RÚV er ekki með nein gögn, en vantar svar við lykilspurningum

RÚV/Reykjavík Media lagði aldrei fram nein gögn um Wintris-málið. Í viðtali við mbl.is þann 14. júlí sl. kemur eftirfarandi fram:

Reykja­vík Media hef­ur ekki af­hent nein gögn úr Pana­maskjöl­un­um. Þetta staðfest­ir Jó­hann­es Kr. Kristjáns­son, rit­stjóri Reykja­vík Media, í sam­tali við mbl.is.

Í umfjöllun mbl.is kemur einnig fram að lögmaður RÚV/Reykjavík Media segir ,,ómögulegt" að afhenda gögn því þau séu ekki handbær.

Engu að síður segir RÚV/Reykjavík Media að ákveðnum ,,lykilspurningum" sé ósvarað. En þessar lykilspurningar hljóta að vera reistar á gögnum - því annars væri engum spurningum til að dreifa.

RÚV/Reykjavík Media nefna ekki einu orði út á hvað þessar lykilspurningar ganga. Enda eru engin fyrirliggjandi gögn - samkvæmt játningu Jóhannesar og lögmanns RÚV/Reykjavík Media.

RÚV/Reykjavík Media eru með öðrum orðum ekki með neitt í höndunum til að réttlæta áróðursherferðina gegn Sigmundi Davíð og Önnu Sigurlaugu. Þetta heitir á íslensku faglegt og siðferðilegt gjaldþrot.


mbl.is Lykilspurningum aldrei svarað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV ætlaði sér að fella Sigmund Davíð

Aðför RÚV að forsætisráðherra þáverandi, Sigmundi Davíð, var pólitísk. Allt frá alræmdu viðtali verktaka RÚV við Sigmund Davíð í ráðherrabústaðnum 11. mars tók fréttastofa RÚV að sér að halda ,,lífi” í málinu fram að útsendingu Kastljóss rúmum þrem vikum seinna.

RÚV hélt uppi raðfréttum af málinu í þessar þrjár vikur. Fréttaútsendingar RÚV þekja allan sólarhringinn og fá dreifingu í gegnum útvarp, sjónvarp og netsíðu. Vegna fyrirferðarinnar á fjölmiðlamarkaði er RÚV í stakk búið að leggja línurnar um fréttaefni hvers dags.  Með raðfréttum var skapað neikvætt andrúmsloft í kringum forsætisráðherra og sú mynd dregin upp hann væri skattsvikari, ósannindamaður og vanhæfur í embætti.

Blaðamenn breska dagblaðsins Guardian höfðu aðgang að sömu gögnum og RÚV. Þann 3. apríl fjallar blaðið  ítarlega um Wintris  og forsætisráðherrahjónin  og segir:

Guardian hefur ekki sé neinar sannanir fyrir skattaundanskotum, undabrögðum eða óheiðarlegum ávinningi Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar eða Wintris.(The Guardian has seen no evidence to suggest tax avoidance, evasion or any dishonest financial gain on the part of Gunnlaugsson, Pálsdóttir or Wintris.)

Niðurstaða Guardian er algerlega í mótsögn við áróðursherferðina sem þjóðarfjölmiðillinn á Íslandi keyrði í þrjár vikur. Blaðamenn Guardian eru yfirvegaðir, sanngjarnir og stunda hlutlæga fréttamennsku. Fréttamennskan á Efstaleiti er af allt annarri gerð.

Í framhaldi af fyrirsátinni í ráðherrabústaðnum birti Anna Sigurlaug færslu á fésbók sinni um Wintris. Í færslu frá 15. mars sagði hún m.a. um Wintris

KPMG hefur haldið utan um skattamálin fyrir mig og mér hefur frá upphafi verið mjög mikilvægt að þau séu í fullkomnu lagi. Það var því aldrei frestað neinum skattgreiðslum eða neitt þess háttar þó að möguleikar væru til þess samkvæmt lögum.

Þegar við Sigmundur ákváðum að gifta okkur fygldi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Bankinn minn úti hafði gengið út frá því að við værum hjón og ættum félagið til helminga. Það leiðréttum við á einfaldan hátt árið 2009 um leið og við gengum frá því að allt væri í lagi varðandi skiptingu fjármála okkar fyrir brúðkaupið.


Ef RÚV stundaði heiðarlega fréttamennsku hefði stofnunin sagt frá viðbrögðum Önnu Sigurlaugar og tilgreint hvers vegna þau væri komin til. Fréttastofan vissi fullvel hvers vegna Anna Sigurlaug birti þessa færslu; það var vegna fyrirsátar verktaka RÚV í ráðherrabústaðnum. En fréttastofan var ekki að reyna að upplýsa heldur vekja grunsemdir og ala á tortryggni. Fréttir RÚV af Wintris-máli Önnu Sigurlaugar og Sigmundar Davíðs næstu daga voru allar því marki brenndar að sýna hjónin í neikvæðu ljósi.

Þingmenn stjórnarandstöðu spiluðu vitanlega með RÚV og voru uppfullir af reiði, eins og Helgi pírati sagði í fréttum.

Fyrstu dagana eftir færslu Önnu Sigurlaugar reyndi RÚV að finna heppilega skotlínu á þau hjónin. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, var kallaður í viðtal mánudaginn 21. mars. Þá sagði Árni Páll að ,,stóra spurningin" væri ,,hvort forystumenn deildu ekki kjörum með þjóðinni." Árni Páll sagði ekki eitt aukatekið orð um mögulegt vanhæfi forsætisráðherra í viðtalinu. Fimmtudagskvöld í sömu viku finnst RÚV kominn tími á annan snúning á forsætisráðherra og kallar Árna Pál enn á ný til vitnis. Fréttafyrirsögnin er:,, Allt bendi til vanhæfis forsætisráðherra.”  Á mánudag dettur Árna Páli ekki í hug vanhæfi. RÚV klukkar Árna Pál á fimmtudegi í sömu viku og vill fá yfirlýsingu um vanhæfi. Árni Páll spilar með. Annars kæmist hann ekki í viðtal á RÚV. Nú skyldi hamrað á vanhæfi. Seinna, þegar áróðri RÚV um vanhæfi var hnekkt, kaus RÚV að ljúga með þögninni.

RÚV ól á tortryggni á milli ríkisstjórnarflokkanna með hönnuðum fréttum þar sem orð viðmælenda voru afflutt til að þjóna tilganginum. Dæmi um það er hádegisfrétt föstudaginn langa, 25. mars. Þar endursagði fréttamaður RÚVorð þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Brynjars Níelssonar, þannig að hann virtist vilja kalla til þingflokksfund sjálfstæðismanna til að ræða fjármál forsætisráðherrahjónanna. Það væri stórpólitískt ef stjórnarþingmaður óskaði eftir þingflokksfundi undir þessum kringumstæðum. Það eitt að kalla saman slíkan fund er yfirlýsing um vantraust. Í inngangi fréttarinnar segir orðrétt:

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Wintris-málið sé óþægilegt fyrir ríkisstjórnarsamstarfið, sérstaklega í ljósi samninga við kröfuhafa og afnáms hafta. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þurfi að funda um málið og fá allar staðreyndir upp á borð áður en hægt sé að taka afstöðu til þess. (leturbreyting pv).

Þetta er beinlínis rangt. Brynjar óskaði ekki eftir þingflokksfundi. Brynjar var í sumarbústað þessa páskahelgi og hann sá sig knúinn að birta bloggfærslu strax eftir hádegisfréttir til að taka af öll tvímæli vegna matreiðslu fréttamannsins á viðtalinu.  Brynjar skrifar:  

Vitnað var í mig í fréttum RÚV fyrr í dag vegna eigna eiginkonu forsætisráðherra og krafna hennar í slitabúin. Mér fannst það ekki mikil frétt enda sagði ég ekkert annað en sem öllum er ljóst. Umræðan um málið er óþægileg fyrir ríkisstjórnina. Stjórnarflokkarnir komast því ekki hjá því að fara yfir málið og ræða það, sérstaklega ef fram kemur vantrauststillaga á þinginu.

Ég hef ekki opinberlega tekið efnislega afstöðu til málsins enda veit ég ekki allar staðreyndir þess. Mér finnst hins vegar afar langsóttar kenningar um vanhæfi ráðherrans. Þá er ekki hægt að halda því fram að ráðherrann hafi misfarið með vald í framgöngu sinni gagnvart slitabúunum, hvað þá að aðrir hagsmunir hafi ráðið en almannahagsmunir, sem er auðvitað aðalatriðið. Ég get hins vegar alveg skilið óánægju margra að þessar hagsmunaupplýsingar hafi ekki legið fyrir. Ég vil hins vegar taka það fram, ef einhver skyldi vera í vafa eftir fréttina, að ég er mikill stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar sem og forsætisráðherra enda hefur þessi ríkisstjórn unnið þrekvirki í stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar.

Þessa eindregnu stuðningsyfirlýsingu Brynjars við forsætisráðherra hafði RÚV að engu enda var dagskipun á fréttastofunni að keyra málið áfram þannig að Sigmundur Davíð væri sekur maður og nyti ekki trausts, ekki einu sinni hjá samstarfsflokknum í ríkisstjórn.

Loksins, loksins þegar Kastljósþátturinn var sýndur sunnudaginn 3. apríl var allt til reiðu að greiða forsætisráðherra náðarhöggið. Í inngangi  tengdi Helgi Seljan Sigmund Davíð við Pútín Rússlandsforseta og það gaf tóninn. Fyrirsátinni í ráðherrabústaðnum  var gert hátt undir höfði og klippt þannig til að forsætisráðherra kom sem verst út. Vitanlega kom hvergi fram að viðtalið var fengið með lygum og blekkingum.

Í hádegisfréttum daginn eftir, mánudaginn 4. apríl, tilkynnti RÚV að bein útsending yrði frá mótmælum sem boðuð höfðu verið á samfélagsmiðlum á Austurvelli síðdegis sama dag. Til mótmælanna var boðað eftir Kastljósþáttinn. Þjóðarfjölmiðillinn tók þannig fullan þátt í hámarkinu á múgæsingunni sem stofnunin kynti sleitulaust undir í rúmar þrjár vikur.

Lögin um RÚV segja um markmið stofnunarinnar að hún skuli ,,stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.”

Það stuðlar ekki að lýðræðislegri umræðu að standa fyrir aðför að stjórnvöldum og svo sannarlega eykur það ekki félagslega samheldni. Forsætisráðherra og eignkona hans brutu engin lög. Ekkert stjórnvald, svo sem skatturinn eða umboðsmaður alþingis, lögregla eða ríkissaksóknari, sáu ástæðu til að efna til rannsóknar á fjármálum Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar. Enda ekkert tilefni til. Anna Sigurlaug fékk föðurarf og geymdi peninginn á erlendum bankareikningi. Það er allt og sumt. En með því að efna til moldviðris, sem stóð yfir í þrjár vikur, tókst að láta líta svo út að forsætisráðherrahjónin væru stórglæpamenn.

RÚV nýtti sér almennt vantraust til stjórnmálanna og bjó til atburðarás sem leiddi til afsagnar forsætisráherra 5. apríl. RÚV stundaði siðlausa fréttamennsku til að koma pólitísku höggi á Sigmund Davíð þáverandi forsætisráðherra.


mbl.is Tóku ekkert tillit til upplýsinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband