Alþjóðavæðing færir okkur fátækt, Trump og Brexit

Alþjóðavæðing í viðskiptum og fólksflutningum átti að auka velmegun, bæði í þróuðum iðnríkjum sem og vanþróuðum ríkjum þriðja heimsins. Hugmyndafræði alþjóðavæðingar má rekja til sígildra kenninga frá 18. og 19. öld um ábata frjálsrar verslunar.

Á síðustu árum og misserum er vaxandi efi um ágæti alþjóðavæðingar. Andóf gegn alþjóðavæðingu birtist í ýmsum myndum, t.d. úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, og stuðningi bandarískra launþega við Donald Trump.

Nóbelshagfræðingurinn Joseph E. Stiglitz dregur saman í grein tölfræði sem sýnir að almennir launþegar í Bandaríkjunum og Evrópu hafa tapað á alþjóðavæðingu síðustu áratuga. Aðeins þeir ríkustu, t.d. ríkustu tíu prósent Bandaríkjamann, bættu hag sinn - hinir ýmist stóðu í stað eða drógust aftur úr í tekjum. Launþegar á vesturlöndum, sem tapa á alþjóðavæðingunni, leita að farvegi til að tjá óánægju sína. Trump og Brexit eru slíkir farvegir.

Alþjóðavæðingu verður ekki einni kennt um dýpri gjá milli þeirra ríkustu og alls almennings á vesturlöndum, tækibreytingar koma einnig við sögu. En alþjóðavæðing, og hugmyndafræðin þar á bakvið um frjálst flæði fjármagns, viðskipta og fólks, er samnefnarinn.

Engin einföld lausn er á þessum vanda. Ef alþjóðavæðing yrði sett í bakkgír, tollamúrar reistir, hömlur settar á tilfærslu fjármagns og landamæri lokuð á fólksflutninga er hætt við að allir myndu tapa, bæði í þróunarríkjum og vanþróuðum. Alþjóðavæðingin hefur, þrátt fyrir allt, knúið áfram hagvöxt um allan heim.

Stiglitz leggur til aukin útgjöld til velferðar þeirra sem tapa á alþjóðavæðingunni og vísar til fordæmis Norðurlandanna. Kannski yrði það nóg en mögulega er það orðið of seint.

Allt eins líklegt er að efnahagsbúskapur á alþjóðavísu sé kominn að vatnaskilum. Að ekki sé lengur mögulegt að notast við alþjóðavæðingu sem aðferð til að auka hagsæld. Kannski er að við þurfum ný viðmið samhliða nýjum skilningi á velmegun sem ylli róttækum breytingum.

Ef það er tilfellið, að alþjóðavæðing hafi runnið sitt skeið, og nýtt fyrirkomulag sé handan sjóndeildarhringsins, er hætt við að óreiða setji svip sinn á vatnaskilin. Trump og Brexit væru þá fyrirboði þess sem koma skal.

 


Bloggfærslur 6. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband