggjar klerkaríkið lendir. Erlend afskipti eru aldrei langt undan þegar undirstöður bresta. Það getur riðið baggamuninn.
![]() |
Reynir að binda endi á mótmælin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)