Með Eygló yrði Framsókn vinstriflokkur

Eygló Harðardóttir mátar formannsstól Framsóknarflokksins. Eygló rekur samfylkingardeild innan Framsóknarflokksins; hún boðar ríkisvæðingu húsnæðismála og er höll undir ESB-aðild.

Með Eygló sem formann yrði Framsóknarflokkurinn vinstriflokkur. Við höfum þegar nóg af slíkum smáflokkum sem keppast við að finna leiðir að taka úr hægri vasa fólks til að færa yfir í þann vinstri og kalla réttlæti.

Sjálfstæðisflokkurinn myndi hagnast mest á formennsku Eyglóar.

 


mbl.is Vilji til að halda flokksþing í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppboðsleiðin er áfangi inn í ESB

Uppboð á veiðiheimildum í landhelginni er áfangi til að gera Ísland að ESB-ríki. Í dag eru í gildi takmarkanir á fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi. En útlendingar eru áhugasamir að kaupa veiðiheimildir á fiski í Norður-Atlantshafi.

Færeyingar reyndu uppboð á veiðiheimildum og keyptu útlendingar um 70 prósent þeirra. Færeyingar eru ekki með girðingar gagnvart fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi. Vinstriflokkarnir eru áhugasamir um uppboðsleiðina hér á landi. Steingrímur J. Sigfússon kom fram í RÚV og boðaði tilraunir með uppboð á veiðiheimildum.

Tilraunir með uppboð á veiðiheimildum á Íslandsmiðum munu óhjákvæmilega leiða til lægra verðs en í Færeyjum þar sem útlendingar fá ekki að bjóða í heimildir í íslensku landhelginni. Í framhaldi munu vinstrimenn hefja upp áróður fyrir aðkomu útlendinga til að tryggja hærra verð.

Össur Skarphéðinsson, sem svínbeygði Steingrím J. sumarið 2009 og lét hann kyngja ESB-umsókninni, biðlar til Katrínar Jakobsdóttur formanns Vg að leggja í leiðangur með Samfylkingu og Viðreisn til að gera uppboðsleiðina að kosningamáli.

Össur er eitilharður ESB-sinni og telur uppboð á veiðiheimildum fyrsta skrefið að brjóta á bak aftur hömlur á fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. En það voru einmitt þær hömlur sem komu í veg fyrir að Össur, sem utanríkisráðherra Jóhönnustjórnarinnar, kæmist áfram með ESB-umsóknin á síðasta kjörtímabili.

Uppboðsleiðin er Trójuhesturinn sem ESB-sinnar sjá fyrir sér að opni landhelgi Íslands fyrir skipaflota Evrópusambandsins. ESB-sinnar láta tilganginn helga meðalið. Þeir vilja komast að kjötkötlunum í Brussel þótt það kosti efnahagslegt fullveldi íslensku þjóðarinnar.


Múslímar fella Merkel, styrkja Trump

Merkel kanslari Þýskalands er á hraðri niðurleið í vinsældum eftir múslímsk hryðjuverk í Þýskalandi. Gagnrýnandi Merkel í hægra bandalaginu, Horst Seehofer, styrkist enda tekur hann harðari afstöðu til viðtöku múslímskra flóttamanna.

Í Bandaríkjunum reynir Donald Trump að endurræsa kosningabaráttu sína eftir ömurlega viku með því að ráðast af heift gegn múslímum og hryðjuverkamenningu þeirra. Obama forseti reynir að róa landa sína og segir að Ríki íslams sé ,,ekki ósigrandi." Obama tekur vara á og segir mögulegt að herskáir múslímar geri hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum. Hann veit sem er að múslímsk hryðjuverk eru vatn á myllu Trump.

Umræðan í Evrópu um múslímavandann er þroskaðri en í Bandaríkjunum. Bæði er að nálægðin við miðausturlönd er meiri og hlutfall múslíma stórum ríkjum Evrópu er á milli 5 og 8 prósent en um eitt prósent í Bandaríkjunum.

Þýska útgáfan Der Spiegel segir rót flóttamannavandans í Evrópu vera Sýrland. Borgarastyrjöldin þar er komin á fimmta ár. Um fjórar milljónir Sýrlendinga er á flótta. Í Sýrlandi stríða fjórar meginfylkingar: uppreisnarhópar sem njóta stuðnings Evrópuríkja og Bandaríkjanna, Assad forseti með Rússland sem bakhjarl, Ríki íslams og Kúrdar. 

Á meðan Evrópa/Bandaríkin annars vegar og hins vegar Rússland styðja hvorn sinn aðila stríðsins eru engar líkur á friði. Vegna herskárrar stefnu Evrópu/Bandaríkjanna í bakgarði Rússa, þ.e. Úkraínu, gefur Pútín Rússlandsforseti ekki tommu eftir í Sýrlandi.

Æ betur skýrist sú mynd að múslímavandinn, flóttamannastraumur og hryðjuverk, mun aðeins versna á meðan óvinsamleg samskipti eru ríkjandi á milli Evrópu/Bandaríkjanna og Rússlands. Vandinn er kominn á það stig að öflugasti stjórnmálamaður Evrópu riðar til falls og í Bandaríkjunum fær skotglaður frambjóðandi til forseta byr í seglin. Pútín hlýtur að vera skemmt.


mbl.is „Þetta eru skepnur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband