Össur og uppskriftin að ónýtum flokki

Yfirplottari Samfylkingar og meginhöfundur að hruni flokksins, Össur Skarphéðinsson, spáir því að Sigmundur Davíð boli Sigurði Inga út sem forsætisráðherra þrem vikum fyrir þingkosningar. Það myndi leiða til slita ríkisstjórnarsamstarfsins kortéri fyrir kosningar.

Össur kann uppskriftina að ónýtum flokk, um það vitnar staða Samfylkingar. En að hann trúi því virkilega að nokkrum utan Samfylkingar detti í hug að fylgja uppskriftinni bendir ekki til að sá síkáti sé vel jarðtengdur.

Helsta sigurvon Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að flokkarnir gangi samstíga til kosninga. Össur óskar sér að trylltir valdadraumar eyðileggi stjórnarflokkana.

 


Bjarni foringi

Eitt einkenni foringja er að þeir höggva á hnútinn, taka af skarið þegar óvissa er uppi. Með því að umræður urðu um slæma útkomu kvenna í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi skapaðist óvissa um kjörþokka framboðslistans.

Óvissan jókst þegar klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn, ákvað að tefla fram fyrrum varaformanni móðurflokksins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, í fyrsta sæti.

Bjarni Ben. formaður Sjálfstæðisflokksins, ákvað að við svo búið mætti  ekki standa og fékk listanum breytt í kjördæmisráði í þágu sterkara kynsins án þess að nokkur segði múkk. Það er annað einkenni foringja.


mbl.is Bryndís færð upp í annað sæti í SV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgaralaun eru marxismi

Vinna eftir getu en fá laun eftir þörfum er gamall draumur marxista. Hængurinn á þessar útópíu er að vinnugetan er háð huglægu mati starfsmannsins og þarfirnar sömuleiðis.

Ef fólk mætti ráða ynni það sem minnst en fengi sem mest.

Útópía marxista tekur ekki mannlegt eðli með í reikninginn. Ekki frekar en Píratar.


mbl.is Bjarni hjólar í borgaralaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustið byrja heima, Sigurður Ingi

Eftir hrun urðu þjóðfélagsöfl á Íslandi áberandi sem ólu á vantrausti. Sigur Samfylkingar og Vinstri grænna í kosningunum 2009 var afleiðing af hruni og vantrausti.

Við kosningarnar 2013 tókst hófsömum stjórnmálaöflum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, að ná meirihluta á alþingi. Þjóðfélagsöflin sem ólu á vantrausti, vinstriflokkarnir meðtaldir, héldu þó áfram sinni iðju og notuðu smá mál og stór til að kynda undir ólgu og efna til mótmæla.

Við þessar kringumstæður verða þeir hófsömu og yfirveguðu að standa vaktina og láta ekki undan óreiðuöflunum. Það ætti ekki að efna til óvinafagnaðar þótt óreiðuöflin sameinist um að knésetja leiðtoga sem talar fyrir stöðugleika og sígandi lukku.

Traustið byrjar heima.


mbl.is Tortryggni eykst þegar traustið hverfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur Framsóknar vilja Sigmund Davíð, andstæðingarnir Sigurð Inga

Ný könnun Viðskiptablaðsins sýnir að Sigmundur Davíð nýtur afgerandi stuðnings kjósenda Framsóknarflokksins. Þeir sem ekki ætla að kjósa Framsóknarflokkinn vilja á hinn bóginn að Sigurður Ingi verði formaður - enda yrði það til að veikja Framsókn.

Æ fleiri átta sig á að framboð Sigurðar Inga veikir Framsóknarflokkinn. Karl Garðarsson þingmaður flokksins hafði boðað stuðning við Sigurð Inga en sá sig um hönd og ræðir óvissuferð vinstrimanna í staðinn.

Framboð Sigurðar Inga var tilkynnt í beinni útsendingu RÚV og er liður í rætinni áróðursherferð. Sveinn Óskar Sigurðsson spyr hvort réttlætið eða RÚV eigi að sigra í formannskjöri Framsóknarflokksins næstu helgi.

Frosti Sigurjónsson þingmaður líkti RÚV-meðferðinni sem hann fékk við opinbera aftöku. RÚV-framboð Sigurðar Inga er gagngert til að veikja Framsóknarflokkinn. Það er í höndum framsóknarmanna að svara með viðeigandi hætti.


mbl.is Farið gegn formanninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólína og hrun vinstriflokkanna

Ólína Þorvarðardóttir þingmaður Samfylkingar yrkir um hrun vinstriflokkanna og klykkir út með að við blasi ,,stjórnmálaupplausn."

Greining Ólínu er röng. Vinstriflokkarnir bjuggu til stjórnmálaupplausn í tíð stjórnar Jóhönnu Sig., m.a. með umboðslausri ESB-umsókn og tilræði við stjórnarskrána.

Kjósendur refsuðu Vinstri grænum og Samfylkingu í kosningunum 2013. En vinstrimenn neituðu að læra af sögunni og héldu áfram upplausnarstefnu sinni, með málþófi á alþingi og öskri og tunnuslætti á Austurvelli.

Fyrirsjáanlegt tap vinstriflokkanna í haust er til marks um að þjóðin kjósi stöðugleika en hafni upplausn.


Stemmarinn er með ríkisstjórninni - tveir kostir

12 formenn í fyrstu stjórnvarpsumræðum vegna haustkosninganna römmuðu inn fyrir kjósendum valkostina. Stöðugleiki og traust lífskjör annars vegar og hins vegar efnahagsleg óreiða og pólitísk upphlaup.

Sigurvegari í sjónvarpsumræðum, að margra áliti, var formaður yngsta stjórnmálaaflsins, Flokks mannsins. Ef stjórnarandstaðan gerir ekki betur en að nýgræðingur trompi málflutninginn þeirra er ekki góðs að vænta úr þeirri átt.

Kjósendur vita hvar þeir hafa Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, sem standa fyrir traust ríkisfjármál, stighækkandi velferð og meðfylgjandi stöðugleika.

Stjórnarandstaðan snýst mest um upphlaup á Austurvelli, eins og kjósendur vita.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eiga að ganga samstíga inn í þessa kosningabaráttu - þar liggur sigurvonin.


mbl.is „Heilmikil hreyfing á fylginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapandi eyðilegging kapítalismans og evran

Seðlabanki Evrópu heldur fjármálakerfi evru-ríkja á floti með núllvöxtum. Deutsche Bank og fleiri bankar eru gjaldþrota og þrífast aðeins í skjóli seðlabankans. Starfandi bankar, sem eru gjaldþrota, hamla vexti efnahagskerfisins vegna þess að þeir lána ekki fé til framkvæmda.

Hans-Werner Sinn er áhrifamikill þýskur hagfræðingur. Hann segir tíma til kominn að leyfa skapandi eyðileggingarmætti kapítalismans að hreinsa til í dánarbúi evru-ríkjanna. Ókeypis peningar eru aðeins ávísun á froðuhagkerfi þar sem ekki er innistæða fyrir hækkunum undanfarinna ára á verðbréfum og fasteignum.

Skapandi eyðilegging felur í sér stórfellt gjaldþrot í fjármálakerfinu og rekstri sem ekki skilar eðlilegum arði. Jafnframt að þau ríki sem ekki þola evru-samstarfið taki upp eigin gjaldmiðla og öðlist þannig samkeppnishæfi.

Evran er gervigjaldmiðill í þeim skilningi að hún mælir ekki raunstöðu hagkerfis þeirra ríkja sem notast við gjaldmiðilinn. Eina leiðin til að halda evru-samstarfinu gangandi í núverandi mynd er að færa efnahagskerfið undir áætlunarbúskap. Sovétríkin sálugu eru minnisvarði um slíka tilraun.


mbl.is Hlutabréfin ekki lægri í tugi ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 ára andstaða þjóðarinnar við ESB-aðild

Meirihluti þjóðarinnar er samfleytt í sjö ár andvígur aðild að Evrópusambandinu. Á þeim tíma var umsókn engu að síður send til ESB, þ.e. umsókn Samfylkingar frá 16. júlí 2009, en hún strandaði áramótin 2012/2013 þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sig. gafst upp á aðlögunarferlinu.

Tvö einkenni ESB-sinna hér á landi eru áberandi. Í fyrsta lagi hve lélegir þeir eru að taka til máls í umræðunni um stöðu og þróun Evrópumála og alþjóðamála almennt. Í öðru lagi hve tækifærismennska er þeim töm. Við eigum alltaf að græða á aðild og til þess þarf að ,,kíkja í pakkann."

Ístöðuleysi og tækifærismennska ESB-sinna endurspeglast í þeirri niðurstöðu að aðeins rúm tíu prósent aðspurðra er mjög hlynntur aðild á meðan yfir 30 prósent eru mjög andvígir aðild. 


mbl.is Meirihlutinn vill sem fyrr ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Davíð mættur, fylgið upp

Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins tók þátt í fyrstu umræðu leiðtoga stjórnmálaflokka vegna þingkosninga í sjónvarpssal í síðustu viku. Og það er eins við manninn mælt, fylgi flokksins sígur upp á við.

Dagana á undan sjónvarpsumræðum var Sigmundur Davíð í fréttum þegar hann hlaut glæsilega kosningu í sínu kjördæmi og staðfestingu á hlutverki sínu sem óskoraður foringi flokksins.

Kjósendur vilja Sigmund Davíð.


mbl.is Fylgi við Framsókn eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband