Munurinn á mótmælum og byltingum; Ísland - Íran

Mótmæli gegn stjórnvöldum geta leitt til byltingar en þó ekki nærri alltaf. Tveir þættir skipta höfuðmáli. Í fyrsta lagi hvort og hve mikið stjórnvöld geta komið til móts við mótmælendur. Í öðru lagi hversu víðtæk mótmælin eru meðal almennings.

Viðvarandi mótmælaástand var á Íslandi eftir hrun. Stjórnkerfið mætti mótmælum með nýjum kosningum og almenningur kaus sér n.k. byltingarstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Jóhönnustjórnin boðaði umbyltingu í stjórnskipun landsins, með nýrri stjórnarskrá, og uppstokkun á lýðveldinu, með ESB-umsókn.

En byltingarmóðurinn þvarr, ekkert varð úr nýrri stjórnarskrá og ESB-umsóknin dagaði uppi.

Í trúarríkinu Íran er ekki boðið upp á frjálsar kosningar. Sitjandi stjórnvöld ýmist beita loforðum eða hótunum til að friða mótmælendur. Kannski verður það nóg, kannski ekki. Ef til vill verður sett saman umbótastjórn sem boðar lækkun matarverðs og frjálslyndari stjórnarhætti.

Trúarríki eins og Íran er of ósveigjanlegt í stjórnskipun til að mæta mótmælum nema að takmörkuðu leyti. Stóra spurningin er hve óþol almennings er orðið mikið. Byltingarástand er eins og fjölskylda sem er á mörkum þess að liðast í sundur. Annað tveggja gerist að fólk kemur sér saman um að friður sé skárri kostur en að stökkva fram af bjargbrúninni eða að óvissan um hörmungarnar sem bíða sé betra en núverandi ástand.

Þriðji þátturinn getur ráðið úrslitum um hvoru megin hryggjar klerkaríkið lendir. Erlend afskipti eru aldrei langt undan þegar undirstöður bresta. Það getur riðið baggamuninn.


mbl.is Reynir að binda endi á mótmælin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband