Brexit sameinar, spilaborgin ESB og Viðreisn

Breskir íhaldsmenn, sem deildu um hvort Bretland ætti að halda áfram í ESB eða hætta, eru sameinaðir eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna þar sem aðild að Evrópusambandinu var hafnað, segir í fréttaskýringu Politico.

Sérfræðingar í málefnum Evrópusambandsins, t.d. í Eurointelligence, telja auknar líkur á hraðferð Breta úr Evrópusambandinu. Æ minni líkur eru á að Bretar kjósi aukaaðild að ESB í gegnum EES-samninginn, sem Ísland og Noregur eiga aðild að.

Ástæðurnar eru einkum tvær fyrir því að Bretland virðist ætla að sleppa fljótt og vel úr Evrópusambandinu en ekki með eymd og langtímavolæði. Í fyrsta lagi skall engin kreppa á Bretum eftir að þeir ákváðu í sumar, með þjóðaratkvæðagreiðslunni, að ganga úr ESB. Margradda kór ESB-sinna á meginlandinu og í Bretlandi boðaði efnahagslega kollsteypu ef Bretland hrykki af ESB-hjörunum. Ekkert slíkt gerðist og Bretar eru í betri málum en stórþjóðirnar á meginlandinu í efnahagslegu tilliti.

Hin ástæðan fyrir Brexit án vandkvæða er að stærsta draumsýn Evrópusambandsins, evran, er óðum að breytast í martröð. Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz kippur fótunum undan evrunni og það afhjúpar Evrópu sem efnahagslegt hamfarasvæði, skrifar Jeremy Warner í Telegraph.

Það er svo sérstök pæling að um leið og Evrópusambandið er rúið trúverðugleika og án framtíðarsýnar að nýr flokkur ESB-sinna á Íslandi, Viðreisn, ætlar að gera sig gildandi. En það segir líklega meira um kreppu íslenskra stjórnmála en ástandið í Evrópu.

 

 


mbl.is Vilja fríverslun frekar en EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðuneytið staðfestir Guardian - RÚV laug upp á forsætisráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi forsætisráðherra kom ekki að stjórnsýsluákvörðunum um nauðasamninga við föllnu bankana, segir í svari fjármálaráðuneytis við fyrirspurn á alþingi. Ráðuneytið staðfestir þar með orð blaðamanna breska blaðsins Guardian sem skrifaði strax í apríl um fjármál forsætisráðherra hjónanna  :

Guardian hefur ekki séð neinar sannanir fyrir skattaundanskotum eða óheiðarlegum ávinningi Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar eða Wintris.
(The Guardian has seen no evidence to suggest tax avoidance, evasion or any dishonest financial gain on the part of Gunnlaugsson, Pálsdóttir or Wintris.)

RÚV skeytti hvorki um heiður né skömm og þverbraut eigin siðareglur í raðfréttaflutningi sínum um mál Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans. Pólitískir andstæðingar Sigmundar Davíðs voru leiddir fram í röðum til að vitna um vanhæfi hans og jafnvel að forsætisráherra græfi undan efnahagslegu fullveldi landsins. RÚV hannaði fréttir til að rökstyðja þá skoðun að Sigmundur Davíð stundaði stjórnmál til að hagnast persónulega á kostnað almannahags.

RÚV laug ítrekað upp á Sigmund Davíð Gunnlaugsson og stuðlaði beint að afsögn hans sem forsætisráherra. RÚV verður að sæta ábyrgð fyrir siðlausa misnotkun á fjölmiðlavaldi.

 


mbl.is Kom ekki að samskiptum við kröfuhafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eygló í felum, bíður könnunar

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði sig frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og undirbjó valdatöku vinstrimanna með hjásetu í lykilmáli stjórnarinnar.

Eftir hjásetuna er Eygló einangruð og hætt að koma fram í fjölmiðlum, afboðaði m.a. áður bókaða mætingu á Hringbraut. Eygló og stuðningsmenn hennar keyptu spurningu í skoðanakönnun Maskínu til að kanna stuðning almennings við hjásetuna.

Á meðan Eygló bíður niðurstöðu könnunarinnar, sem vitanlega verður ekki birt nema hún sé félagsmálaráðherra hagfelld, skrifar aðalráðgjafi Eyglóar, vinstrimaðurinn Stefán Ólafsson, varnarræðu fyrir hana í Eyjuna.

Stefán segir Eygló standa vaktina með því að grafa undan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Frá sjónarhóli vinstrimanna stendur Eygló sig fjarska vel.


Viðreisnarforingi mættur - Sjálfstæðisflokkur í vanda

Hér var kl. hálfsex eða svo skrifað að Viðreisn skorti foringja. Varla var bloggið farið út þegar Þorsteinn Víglundsson tilkynnti framboð. Ákvæðablogg er hættuleg iðja.

Þorsteinn er í krafti reynslu sinnar sem talsmaður Samtaka atvinnulífsins foringjaefni í stjórnmálum.

Þorsteinn kallar sjálfan sig hægrikrata en það er fornt pólitískt landamærasvæði milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar/Alþýðuflokks. Undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti Þorsteinn að vera í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ástæðan fyrir vali Þorsteins á Viðreisn gæti verið að í Sjálfstæðisflokknum er fyrir foringi á fleti, Bjarni Ben. Líka er mögulegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé of mikill píratafrjálshyggjuflokkur fyrir smekk Þorsteins eða ekki nógu ESB-sinnaður.

Hitt er víst að framboð Þorsteins fyrir Viðreisn setur Sjálfstæðisflokkinn í verulegan vanda. Sá vandi dýpkar ef Þorsteinsáhrifin verða þau að sæmilega ábyrgir borgaralega sinnaðir frambjóðendur gefa sig fram til Viðreisnar.

Viðreisn ætlar bersýnilega að handvelja frambjóðendur og láta ekki prófkjörslýðræði þvælast fyrir mönnun útgerðarinnar. Með Þorstein í brúnni er eins víst að margir gefi sig fram sem hásetar. Líklega verður Benni bara í landi að panta kostinn.

 


mbl.is Þorsteinn í framboð fyrir Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn án foringja

Klofningsframboð ESB-sinna úr Sjálfstæðisflokknum heitir Viðreisn. Benedikt Jóhannesson, Sveinn Andri Sveinsson og Ólafur Stephensen og Þorsteinn Pálsson eru meðal bakhjarlanna.

Lítið er að frétta af framboðsmálum Viðreinar þangað til í dag að Pawel Bartozek gefur upp stuðning við Viðreisn, sennilega í þriðja sinn opinberlega. Þá er Þorseteinn Víglundsson svo vinsamlegur að segjast ,,íhuga" framboð. Hálfvelgja sannfærir ekki.

Flokkur án foringja á sér ekki viðreinar von. Og enginn slíkur er í sjónmáli í flokki ESB-sinna.


mbl.is Pawel gengur til liðs við Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV hamlar þróun fjölmiðlunar

Fjölmiðlun er tvennt, fag og rekstur. Faglega stundar RÚV skotgrafafréttamennsku úr kalda stríðinu þar sem farið er í manninn en ekki málefni. RÚV stundar fréttamennsku í þágu vinstrimanna, eins og mýmörg dæmi sanna, sbr. ESB-áróðurinn og herferðina gegn Sigmundi Davíð.

Rekstrarfyrirkomulag RÚV er einnig ættað frá miðri síðustu öld. RÚV sætir ekki ábyrgð gagnvart almenningi, það er ekki hægt að segja upp nauðungaráskriftinni. RÚV fær peninga á færibandi úr ríkissjóði - alveg sama á hverju gengur.

Í stuttu máli: RÚV er íslenskri fjölmiðlaþróun til óþurftar.

 


mbl.is Fjölmiðlar vilja sjá breytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stiglitz útskýrir ónýti evrunnar

Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz útskýrir í stuttu máli hvers vegna evran er ónýtur gjaldmiðill. Hann fer yfir helstu skýringar sem gefnar hafa verið á lélegri frammistöðu evru-ríkja í efnahagsmálum síðustu ár og hafnar þeim öllum.

Síðan segir Stiglitz:

Þá er eftir fjórða skýringin: evran sjálf ber meiri ábyrgð en stefnumótun og stjórnkerfi einstakra ríkja. Evran var gölluð við fæðingu. (That leaves the fourth explanation: the euro is more to blame than the policies and structures of individual countries. The euro was flawed at birth.)

Aðeins tveir kostir eru í boði, segir Stigliz, að breyta evru-ríkjunum í Stór-Evrópu með stjórntækjum og seðlabanka er virka á líkan hátt og í Bandaríkjunum eða að hætta að nota evru sem gjaldmiðil.

Almenn og breið samstaða er um þessa greiningu Stiglitz á evru-vandanum meðal þeirra sem fjalla um málið á hlutlægan hátt. Valkostirnir eru Stór-Evrópa með evru eða engin evra. En það mun taka fjölda ára, ef ekki áratugi, að leiða fram þessa valkosti í pólitískri stefnumótun. Á meðan leiðir evran efnahagslega eymd yfir evru-ríkin.


RÚV lýgur með þögninni - Sigmundur Davíð ekki vanhæfur

RÚV þaggar niður frétt af fjármálum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins sem afhjúpar misbeitingu fréttamanna RÚV á dagskrárvaldi fjölmiðilsins. Kjarninn segir ítarlega frá svari fjármálaráðherra á alþingi:

Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra, kom ekki að stjórn­sýslu­á­kvörð­unum í tengslum við nauða­samn­inga slita­búa föllnu bank­anna.

Áður hefur RÚV gert því skóna að Sigmundur Davíð hafi verið vanhæfur sem forsætisráðherra vegna fjármála eiginkonu hans. RÚV ól á grunsemdum um fjármál þeirra hjóna og endurvarpaði fáránlegum fullyrðingum um að Sigmundur Davíð græfi undan efnahagslegu fullveldi þjóðarinnar.

En RÚV þegir um frétt sem gengur í berhögg við herförina gegn Sigmundi Davíð. Þetta heitir að ljúga með þögninni.


Nýfrjálshyggja er dauð - Corbyn líka

Jeremy Corbyn var svar breska Verkamannaflokksins við nýfrjálshyggju Tony Blair. Nýfrjálshyggjan er dauð, segir í Guardian, og að vestræn stjórnmál séu í kreppu.

Corbyn er gamaldags sósíalisti og eins fjarri nýfrjálshyggju og hugsast getur. Hann fær samt ekki framgang fyrir stefnumál sín og stendur frammi fyrir pólitískri aftöku.

Annað viðbragð við endalokum frjálshyggju, Donald Trump í Bandaríkjunum, á í vök að verjast.

Þýðir það að nýfrjálshyggjan sé ekki dauð? Nei, en hitt er augljóst að þegar ríkjandi hugmyndakerfi lætur undan síga tekur tíma að finna nýja pólitíska orðræðu í stað þeirrar sem úreldist.


mbl.is Kjósa um forystu Corbyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar standa fyrir ríkisafskipti og útgjöld

Meginmál Pírata er ný stjórnarskrá, sem felur í sér meiri ríkisafskipti af málefnum borgaranna. Til að fjármagna aukin ríkisafskipti verður að hækka skatta. 

Eins og sást í prófkjöri Pírata er flokkurinn hlynntur tilraunum í þjóðfélagsmálum, rétt eins og sósíalistar síðustu aldar. Prófkjör Pírata er lýðræðislegt svarthol þar sem sérfræðingar, þ.e. forritarar, ákveða niðurstöðuna, auðvitað í samráði við flokkseigendur.

Píratar boða ekki opið og frjáls samfélag. Þeir standa fyrir miðstýrða valdahyggju.


mbl.is Aukin ríkisútgjöld í stefnu Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband